29.03.1922
Neðri deild: 35. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 307 í B-deild Alþingistíðinda. (185)

1. mál, fjárlög 1923

Stefán Stefánsson:

Af því að mjer var eiginlega falinn flutningur brtt. 153, XXIII b, um styrk til bátabryggju í Ólafsfirði, þá má það þó ekki minna vera en jeg þakki þeim tveim háttv. þm. úr sjávarútvegsnefnd, sem hafa tekið hana til flutnings. En til nefndarinnar leitaði jeg með þetta erindi, bæði af því jeg vissi, að þar voru þeir mennirnir, sem einna best skyn bera á það mál, og svo einnig til þess að vita, hvers styrks jeg mætti vænta frá nefndinni málinu til framgangs í þinginu. Háttv. nefnd tók því þá þegar mjög vel og sendi það fjvn. með sínum eindregnu meðmælum, en hún hefir ekki viljað taka það upp til flutnings.

Þetta mál er þannig til komið, að í haust sem leið tóku sig saman nokkrir hinir framtakssömustu dugnaðarmenn þar í Ólafsfirði og bundust fyrir því, að þar yrði bygð bryggja, sem stæði órótuð, þótt brim og boðar skyllu að landi. En það hefir farið svo, að þótt bryggjur hafi þar verið bygðar, þá hefir hver norðangarðurinn eftir annan kastað þeim langt upp á land eftir skamman tíma. Þetta er bæði óhæfilegur kostnaður og óþægindi fyrir kauptúnið og allan útveginn, þar sem eru að minsta kosti 12 vjelbátar og því útflutt þaðan alt að 3000 skp. af fiski á ári. Í Ólafsfirði er um 600 manns og mikill meiri hluti alls þess fólks lifir eingöngu af sjávarútvegi. Þörfin er því svo augljós, að jeg tel ekki þurfa að fjölyrða um, hve bráðnauðsynlegt það er, að hið opinbera hlaupi undir bagga, þar sem hjer er um það að ræða að tryggja og halda lífinu í þeim atvinnuvegi, sem bjargar framtíð heillar sveitar, og sje það vilji þingsins að hlynna að framleiðslunni í landinu, þá vona jeg, að þetta litla framlag verði samþykt, þar sem ekki er farið fram á meira en 1/3 kostnaðar við bryggjugerðina, eða 8000 kr.