11.03.1922
Neðri deild: 20. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 494 í B-deild Alþingistíðinda. (442)

37. mál, dýraverndun

Frsm. (Stefán Stefánsson):

Allsherjarnefnd hefir haft þetta mál til meðferðar og hún er einhuga um það, að ráða deildinni til að samþykkja frv. óbreytt.

Í þessu frv. er aðalbreytingin frá því, sem nú er, að reglugerðarákvæði verði sett um slátrun búpenings, sem gildi ekki einungis á slátrunarhúsum, heldur og alstaðar annarsstaðar þar, sem slátrun búpenings fer fram. Formaður Dýraverndunarfjelagsins hefir tjáð nefndinni, að fjelagið leggi mikla áherslu á, að þessar víðtækari slátrunarreglur nái fram að ganga.

Það mun háttv. deild kunnugt, að þetta fjelag hefir næma tilfinningu fyrir hinni ómannúðlegu aðferð, sem höfð hefir verið allvíða við slátrun, og hefir formaður fjelagsins í greinargerð með frv. sjerstaklega bent á, hve hálsskurður á lifandi sauðfjenaði er „andstyggilegur“, og vill því fá þann ósið afnuminn með öllu. Nefndin viðurkennir fullkomlega, að þetta sje rjett, og þó hún telji torvelt að hafa eftirlit með því, að slíku breytingarákvæði sje fullnægt alstaðar þar sem slátrun fer fram, þá telur hún þó, að með reglugerð í þessa átt muni tilfinning almennings fyrir þessu vakna og slátrunaraðferðin breytast, jafnvel án þess að sjerstaklega nákvæmt eftirlit verði fyrirskipað.

Í reglum þeim, sem stjórnin setti um slátrun, er ákveðið, að þær skuli aðeins ná til sláturhúsa, en það er auðsjáanlega jafnsjálfsögð skylda, að slátrunaraðferðin verði engu síður mannúðleg úti um allar sveitir þessa lands, eða hvar helst sem aflífun alidýranna fer fram; reglurnar verða því að vera almennar.

Í þessum gildandi reglum er ákveðið að nota skot til aflífunar á búpeningi, en nefndin vill öllu fremur ráða til, að helgríma verði notuð í stað skots við aflífun sauðfjár, þar sem hún verður að teljast bæði hagkvæmari og með öllu hættulaus.

Það er tekið fram í 3. gr. frv., að reglur verði settar um fuglaveiði, og samkvæmt brjefi frá stjórn Dýraverndunarfjelagsins er hjer sjerstaklega átt við fuglaveiðar við Drangey.

Þessari veiði er þannig háttað, að flekum er lagt kringum eyna og á fleka þessa er bundinn einn fugl, sem nefnist bandingi. Þegar illa viðrar, gengur yfir þessa fleka og kvelst þessi vesalings „bandingi“ því alloft til dauða. Það kemur og fyrir, að flekar slitna upp og reka til hafs með fleiri eða færri fugla í snörum. Þessa aðferð telur stjórn Dýraverndunarfjelagsins að vonum ómannúðlega, og nefndin telur það illsæmilegt og óhæfu, ef hjá yrði komist. Aftur á móti er henni ekki kunnugt um, hvort hægt muni vera að koma í veg fyrir þetta, án stórhindrunar fyrir veiðina.

Háttv. þm. Skagfirðinga hafa gert þá breytingartillögu að fella burtu úr frv. orðin: „og um fuglaveiðar“, en þessu er nefndin mótfallin. Hún vill fela stjórninni að semja reglur um þessa veiði, þó á þann hátt, að þessari veiði verði ekki stórskaði að.

Fleira hefi jeg ekki að taka fram að sinni, en býst við, að háttv. flutningsmenn breytingartillögunnar muni taka til máls.