24.04.1922
Sameinað þing: 12. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 363 í D-deild Alþingistíðinda. (2016)

90. mál, landsverslunin

Jón Auðunn Jónsson:

Hv. þm. mun kunnug afstaða mín til landsverslunarinnar.

Var jeg einn þeirra manna á síðasta þingi, sem ekki vildi, að verslunin hætti að versla með aðrar vörur en einkasöluvörur. Ástæða mín fyrir því var sú, að jeg vildi eigi útiloka, að verslunin gæti tekið að sjer kolainnflutning, ef illa færa og kolaverkfallið í Englandi hjeldi áfram. Enn fremur vildi jeg ekki útiloka verslunina frá því að geta náð í aðrar vörur, sem lítið kynni að verða til af á heimsmarkaðinum. Annars skal jeg geta þess, að jeg tel, að verslunin hafi að mestu leyti starfað í rjetta átt og í fullu samræmi við þál.till. síðasta þings, að öðru leyti en því, að hún hefir eigi minkað skuldirnar sem vera bar. Að verslunin hafi tapað fje á þeim árum, sem hún var bjargráðaverslun, tel jeg ekki nema eðlilegt, og þó að ýms mistök og skakkaföll hafi á henni lent, þá finst mjer það ekki að undra, því að oft varð á þeim árum að ráðast í vörukaup með fyrirsjáanlegu tapi, t. d. kolakaupin, sem gerð voru fyrir nauðsyn þjóðarinnar. Álít jeg einnig, að til þessa hafi verslunin eigi haft mikla fjárhagslega áhættu fyrir ríkissjóðinn í för með sjer, nema á hinum allra erfiðustu tímum, en þá hættu bar þjóðinni einnig að taka á sig. Jeg er þess einnig fullviss, að forstjóri verslunarinnar hefir verið gætinn til þessa og um ráðvendni hans og heiðarleik efast enginn.

Á þeim árum, sem kaupsýslumenn gátu eigi alment flutt inn vörur sínar sakir skipaskorts og annars, álít jeg, að landsverslunin hafi í sumum tilfellum haldið niðri verði á vörum. Til þessa hefir verslunin verið rekin svo, að ríkissjóði hefir lítil fjárhætta af því stafað, en rekstur síðasta árs bendir til, að nú sjeu þeir tímar komnir, að alvarleg áhætta sje að halda áfram að versla með aðrar vörur en einkasöluvörur og steinolíu.

Ástæðurnar fyrir þessari skoðun minni eru þessar:

Flestir kaupsýslumenn og kaupfjelög hafa tapað síðastliðið ár; liggja til þess margar orsakir. Fyrst og fremst lækkuðu vörur mjög í verði, í öðru lagi hefir salan gengið mjög treglega vegna almennrar óáranar, og í þriðja lagi hafa af sömu ástæðum útistandandi skuldir aukist mjög mikið. Þar við bætist, að lánsstofnanimar drógu inn lánsfjeð frá verslunarstjettinni í hlutfalli við lækkandi vöruverð, enda var full þörf á lánsfjenu til atvinnuveganna. Var því ekki nema von, að ýmsar verslanir leituðu til landsverslunarinnar um lán eða greiðslufrest síðastliðið ár. Eru mörg dæmi þess, að þessi lán í óvissum skuldastöðum hafi aukist mjög síðasta ár, og þar við bætist, að ýmsir atvinnurekendur, sem þröngt áttu í búi og voru eigi nógu efnaðir til þess að reka atvinnu, eða alls ekki höfðu lánstraust annarsstaðar, leituðu á náðir landsverslunarinnar. Eins og sjá má á skýrslu meiri hluta nefndarinnar, þá eru útistandandi skuldir hjá „prívat“-mönnum um eða yfir 150 þús. kr. Er eigi svo að skilja, sem þetta sje ásökun á hendur forstjóranum, því þetta er aðeins eðlileg afleiðing hinna erfiðu tíma. Þeir hafa valdið því, að skuldirnar hafa aukist og skuldastaðirnir versnað. Jeg ætla mjer ekki að meta skuldir verslunarinna og segi ekkert um það, hvort þær eru metnar of eða van í áliti minni hlutans. En jeg tel eigi efa á því, að verslunin hefir síðustu ár orðið lánsverslun meira en góðu hófi gegnir og ætlast var til. Álít jeg því, að ef haldið verður áfram með almenn vörukaup, þá verði það aðeins til þess, að skuldirnar aukist á ný. Jeg vissi af mörgum, sem gerðu alt hvað þeir gátu til þess að greiða skuldir sínar við verslunina um síðustu áramót. En þegar þeir heyra, að misbrestur er á skilum hjá nágrönnum sínum, þá hugsa þeir eðlilega sem svo, að þeir þurfi ekkert að borga fremur en hinir, því þar sem þetta sje ríkisverslun, þá geti hún eigi frekar heimtað greiðslu hjá einum en öðrum, og að þeir eigi allir jafnt tilkall til greiðslufrests; þetta sjeu einskonar ríkislán. Í þessu liggur hættan. Jeg skal játa það, að mjer finst nú svo komið, að hægt sje að hætta verslun með aðrar vörur en tóbak og steinolíu. Það, sem olli því, að verslunin hjelt áfram eftir stríðið, var það, að vörur voru af skornum skamti á heimsmarkaðinum og ilt mjög um skipakost til aðdrátta og örðugleikar um yfirfærslu á peningum. Eru nú þessir örðugleikar úr sögunni. Nú er nóg framboð á vörum á erlendum markaði og skipakostur til flutninga nægilegur og engar hömlur á flutningi varanna frá útlöndum. Vona jeg, að kaupmenn og kaupfjelög geti fullkomlega annast innflutninginn.

