21.04.1922
Sameinað þing: 10. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 304 í D-deild Alþingistíðinda. (1990)

52. mál, hin íslenska fálkaorða

Pjetur Ottesen:

Hv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.) hefir með framsöguræðu sinni, að því er mjer skildist, gert mína tillögu að sinni og því að miklu leyti tekið af mjer ómakið að mæla með henni. Ræða hans snerist mest um það, að benda á hjegómahlið málsins. Ætla jeg því lítillega að minnast á tildrög þessa máls hjer á þingi.

Jeg ætla, að það væri þegar á þinginu 1919, að það fóru að heyrast raddir um það, að eigi myndi hlýða hinu íslenska ríki, er það hefði fengið viðurkent sjálfstæði sitt og fullveldi, að láta síga úr hömlu að sýna hið ytra tákn fullveldisins á ýmsan hátt, og þar á meðal með því að koma hjer upp orðu eða heiðursmerki, til þess, svo jeg noti orð konungsbrjefsins um stofnun hinnar íslensku fálkaorðu, „að geta veitt þeim mönnum og konum, innlendum og útlendum, sem skarað hafa fram úr öðrum í því, að efla heiður og hag fósturjarðarinnar, að einhverju leyti opinbera viðurkenningu“. Reyndar virtist það einkum og sjer í lagi vaka fyrir þeim mönnum, sem beittu sjer fyrir þessu, að orðan yrði að mestu eða eingöngu notuð til þess að veita útlendingum þessa viðurkenningu, enda var það rökrjett afleiðing þeirrar hugsunar, sem, eins og jeg áður nefndi, einkum virtist liggja til grundvallar fyrir því að stofna orðuna, sem sje að sýna með því út á við aðstöðumun landsins nú við það, sem áður var.

Þetta mál komst það langt á þinginu 1919, að forsætisráðherra (J. M.) stefndi þingmönnum saman á einkafund, þar sem hann reifaði þetta mál, og jeg held, að mig misminni það ekki, að hann gerði það á þeim grundvelli, að orðan yrði einvörðungu veitt útlendingum, eða að minsta kosti, ef út af þessu yrði brugðið, þann veg, að hún yrði veitt innlendum mönnum, þá yrði það ekki gert nema undir alveg sjerstökum kringumstæðum, og bæri að sjálfsögðu að fara með hinni mestu gát í þessar sakir.

Það má, held jeg, með sanni segja, að mál þetta fengi fremur daufar undirtektir á fundinum, en þó fór svo að lokum, að það fjekst með atkvgr. meiri hluti fyrir því að stofna orðuna á þessum grundvelli, en margir sátu hjá og greiddu ekki atkv., en tveir greiddu atkvæði á móti, þáverandi 2. þm. G.-K. (K. D.) og jeg.

Það er því áreiðanlega algerlega á móti vilja og áliti þessa meiri hluta þingsins, að mál þetta er komið inn á þá braut, sem það nú er á, en aftur á móti er tillaga hv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.) alveg í samræmi við það, sem þá virtist vera álit þessa meiri hluta.

Við, sem þá greiddum atkvæði á móti því, að orðan yrði stofnuð, — og sama ætla jeg að megi segja um þá, sem ekki greiddu atkvæði, — litum svo á, að slíkt hjegómatildur myndi frekar verða okkur til ógagns og vansæmdar en til ávinnings og vegsauka, því þó að hægt væri ef til vill að kitla hjegómagirnd sumra manna með slíku glingri og látalátum, og ætla sjer þannig að nota þetta sem auglýsingu um sjálfstæði landsins út á við, þá mundi slíkt að sjálfsögðu geta vakið og vekja lítilsvirðingu hjá sumum þeim mönnum, sem svo óendanlega væri miklu meira um vert að vekja athygli á sjer hjá og vinna traust og hylli, einmitt þeim mönnum, sem hafa auga fyrir og fullan skilning á því, sem eitthvert raunverulegt gildi hefir í sjer fólgið, þeim mönnum, sem leggi aðaláhersluna á það, bæði hjá sjálfum sjer og öðrum, að vera, en ekki aðeins að sýnast.

Það var þetta, sem fyrir okkur vakti, sem vorum á móti því að innleiða þetta orðutildur. Við litum svo á, að einasti og vissasti vegurinn til vegs og gengis hinu íslenska ríki væri, að þjóðin legði metnað sinn í það að vera, en ekki aðeins að sýnast. Og á þann hátt sýndi þjóðin fullan skilning á þessu hlutverki, og með því að notfæra sjer, bæði af sinni eigin lífsreynslu, og svo reynslu annara þjóða, þau hyggindi, sem í hag koma, en forðast aftur á móti af ítrasta megni og spyrna broddum við því, sem miðar til hins gagnstæða.

