10.04.1922
Efri deild: 41. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 358 í B-deild Alþingistíðinda. (210)

1. mál, fjárlög 1923

Björn Kristjánsson:

Jeg ætla aðeins að segja nokkur orð viðvíkjandi ræðu háttv. frsm. (H. St.) um Flensborgarskólann. Hann kvað skólann ekkert leggja fram nema skólahúsin og jörðina Hvaleyri, og því kostaði ríkissjóður hann að mestu leyti. Jeg hefi nú bent á, að kostnaður ríkissjóðs við þennan skóla er aðeins einn þriðji af kostnaði Akureyrarskólans á hvern nemanda og talsvert minni en kostnaður á hvern nemanda kvennaskólans í Reykjavík. Jeg vil ennfremur taka fram, að það er fleira, sem skólinn eða bæjarsjóður Hafnarfjarðar leggur til. Er þar fyrst að geta, að lítil jörð er heima, sem skólastjórinn notar og skólinn á. Bærinn hefir og kostað veg heim að skólanum, vatnsleiðslu í húsið, öll ljós o. fl.