Mjer þótti skjóta skökku við í ræðu hv. frsm. minni hl. (S. F.), er hjelt því fram, að reka bæri verslunina með sama hætti og bjargráðaverslun. Jeg get eigi sjeð neina ástæðu til þess, eins og nú er ástatt. Hygg jeg, að ef halda ætti áfram að lána eins og verslunin hefir gert undanfarið, þá mundi hv. þm. Ak. (M. K.) ekki vilja vera forstjóri hennar. Held jeg, að það sje einskis manns meðfæri að halda versluninni áfram sem landsverslun, án stórhættu fyrir ríkissjóð.

Hæstv. atvrh. (Kl. J.) var sammála hv. frsm. minni hl. (S. F.) um hitt, að eigi bæri að kaupa almennar vörur nema í brýnni nauðsyn. En hvað ofan á verður er erfitt að segja.

Hæstv. atvrh. (Kl. J.) gat þess enn fremur, að kaupmenn hefðu notað verslunina eins mikið og kaupfjelögin og Samband íslenskra samvinnufjelaga, og að þeir skulduðu nálega eins mikið og þau. Hæstv. atvrh. (Kl. J.) segist hafa sjeð skuldalistann, og þá býst jeg við, að honum dyljist ekki, að einum kaupmanni, sem ekki hefði átt að þurfa að fá lán og alls ekki ætti að fá lán hjá landsverslun Íslands, skuldar ¼ hluta af öllum kaupmannaskuldum. Jeg skal taka það fram, að jeg er alls ekki hræddur um þessa skuld sem stendur, en vildi aðeins benda á þetta, ef hæstv. atvrh. (Kl. J.) hefir eigi tekið eftir því.

Jeg get ekki verið sammála hv. frsm. meiri hl. nefndarinnar (Ó. P.), þar sem hann undrast svo mjög, að eigi sje komið svar frá forstjóra landsverslunarinnar við einu brjefi, er nefndinni barst og sent var honum til umsagnar. Jeg undrast það eigi, því bæði er það, að forstjórinn hefir haft mjög annríkt, eins og allir hv. þm. vita, og auk þess geri jeg ráð fyrir, að hann hefði sent svar sitt aðra leið.

Jeg vænti eigi, að það eigi að skoða það sem ásökun á hendur Landsbankanum, að landsverslunin hafi haft greiðan aðgang að honum til yfirfærslu, eins og hv. þm. Snæf. (H. St.) talaði um.

Er eigi nema eðlilegt, að Landsbankinn yrði hinum fremur til þess að yfirfæra fyrir verslunina. Vorið 1921 áleit stjórnin nauðsyn á að kaupa vörur, og var þá hvergi um skyldu til yfirfærslu að ræða nema hjá Landsbankanum.

Hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) hjelt því fram, að gróði landsverslunarinnar væri á þriðju miljón króna, en jeg álít ekki rjett að gera hlutina bjartari en þeir eru. Þetta er ekki rjett hermt hjá honum, og læt jeg mjer nægja í því sambandi að vísa til efnahagsreikninga verslunarinnar. Jeg álít að vísu hagnaðinn sæmilegan, en þó miklu minni en hv. þm. (Sv. Ó.) segir. Hann gat þess, að talsvert af skuldunum væri stofnað áður, er landsverslunin skifti aðallega við bæjar-, sýslu- og hreppafjelög, en þær skuldir eru nú um 40 þús. kr., og nokkuð af þeim nýjar. Þá gat hann einnig þess, að verslunin mundi geta haldið áfram eingöngu með gróðafje sínu, enda þótt hún borgi ríkissjóði innskotsfje hans. Er þetta hin mesta fjarstæða, því verslunin hefir ekkert starfsfje annað en útistandandi skuldir, er hún hefir greitt ríkissjóðstillagið. Segi jeg þetta ekki af því, að mjer þyki skuldirnar svo ákaflega miklar, en þó álít jeg þær of miklar, en jeg gat þessa aðeins til þess, að hv. þm. ljetu eigi blekkjast af röngum útreikningum.

Þá sagði hv. þm. (Sv. Ó.), að varhugavert væri að hætta versluninni vegna skuldunauta hennar. Jeg álít þvert á móti, að það eigi að hætta versluninni til þess að auka ekki við skuldirnar og fjölga óvissum skuldastöðum. En um hitt getum við verið sammála, að eigi beri að ganga svo hart að mönnum um innheimtu, að þeir eigi örðugt með að halda áfram atvinnu sinni.

Forstjóri verslunarinnar hefir vafalaust reynt alt, sem hann hefir getað, til þess að ná inn skuldum fyrir nýár. En að þær hafa aukist, en ekki minkað, sannar best, að það er hætta að halda versluninni áfram. Enn fremur er það, að mikinn hluta af þeim vörum, sem verslunin hefir selt síðan á nýári, hefir hún orðið að lána.

Hv. 2. þm. Reykv. (J. B.) gat þess til, að meiri hlutanum hefði þótt miður, að verslunin skyldi hafa grætt svo mikið á gengismun eins og hún hefir gert. Þetta er illkvitnisleg tilgáta, því jeg veit, að allir þingmenn gleddust yfir því, að verslunin gengi sem best. En jeg er honum aftur sammála um það, að það sje rannsóknarefni, hvort rjett sje, að ríkið taki einkasölu á steinolíu. Jeg segi þetta ekki til þess að hræða stjórnina frá því að ráðast í að taka einkasölu á steinolíu, heldur bendi jeg á þetta einungis frá mínu sjónarmiði, til athugunar fyrir hana, ef henni sýndist svo.