25.02.1922
Neðri deild: 9. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 228 í D-deild Alþingistíðinda. (1933)

25. mál, tala ráðherra

Forsætisráðherra (J. M.). Hv. þm. Dala. (B. J.) segir, að ekki megi skýra stjórnarskrána, og í sambandi við það dettur mjer í hug, að einu sinni voru gefin lagafyrirmæli, þar sem stendur, að ef einhver gerist svo djarfur að skýra lög konungs, skuli hann engu fyrir týna nema lífinu. Nokkuð líkt þessu verð jeg að skilja hv. þm. Dala (B. J.).

Bæði hjer og annarsstaðar er farið með stjórnarskrána eins og önnur lög.

Það getur verið, að mótmæli móti þessu hafi komið fram í nefnd þeirri, sem fjallaði um stjórnarskrána, en í umræðunum minnist jeg engra mótmæla nje í nefndarálitinu.

Þegar jeg lagði stjórnarskrárfrv. fyrir þing, tók jeg það fram, að umrætt ákvæði um tölu ráðherra væri þannig orðað, sem gert var, í því skyni, að hægt væri að komast af með tvo ráðherra, ef það þætti heppilegt, t. a. m. ef ráðherra fjelli frá milli þinga.