24.04.1922
Sameinað þing: 12. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 409 í D-deild Alþingistíðinda. (2025)

90. mál, landsverslunin

Frsm. minni hl. (Sigurjón Friðjónsson):

Það þykir líklega viðeigandi, að jeg segi nokkur orð sem frsm. annars hluta nefndarinnar. Annars álít jeg, að langar ræður um þetta mál sjeu fremur þýðingarlitlar. Býst líka við, að mín ræða verði það, en hún skal ekki verða löng.

Hv. þm. Snæf. (H. St.) taldi, að aðeins þrjár ástæður gætu verið fyrir hendi sem frambærilegar til varnar landsverslun. Í fyrsta lagi vöruskortur í landinu, í öðru lagi gróðavon af versluninni, og í þriðja lagi nauðsyn á að halda niðri verði á vörum í landinu. Úr þessum ástæðum vildi hann þó ekki gera neitt, eins og nú stendur. Hann veit þó vel, að undanfarið hafa verið geysileg vandræði á því að yfirfæra peninga og þar af leiðandi erfitt að ná í vörur. Af því að landsverslunin hefir staðið betur að vígi í því efni en kaupmenn, er ekki óeðlilegt, að til hennar sje leitað með vörukaup, enda mun svo verið hafa alt að þessu.

Viðvíkjandi því, hvort landsverslunin eigi að rekast sem gróðafyrirtæki fyrir landið, skal jeg ekki segja mikið. En því verð jeg að halda fram, að hún hafi hingað til frekar grætt, jafnframt því sem menn óbeinlínis hafa haft hagnað af henni, og í framtíðinni getur hún grætt engu síður, ef engin sjerstök óhöpp henda hana. Vel má búast við, að verslunin græði ca. miljón þetta ár, því að nú eru ekki fyrirliggjandi vörur, sem líklegt er að mikið verðfall verði á.

Þá er þriðja ástæðan, samkepnisástæðan, og hefi jeg ljóslega bent á áður, að hún hlýtur að halda niðri vöruverði hjá kaupmönnum, og hefir margsinnis sýnt það.

Hv. 1. þm. Skagf. (M. G.) tók fram, að landsverslunin hefði borgað minna til ríkissjóðs síðastliðið ár en vænta hefði mátt. En þess ber að gæta, að landsverslunin hefir lagt fje fram til tóbakskaupa, sem ríkissjóður annars hefði orðið að gera. Sami hv. þm. (M. G.) gat um, að gert hefði verið of mikið úr töpuðu skuldunum í greinargerð minni hlutans. Jeg get vel fallist á það. Sú áætlun er líka tekin eftir meiri hl. nefndarinnar sem sönnunargagn þess, að þar muni vera farið að hámarki með áætlun töpuðu skuldanna, og þó ekki nema í ca. ¼ af varasjóðnum, sem ekki geti álitist stórhættulegt.

Mjer skildist á hv. þm. (M. G.), að það væri aðalástæðan til þess, að hann hallaðist að till. meiri hluta nefndarinnar, að það væri eina leiðin til þess, að landsverslunin gæti borgað ríkissjóði eina miljón króna á þessu ári, sem hún þyrfti að gera. Til þess áleit hann, að hún yrði að hætta innkaupum alveg, en innheimta aðeins skuldir. En þessi ástæða er ærið veik. Jeg lít svo á, að landsverslunin muni fljótlega getað skilað lánsfje sínu til ríkissjóðs, án þess að breyta til um verslunarhætti. Gróði af versluninni á næsta ári og innheimtar skuldir munu vel geta fylt þá einu miljón kr., sem landsverslunin þarf, að áliti hv. þm., að borga ríkissjóði þetta ár.

Þá er að minnast á ræðu hv. þm. Ísaf. (J. A. J.). Hann gerði mikið úr því, að skuldir verslunarinnar hefðu aukist síðastliðið ár, en þessi aukning nemur aðeins um 36 þús. kr., og er það ekki há tala, þegar tekið er tillit til verslunarveltu og þess, hve skuldir hafa aukist yfirleitt. Jeg get því ekki sjeð þá hættu, sem mönnum verður hjer tíðrætt um, enda játaði hv. þm. (J. A. J.) það, að sæmilegur hagnaður hefði orðið að versluninni.

Þá kem jeg að hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.). Hann vildi telja, að ríkissjóður ætti í raun og veru meira hjá versluninni en alment er talið, og benti þar á kola- og salttollinn. En jeg verð að telja, að þingið hafi lagt þar sinn dóm á og slegið því föstu til fulls og alls, að þessi skellur, sem varð af sjerstökum ástæðum, skuli ekki lenda á landsversluninni. Og jeg verð að álíta, að þessi dómur hafi verið rjettur, því að verslunin varð fyrir þessum skelli fyrir það að hlaupa undir bagga með almenningi í sjerstakri, mjög brýnni nauðsyn.

Þá benti hv. þm. (J. Þ.) á, að verslunin skuldaði erlendis sem næmi um 439 þús. kr., og taldi hann það bundið fje fyrir ríkissjóð; en þar nægir að benda á, að hún á líka inni um milj. kr. í bönkum, og má telja, að þær standi fyrir þessari upphæð, og meira en það.

Hv. frsm. meiri hl. (Ó. P.) fanst jeg kasta til sín hnútum út af rekstrarkostnaðinum, en jeg benti aðeins á, að hlutfallsleg hækkun hans væri bein afleiðing þess, að verslunin hafi fært saman kvíarnar.

Þá hjelt hv. þm. (Ó. P.), að verslunin mundi skaðast á ábendingu minni hlutans um tap á skuldum, en sú ábending var gerð til þess að sýna, að skuldirnar væru í raun og veru tiltölulega lágar, og því ástæðulaust að hræðast þær.

Loks vil jeg athuga eitt atriði í ræðu hæstv. atvrh. (Kl. J.). Honum fanst lítill munur á þessum 2 till. og áleit, að báðar færu í þá átt, að verslunin keypti ekki nýjar vörur, nema sjerstök óumflýjanleg nauðsyn væri fyrir hendi. Þetta er ekki rjett, og töluverður munur á till. Við minni hl. menn viljum gefa versluninni frjálsari hendur og teljum það engan veginn sjálfsagt, að hún hætti að kaupa vörur. En þó viljum við, að hún leggi aðaláherslu á innheimtuna og hagi vörukaupunum sem mest eftir því, og að óheppilegt sje, einmitt vegna innheimtunnar, að leggja hana niður mjög snögglega.

Jeg sje svo ekki ástæðu til að tala lengur og býst ekki við, að langar umr. hafi mikla þýðingu úr þessu.