22.04.1922
Neðri deild: 52. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 113 í D-deild Alþingistíðinda. (1808)

88. mál, saga Alþingis

Sveinn Ólafsson:

Jeg vildi aðeins lítillega svara hv. 1. þm. Skagf. (M. G.) að því leyti, sem svör hv. meðflm. míns 1. þm. N.-M. (Þorst. J.) tóku ekki til athugasemda hans. Mjer skilst, að hv. 1. þm. Skagf. (M. G.) leggi mikla áherslu á, að ekki sje meiru fje eytt en nauðsyn krefur, og í sambandi við þá skipun, sem gerð verður um starfið. Með öðrum orðum, hann vill, að þegar verði ljóslega ákveðið, hverju eyða megi í þessu skyni. Öll varfærni í fjárgjöldum ríkisins er sjálfsögð, enda vill nú svo vel til, að þetta mál liggur undir næstu þing, sem hafa það algerlega á valdi sínu, hversu mikið fje verður notað. Eftir samþykt till. leitar stjórnin til fróðra manna í þessu máli, kemur svo til þingsins og biður um þær upphæðir, sem nauðsynlegar eru. Upphæðir þær, sem veittar verða, miðast þá við þingviljann í sambandi við; hve ítarlega á að vinna þetta starf.

Það sem spurt er um nú er þetta: Vilja þm. yfirleitt, að saga Alþingis sje skrásett og útgefin 1930? Hinu ráða næstu þing, hve mikil rækt verður lögð við þetta starf, vilji þm., að byrjað verði á því nú.