19.04.1922
Neðri deild: 50. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 431 í B-deild Alþingistíðinda. (254)

1. mál, fjárlög 1923

Þorleifur Jónsson:

Hv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) hefir óskað þess, að mál þetta verði nú tekið út af dagskrá. Jeg skal játa það, að hann var beittur nokkru harðræði af háttv. deild áðan, er till. hans var feld frá umr. En þrátt fyrir þetta hlýt jeg þó að lýsa yfir því, að það er vilji meiri hluta nefndarinnar, að bundinn verði nú endi á málið, en það ekki látið ganga út af dagskrá. — Leyfi jeg mjer því að óska, að það verði nú látið ganga til atkvæðagreiðslu.

Jeg vil svo bæta því við, að það verður ekki beint talin sök nefndarinnar, að till. þessa háttv. þm. (Jak. M.) kom of seint fram, því honum var kunnugt um það, að nefndin ætlaði ekki að koma fram með neinar brtt. — Mælir því nefndin einnig af þessum sökum á móti því, að málið verði tekið út af dagskrá.