27.02.1922
Neðri deild: 10. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 592 í B-deild Alþingistíðinda. (617)

19. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka

Fjármálaráðherra (M. G.):

Aðeins fáein orð. Fyrirspurn háttv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) er því að svara, að málinu er ekki lengra komið en það, að hægt er að fá gullforðann fluttan heim hvenær sem vill.

Má gefa frekari upplýsingar um þetta, en jeg held rjettara að gefa nefndinni þær.

Hver eigi sökina á þessum drætti, skal jeg ekki segja um, en rjettast mun að kenna stjórninni það, sem flest annað, því að hún átti að sjá um framkvæmd laganna.

Það er eigi rjett hjá háttv. sama þm., að jeg hafi verið á móti till. hans í fyrra, en hitt veit hann, að hún var vafin í annað, svo að eigi var auðvelt að skilja hana frá því.

Háttv 1. þm. Rang. (Gunn. S.) spurði, hvað stjórnin hefði gert til þess að lækka vextina. Hún hefir komið fram með þetta frv. í þeim tilgangi. Annars ætti háttv. þm. að vita, að það er ekki hægt fyrir stjórnina að skipa hlutafjelagi að lækka vextina. Það er samningsatriði. Og þá leið hefi jeg farið.

Um ræðu háttv. 4. þm. Reykv. (M. J.) skal jeg ekki fjölyrða. Hann sagði, að jeg hefði ekki farið sem nákvæmast með 10. gr. laganna. Það er rjett, að jeg tók hana ekki orðrjett upp. En jeg mun hafa lagt rjettan skilning í ákvæði hennar. Annars er það háttv. nefndar að athuga þetta.