Í því sambandi má benda á það sem stórvægilegt atriði, að unnið sje kappsamlega á móti því, að þjóðin ánetjist í því neti, sem tildur, prjál og hjegómi erlendra þjóða leggja fyrir okkur. Að vinna á móti því er hið mesta þjóðheillaverk. Orðutildrið miðar aftur á móti óneitanlega til hins gagnstæða og torveldar þessa baráttu, og er það því óbifanleg sannfæring mín, sem fyr, að það sje meira tap en vinningur fyrir þjóðina að fórna fje og kröftum á altari þessa misskilda þjóðarmetnaðar.

Það er nú orðið alkunnugt, að þetta orðutildur hefir mælst afarilla fyrir úti um land, og er það að vonum, því að alþýða þessa lands, sem sækir brauðið í skaut náttúrunnar og alin er upp í hinum stranga skóla lífsins og verður að horfast í augu við bláberan veruleikann, henni hefir hin stranga og erfiða barátta fyrir tilverunni kent það, að tildrið, „húmbúgið“ og hjegóminn er ekki það, sem veitir hlutunum hið raunverulega gildi eða þjóðinni tilverurjett.

Jeg hefi nú leyft mjer að koma fram með brtt. við till. hv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.), sem miðar að því, að sporið sje stigið til fulls, að Alþingi skori á landsstjórnina að fá því framgengt við konung, að hann nemi úr gildi konungsbrjef 3. júlí 1921, um stofnun hinnar íslensku fálkaorðu.

Jeg hefi fundið það á ýmsum hv. þm., sem annars eru þessu orðutildri mótfallnir, að þeir kveinka sjer við að leggja þetta til, úr því sem komið er. En mjer virðist slík viðkvæmni mjög ástæðulítil. Það er beinlínis skylt að snúa frá því, sem mistekist hefir og miður fer, til hins, sem betra gegnir.

Jeg skal ekkert út í það fara og engan dóm á það leggja, hvernig framkvæmd þessara orðuveitinga hefir tekist hjer, en aðeins benda á það, að auk þess sem mál þetta er nú, eins og jeg áður tók fram, komið inn á alt aðra braut en látið var í ljós upphaflega að væri tilætlunin, þá sýnir sú reynsla, sú stutta reynsla, sem við höfum í þessu efni, hve erfitt það er að stöðva þennan straum, úr því stíflan er tekin úr, og mikið vandhæfi á að halda straumnum í vissum farvegi.

Á þessum stutta tíma, frá því í júlí í fyrra sumar, hefir 62 körlum og konum verið veitt heiðursmerki, samkvæmt skýrslu í Stjórnartíðindunum, sem jeg hefi hjer fyrir framan mig.

Af þeim eru 33 erlendir ríkisborgarar, jeg held allir danskir, en 29 innlendir, og skiftast þeir niður eftir fjórðungum þannig: Í Sunnlendingafjórðungi 25, þar af úr Reykjavík 22, Austfirðingafjórðungi 2, Norðlendingafjórðungi 1 og Vestfirðingafjórðungi 1. Síðan þessi skýrsla var prentuð hefir tveimur erlendum mönnum verið veitt þetta heiðursmerki, og eru þeir Arne Möller og Svíinn Ragnar Lundborg. Er Ragnar Lundborg víst fyrsti útlendingurinn utan Danmerkur, sem slíkt heiðursmerki hefir verið veitt.

Kostnaðarhlið þessa máls ætla jeg ekki að fara út í, því hún er ekki aðalatriði. En þó er vert að athuga það, að búið er að eyða í þennan hjegóma rúmu 21 þús. króna.

Það hefir mörgum virst, að fyrverandi stjórn hafi árið sem leið tekist miður höndulega framkvæmd þeirrar reglugerðar, sem gefin var út í marslok í fyrra, samkvæmt lögum 8. mars 1920, sem heimila stjórninni að banna og takmarka innflutning á óþarfavarningi. Sífeldar undanþágur og vetlingatök í þessu máli hafa valdið því, að þetta hefir að litlu liði orðið. En í hnúkana tekur fyrst, er stjórnin sjálf brýtur sína eigin reglugerð og flytur inn óþarfavarning, sem jeg get ekki betur sjeð en heyri undir einhvern af eftirtöldum þremur liðum, sem upp eru taldir í reglugerðinni sem þær vörutegundir, sem innflutningur er bannaður á, og það eru: leikföng, glysvarningur og skrautgripir. Að þetta sje óþarfi eftir eðli sínu, getur varla leikið á tveim tungum.

Skal jeg svo eigi fara frekari orðum um þetta mál, en legg till. mína undir dóm þingsins.