24.02.1922
Neðri deild: 8. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 185 í D-deild Alþingistíðinda. (1898)

24. mál, skipun viðskiptamálanefndar

Jakob Möller:

Jeg vil aðeins gera grein fyrir atkvæði mínu. Jeg mun greiða þessari till. atkv. mitt. Hefi jeg þó ekki breytt skoðun minni á viðskiftahöftum frá því á Alþingi í fyrra. Jeg hefi sjeð, að störf síðasta þings og framkvæmdir hæstv. landsstjórnar í þá átt að ráða bót á peningakreppunni hafa ekki borið þann ávöxt, er menn bjuggust við, en af því hefi jeg ekki sannfærst um, að rjett sje að hverfa aftur að innflutningshöftum.

Í þessu máli hafa tvær stefnur verið uppi. Önnur er sú, að reyna að bæta sem best lánstraust landsins og bankanna og bankasamböndin við útlönd, en hin er sú, að girða landið í höftum. Og það er seinni stefnan, sem hæstv. landsstjórn hefir sýnt mestan áhuga á að fylgja fram.

Jeg kastaði þeirri spurningu til hæstv. fjármálaráðherra (M. G.) við 1. umr. fjárlaganna um daginn, hvers vegna ekki hefði verið stranglega gerbannaður innflutningur á ónauðsynlegum vörum. Hann kvaðst ekki hafa haft heimild til þess, og jafnvel ekki fengið því ráðið. En þetta er ekki rjett. Heimildin er til, enda hefir stjórnin verið að káka við höft, enda þótt lítinn ávöxt hafi borið. Það er því undarlegt að heyra hæstv. ráðh. (M. G.) vera að ala á þessu. Og hafi hann ekki fengið því ráðið, sem hann áleit hið eina rjetta, þá hefði hann átt að gera það, sem hver ráðherra á að gera undir slíkum kringumstæðum og hann veit vel hvað er.

Það er nú eiginlega ekki í mínum verkahring að áfella stjórnina í þessu efni, en hitt er skylda mín, að áfella hana fyrir að hafa ekki gert það, sem hún lofaði á síðasta Alþingi. Stefna meiri hlutans þá var sú að bæta bankasamböndin út á við, og í því skyni að efla Íslandsbanka samþykti þingið einmitt lögin um hlutakaupin í bankanum og um lántökuheimild í því skyni. Þá lofaði hæstv. landsstjórn því, ef þau frv. yrðu samþykt, að fara að vilja meiri hlutans og sjá um, að bæta peningamarkað vorn út á við. Frv. voru samþykt, lánið er tekið. Enn stendur þó alt við sama um viðskiftin út á við, og ekki bólar á því, að bankarnir geti „yfirfært“, frekar en áður.

Það verður ávalt álitamál, hvaða vara sje óþörf, ef banna á innflutning á ónauðsynlegri vöru; hins vegar er þess að gæta, að jafnvel nauðsynjavöru má eyða svo, að í óhófi sje.

Verður varla komið í veg fyrir, að fólk eyði, meðan peningar eru til, ef það er annars svo gert. Innflutningshöft á einstaka vörutegundum ná því aldrei tilgangi sínum.

Þetta hefir orðið reynslan annarsstaðar, enda hafa allar þjóðir horfið frá þeirri stefnu.

Hv. þm. Ak. (M. K.) þykir þetta þungskilið, en þetta er reynslan, bæði erlendis og hjer. En í annan stað er þess að gæta, að höftin verka oft þveröfugt við tilganginn. Innflutningshöftin hjer áttu sinn þátt í því, að gjaldeyrisverslunin fór utan hjá bönkunum. Í fyrstu var sem sje farið þannig að, að þeir einir voru látnir fá innflutningsleyfi, sem höfðu erlendan gjaldeyri á reiðum höndum. Þegar bankarnir svo neituðu mönnum um erlendan gjaldeyri, var leitað til einstakra manna.

En það er ekki heldur það, sem einkum kreppir að okkur nú, að of mikið sje flutt inn. Vöruinnflutningur hefir einmitt stórum minkað síðastliðið ár, síðan innflutningshöftunum var af ljett. Það eru þá gamlar „syndir“, sem vjer eigum nú að gjalda. Það eru skuldirnar frá fyrri árum, sem þvælast fyrir. Landið þolir ekki lánstraustsspjöll þau, sem leiða af ógreiddum erlendum skuldum. Þær fella gjaldeyri okkar í verði, sem í raun og veru átti að standa betur en dönsk króna.

