27.03.1922
Neðri deild: 33. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 474 í B-deild Alþingistíðinda. (376)

11. mál, skattmat fasteigna

Frsm. (Jón Auðunn Jónsson):

Eins og sjá má af framhaldsnál. á þskj. 152, hefir nefndin lagt til, eftir atvikum, að frv. verði samþykt með þeim breytingum, sem háttv. Ed. hefir gert á því.

Ástæðurnar til þess, að háttv. Ed. breytti frv., voru þær, að brtt. fjárhagsnefndar voru feldar hjer í háttv. deild og endurmatið einskorðað við úttektarmennina. Ef þeir eiga að framkvæma matið, þá má búast við, að heimtað verði endurmat á mörgum jörðum. Mundi ekki þurfa meira til en það, að varp brygðist eða einhverjar litlar skemdir yrðu á jarðeignum, jafnvel þótt afleiðingar þeirra rýrðu ekki verðmæti jarðarinnar nema um 2–3 ára bil. Úr þessu yrði eilíft rugl og matið breytilegt. Fasteignabókina mætti ekki reiða sig á, heldur yrði að gefa út viðauka og breytingar á henni árlega.

Fjárhagsnefndinni virðist nú að vísu svo, sem breytingar háttv. Ed. sjeu ekki eins góðar og þær, er nefndin bar fram. Þó telur hún, að við þær megi hlíta, og ræður því háttv. deild til að samþykkja frv. óbreytt.