05.04.1922
Neðri deild: 41. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 294 í D-deild Alþingistíðinda. (1977)

74. mál, rannsókn á skaðabótamáli A. L. Petersens

Jakob Möller:

Jeg vek athygli á því, út af ummælum hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.), að ef landssímastjóri hefir álitið manninn óhæfan til starfans, þá bar honum skylda til að víkja honum frá króka- og umsvifalaust og án þess að gefa honum nokkurt fyrirheit um skaðabætur. En það var ekki gert, og sýnir það best, að málið er eitthvað gruggugt. Brjefin, sem hv. þm. (J. Þ.) las upp, sanna ekkert um það, hve hæfur eða óhæfur Petersen hafi verið til starfsins. Þau sýna aðeins, að hver átylla, sem gafst, hefir verið gripin til að „víta“ hann. Og um eina ofanígjöfina er það beinlínis játað, að hún hafi ekki verið á rökum bygð, og má vera, að svo hafi verið um þær allar. Hitt er víst, að landssímastjóri hefir ekki ávalt verið svo fljótur til að taka til greina umkvartanir yfir afgreiðslu símans, og er alkunnugt, að umkvörtunarefni hafa gefist víðar en í Vestmannaeyjum. Og sagt get jeg dæmi þess, að kvartað hefir verið í Vestmannaeyjum eftir að Petersen fór þaðan. Bæjarstjórnin í Vestmannaeyjum kvartaði undan eftirmanni Petersens, en hún fjekk aðeins skammir hjá landssímastjóra og brigsl um, að hún hefði ekkert vit á málinu. Og landssímastjórinn gerði enn hreinna fyrir sínum dyrum, hann kærði bæjarstjórnina í stjórnarráðinu og fjekk það til þess að gefa henni ávítur. En seinna mun það svo hafa sannast, að ekki hafi þessi kvörtun bæjarstjórnarinnar verið ástæðulaus, því að eftirmaður Petersens varð skömmu síðar að láta af starfinu fyrir óreglu. En þetta sýnir, að landssímastjóri muni þó hafa ætlað að sýna honum meira umburðarlyndi en Petersen, og að misjafnlega muni tekið undir kvartanir yfir afgreiðslu símamanna, eftir því, hver á í hlut. þm. verða að gera sjer það ljóst, að ef tilgangurinn var að flæma Petersen frá starfanum, þá varð að finna einhverja átyllu. Það var því mjög eðlilegt og hyggilegt af landssímastjóra að byrja á því að gefa honum áminningar í vingjarnlegum „prívat“-brjefum, um það, að hann teldi hann ekki „vel hæfan“, sem enduðu svo með því að telja hann óhæfan og verra en það. Þessi áminningarbrjef sanna því heldur lítið, og raunar helst það, að lítið hafi verið út á starf Petersens að setja, úr því að ekki varð meira fundið að.

Hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) sagði, að það væri tilbúningur einn, að Petersen hefði neitað að gefa upplýsingar um atriði, sem honum bar skylda til að þegja yfir, en játaði þó, að sjer væri algerlega ókunnugt um það mál. Hv. þm. (J. Þ.) getur þá heldur ekkert um þetta sagt.

Hv. 1. þm. Skagf. (M. G.) sagði, að landssímastjórinn hefði neitað því, að þetta væri satt, en telur hv. 1. þm. Skagf. (M. G.) það nægilega sönnun í máli, þó að sá, sem fyrir sök er hafður, neiti einhverju af því, sem á hann er borið? Ef stjórnin lætur sjer nægja slíka sönnun, þá held jeg, að rannsókn hennar sje fremur lítils virði.

Hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) gerði lítið úr upplýsingum þeim, um starfshæfileika Petersens, sem jeg gaf í fyrri ræðu minni. Hann gæti vel verið ágætur „kontórmaður“, þó að hann væri óhæfur símstöðvarstjóri. En það rekst óþægilega á vörn hans fyrir vottorði landssímastjóra, sem hann kvað aðallega hafa verið gefið með það fyrir augum, að Petersen gæti fengið símstjórastöðu í Danmörku, en þar væri starf símastjóranna aðallega falið í reikningsfærslu. En skyldi það nú vera alveg sjerkennilegt fyrir smærri stöðvar í Danmörku, að reikningshaldið sje eitt helsta starfið? Eða mundi reikningshaldið því minna áríðandi, sem stöðin er stærri? Það virðist einmitt mjög mikið komið undir því, að símastjórar sjeu góðir skrifstofumenn og að reikningsskil þeirra sjeu öll í lagi. Skiftir það jafnvel mestu, því að til hinna starfanna geta þeir ávalt fengið aðra hæfa menn til að gegna þeim undir umsjón sinni. Menn geta sem sje vel verið leiknir símritarar, þó að þeir sjeu ekki færir um að veita stöð forstöðu og bera fjárhagslega ábyrgð á henni.

Að síðustu vil jeg geta þess, að mjer er sama, á hvern hátt málinu er vísað til stjórnarinnar, en legg aðeins áhersluna á það, að hún geri gangskör að því að rannsaka málið.