1920 nam vöruinnflutningur Dana um 3 miljörðum króna, en útflutningur aðeins 1¼ miljarð. 1921 var innflutningur 100 miljónum meiri en útflutningur, og þó hefir gjaldeyrir þeirra stigið mjög í verði á því ári. Verslunarjöfnuður okkar er betri. Samkvæmt skýrslum þeim, sem hægt var að fá á síðasta þingi, átti meira að hafa verið flutt út en inn á árinu 1919, og innflutningur alls ekki að hafa orðið meira en 5 milj. meiri en útflutningur á árinu 1920. Síðastliðið ár má telja vafalaust, að útflutningur hafi verið meiri en innflutningur. Og þó fellur okkar gjaldeyrir í verði. Þetta stafar af því, að við þolum ekki fljótandi skuldir. Viðskiftaveltan er svo lítil. Ekkert er gert til þess að binda þessar skuldir, og þó er auðsætt, að einmitt á því ríður mest. Hefði stjórnin komið ríkisveðbankanum á stofn og reynt að selja brjef hans erlendis, mundi að öllum líkindum mikið af þessum skuldum greitt.

Tryggingarfjelögin hefðu eflaust sjeð sjer hag í því að kaupa brjefin. Þau hefðu fengið þau með afföllum hjer, og svo hefðu afföllin af íslensku krónunni komið í ofanálag. Með þessu hefði mátt halda gjaldeyrinum uppi.

Jeg er sammála hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) í því, að gengismismunurinn er gróði einstökum mönnum, en yfirleitt verður hann okkur tjón; reynsla annara þjóða sannar okkur þetta. Þýskur varningur er ódýr, sökum hins sífallandi gengis, og líkt má segja um norskar vörur, þær eru ódýrari en danskar, en hjá báðum verður sú niðustaða, að menn fá minna verð fyrir vörurnar. Þær verða því minna virði, sem gengið lækkar meira. Á sama hátt falla líka fasteignirnar í verði, miðað við erlendan gjaldeyri. Útlendingar geta keypt upp bestu eignirnar fyrir lítið verð. Gengisfallið er því tvímælalaust þjóðarböl. Það, sem mestu varðar, er að vinna bug á dýrtíðinni, svo að atvinnuvegirnir fái borið sig. Hitt er skottulækning, að láta gjaldeyrinn falla, til þess að framleiðendur fái nógu háa krónutölu fyrir varning sinn. Það hlýtur að koma fyr eða síðar að skuldadögunum. En til þess að draga úr dýrtíðinni þarf að hækka gengið, því að verðfall gjaldeyrisins heldur dýrtíðinni við.

Menn fjarskast út af því, að lánspostularnir vilji taka ný lán, en þetta er misskilningur, því hjer er ekki í raun og veru um það að ræða að taka ný lán, heldur aðeins að semja um gamlar skuldir, sem verða að greiðast.

Hvað 2. lið till. viðvíkur, að koma sölu útfluttra afurða undir eina stjórn, er það að segja, að jeg álít betra, eigi einhver höft að vera, að haft sje frekar eftirlit með útflutningi en innflutningi. En jeg hefi þó ekki góða trú á því. Reynslan gefur ekki tilefni til þess. Ekki hepnaðist vel afurðasalan, þegar einkasalan var á henni hjer um árið, vegna kröfu bandamanna. Kjöttunnan seldist t. d. fyrir 100 kr. minna en hægt var að fá fyrir hana haustið 1918. Af útflutningsnefndinni tók fiskhringurinn við. Er öllum kunnugt, hvernig fór fyrir honum. Má öllum þó ljóst vera, að fiskhringurinn hefir ekki orðið fyrir stórtjóni að gamni sínu, og að þeir menn, sem þar rjeðu, hafi fengið þá menn, er þeir treystu best, til þess að standa fyrir sölunni. Mundi nú stjórnin geta farið öðruvísi að en fela sínum bestu mönnum söluna, og geta þeir þá ekki brugðist, eins og hinir? Það er einmitt hið mesta glapræði að koma allri afurðasölunni á eina hönd, vegna þess, hve gífurlegt tjónið verður, ef illa fer. Auðsætt er, að þó að sala mistakist fyrir einstökum mönnum, þá verður tjónið eigi jafnstórkostlegt fyrir heildina.

Til þess að hafa hönd í bagga með gjaldeyrinum, þarf ekki heldur einkasölu. En yfirleitt má gera ráð fyrir því, að öll þvingun í þeim efnum verði óvinsæl, og kemur ekki til mála að grípa til slíks, nema alveg óhjákvæmilegt sje. Áður en nokkuð slíkt verður gert ber því að reyna til þrautar aðrar leiðir, sem bent hefir verið á, og þá fyrst og fremst að afla bönkunum nægilegs lánstrausts, svo að þeir geti yfirfært eftir þörfum. Takist það, mun gjaldeyrisverslunin sjálfkrafa leita aftur í eðlilegan farveg og öllum vandræðum ljetta af.