06.04.1922
Neðri deild: 42. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 517 í B-deild Alþingistíðinda. (487)

63. mál, hafnarlög fyrir Ísafjörð

Frsm. (Magnús Jónsson):

Sjútvn. hefir haft þetta frv. til meðferðar, og er álit hennar prentað á þskj. 174.

Þetta mál er mjög vel undirbúið. Það hefir verið athugað á þingi 1917 af sjútvn. beggja deilda og lagt með því af þeim báðum, og auk þess samþykt af háttv. Ed. þá og þessari háttv. deild til 3. umr. Og frá þeim tíma er frv. svo að segja óbreytt, nema að því er snertir hlutfallið milli framlags ríkissjóðs og hafnarsjóðs. Framlag ríkissjóðs var áður einn fjórði, en er nú ákveðið einn þriðji á móts við framlag hafnarsjóðsins. Nú sje jeg á þskj. 204, að háttv. flm. (J. A. J.) hefir sjálfur komið fram með brtt. um að færa þetta aftur í gamla horfið. Hefir hann gert það vegna þess, að hann vill ekki láta málið stranda hjer nú á þessu eina atriði. Sjútvn. mælir með frv. eins og það var upphaflega; þykir henni það sanngjarnt og í samræmi við þá hefð, sem er komin á það, að ríkissjóðsstyrkur til bryggjugerða er miðaður við einn þriðja kostnaðar. Auk þess er það vafamál, hvort þetta er nema formsatriði, þar sem upphæðin er fastákveðin 150 þús. kr. og líkur til, að kostnaður verði svo mikill, að þetta komi í einn stað niður.

Háttv. fjvn. hefir birt álit sitt á þskj. 199. Get jeg ekki neitað því, að mjer finst fjvn. fara dálítið út fyrir ramma sinn, þar sem hún segist ekki geta mælt með frv. eða fjárhagshlið þess. Það var óþarfi af fjvn. að láta uppi álit sitt um frv. sjálft. Álits hennar var aðeins leitað um fjárhagshliðina. Auk þess er það álitamál, hvort hún hefir nokkuð um þetta mál að segja, þar sem ekki verður veitt fjeð fyr en í næstu fjárlögum. Það sýnist því nægur tími fyrir hana að neita, þegar til hennar kasta kemur. Það er og allhart að neita Ísfirðingum um samþykt á þessum lögum. Þeim er áhugamál að fá þau og þau gefa þeim rjett til þess að leggja á dálítið gjald.

Sjútvn. leggur því eindregið til, að frv. þetta nái fram að ganga óbreytt.