10.04.1922
Efri deild: 41. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 383 í B-deild Alþingistíðinda. (227)

1. mál, fjárlög 1923

Frsm. (Halldór Steinsson):

Jeg skal vera stuttorður um brtt., og það því frekar, sem hæstv. atvrh. (Kl. J.) og háttv. 4. landsk. (G. G.) hafa talað á móti þeim með sömu rökum og jeg. Jeg skal þó leyfa mjer að fara um þær nokkrum orðum.

Það er þá fyrst brtt. 2. þm. Rang. (G. Guðf.) við 15. gr. 13, um lækkun styrks til þess að gefa út textaútgáfu af íslensku fornbrjefasafni. Háttv. till.maður ætlast til þess, að þjóðskjalavörður vinni kauplaust að þessu. Hæstv. atvrh, hefir tekið það rjettilega fram, að þetta væri alveg óskylt starfi hans, og því væri ekki hægt að búast við því, að hann ynni kauplaust að þessu.

Um brtt. sama háttv. þm. (G. Guðf.) við 15. gr. 14 er hið sama að segja. Þetta verk, sem þar um ræðir, er alveg jafnóskylt starfi hans sem hitt.

Um till. háttv. 2. þm. G.-K. (B. K.) er hið sama að segja, að nefndin gat eigi aðhylst hana eins og hún er, sem sje 2000 kr. til Þórarins Guðmundssonar, en jeg skal þó láta þess getið, að ef um lægri upphæð væri að ræða, þá væri eigi ólíklegt, að komist yrði að samkomulagi.

Þá kemur brtt. háttv. 2. þm. Rang. við 16. gr. 3 (búnaðarfjelögin). Það var glögt tekið fram af hæstv. atvrh. og háttv. 4. landsk., að eigi næði nokkurri átt, að orð þessi falli niður, og var nefndin algerlega mótfallin því.

Þá er brtt. sama þm. við 16. gr. 8. (G. Guðf.: Till. var tekin aftur). Þá þarf jeg ekki að tala frekar um hana.

Þá kem jeg að brtt. sama þm. við brtt. nefndarinnar á þskj. 207, 28. lið, við 16. gr. 10, um leiðbeiningar um raforkunotkun. Þar hefi jeg engu við það að bæta, sem jeg hefi áður tekið fram, sem sje að eigi sje þörf á fjárveitingu til þessa nú þetta ár, og því lítill skaði skeður, þótt niður falli í bili.

Þá kemur brtt. sama þm. við brtt. nefndarinnar á þskj. 207, 30. lið, við 16. gr. 18. um bryggjugerð á Eyrarbakka. Nefndin getur ekki fallist á þessa till. af sömu ástæðum og fyrri ræðumaður. Hv. 2. þm. Rang. vildi halda því fram, að þetta fje kæmi eigi frá sýslunni, heldur frá hreppssjóði og einkaframlögum. Efast jeg eigi um, að hann tali þar eftir því, sem hann best veit, en það hefir eigi komið fram af þeim skjölum, sem fyrir liggja.

Háttv. þm. þakkar fjvn. mjög fyrir hina miklu landsföðurlegu umhyggju hennar fyrir sýslunni. Nefndin bjóst eigi við neinu þakklæti fyrir það, því hún taldi það beina skyldu sína, ekki hvað síst eftir þær upplýsingar, sem fram eru komnar í málinu, og áleit eigi vanþörf á umhyggju hvað núverandi fjárhag snertir.

Hv. 3. landsk. (S. J.) tók í sama streng og háttv. 2. þm. Rang. (G. Guðf.). Hann talaði um það, að þingið vildi eigi styrkja þau fyrirtæki, er ykju framleiðsluna. Jeg held ekki að menn geti með sanni sagt, að nefndin sje á móti aukinni framleiðslu. En hinsvegar er það hlutverk nefndarinnar að draga sem mest úr öllum kostnaði. Annars er það undarlegt, að það virðist vera viss flokkur manna hjer á þinginu, sem sjerstaklega mælir þessari fjárveitingu bót, og er engu líkara en að það væri flokksmál, því í öllum öðrum málum eru menn þessir mestu sparnaðarmenn.

Þá kem jeg næst að síðustu brtt. frá háttv. þm. Vestm. (K. E.) við 16. gr. 36, að fyrir 20 þús. kr. komi 40 þús. til björgunarskipsins Þórs, og er við þá till. bætt athugasemd, er fer fram á að veita landsstjórninni heimild til þess að greiða kostnað við skoðun skipsins í þurkví. Nefndin getur eigi fallist á þessar till. Þegar litið er á það hversu há sú fjárhæð er, sem hjer er farið fram á, þá verður eigi annað sagt en að það sje meira en lítil ónærgætni, eins og ástandið er og þegar tekið er tillit til þess, að nefndin hefir reynt að spara í hið ýtrasta.

B-liður síðari till. lítur mjög meinleysislega út á pappírnum, en mun eigi vera svo meinlaus í raun og veru, því kunnugir menn hafa sagt, að kostnaður við slíkt skip í þurkví geti numið 50–100 þúsund kr., ef við það þarf að gera. En þess ber að gæta, að skip þetta er orðið gamalt. Það er því ekkert hátt reiknað, að með till. þessum sje farið fram á hálft annað hundrað þúsund kr. ((150 þús. kr.), og er það æðirífleg fúlga, borið saman við sparnað þann, sem sýndur er í fjárlögunum. Jeg get fyllilega kannast við það, að Þór hafi unnið Vestmannaeyjum þarft verk, en fjelagið, sem heldur honum úti, hefir einnig fengið fulla viðurkenningu frá ríkinu með styrk þeim, sem því hefir verið veittur. Af þessum ástæðum sjer nefndin sjer eigi fært að sinna till.

Jeg þarf svo ekki að svara mörgu fleira að sinni, en vildi að lokum víkja nokkrum orðum að háttv. 2. þm. S.-M. (S. H. K.) viðvíkjandi ullarverksmiðjunni. Hjelt hv. þm. því fram, að það stæði í till., hver staðurinn væri. Það er alveg rjett, en nefndin var eigi ánægð með það. Hún leit svo á, að það ætti að rannsaka, hver staður væri hentugastur. Austfirðingar hafa líka beðið stjórnina um aðstoð verkfræðings í þessum málum, og þá auðvitað meðal annars til þess að rannsaka staðina. Ætti slíkt að vera gert af sjerfróðum mönnum eigi síður en annað, er að málinu lýtur.

Hv. þm. gerði mikið úr því, að jeg hefði talað um, að fjeð frá einstaka mönnum væri aðeins loforð. Já, — víst er það svo. Það er mikill munur, að mínu viti, á slíkum loforðum um 70–80 þúsund eða að þau sjeu lögð á borðið sem útborgað fje. Er alveg óvíst um, hverjar heimtur verða á slíkum fjárloforðum.

Háttv. 3. landsk. (S. J.) talaði einnig um verksmiðjuna. Harmaði hann mjög, að nefndin vildi eigi styðja jafngóða viðleitni sem þessa. En slíkt kemur hvergi fram í till. nefndarinnar. Þvert á móti kemur það fram, að nefndin er fús til þess að styðja slíkt, en hún vill aðeins ekki flana að fjáraustri í fyrirtæki, sem vantar allan nauðsynlegan undirbúning.