27.02.1922
Neðri deild: 10. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 593 í B-deild Alþingistíðinda. (618)

19. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka

Bjarni Jónsson:

Það eru aðeins nokkur orð almenns efnis, sem jeg vildi nú segja. Jeg hygg, að ákvæðið um 7 milj. sje nokkuð í lausu lofti. Mun hvorki vera litið rjett á orsakir til fjárkreppunnar nje á það, hve miklir seðlar þurfi að vera í umferð. Fjárkreppan stafar einkum af því, að vörurnar seldust ekki og urðu ónýtar, en alls ekki af seðlaútgáfunni. Hjer er minna úti af seðlum á hvern mann en í öðrum löndum, í stað þess að það ætti að vera meira sökum ástæðna hjer.

Hjer hefir aldrei stafað hætta af of mikilli seðlaútgáfu, og þegar bætt var við hæstu upphæðinni, stafaði það af nauðsyn landsstjórnarinnar, og er því rangt að brigsla bankastjórninni um það, að hún gefi út of mikla seðla til þess að græða á því.

Á bankaráðsfundinum í fyrra var ákveðið að leggja frá 1200 þús. kr. til borgunar á skaða bankans, og höfðu þó fulltrúar og bankastjórn fullan lagarjett til að taka ágóðahluta af fje þessu. Vil jeg láta þessa getið til þess að andmæla brigslum þeim, er komið hafa fram í blöðum og annarsstaðar um það, að bankinn hafi unnið til þess að stofna landinu í voða fyrir nokkur þúsund króna ágóða þessara manna. Það hefir verið mikið rætt um toppinn svonefnda. Er það líka rjett, að miklu varðar, hvernig um hann er búið. En nokkuð má reikna það út, hve stór hann þarf að vera.

Þetta ár hefir bankinn þurft að hafa 2 milj. fram yfir 7 miljónirnar, og hefir þó gengið hart að landsmönnum og neitað lánum. Er það ekki ætlunarverk þingsins að ákveða um það, hver seðlaútgáfan á að vera á hverjum tíma. Sjerfræðingurinn með 42 höfuðin er ekki ýkja fróður um þá hluti. Það ætti að fela sjerstakri nefnd, t. d. landsstjórninni, bankastjórnum og sjerfræðingum, að ákveða ávalt um toppinn. Annars sjá allir nauðsynina á því, að frv. þetta nái fram að ganga, því að eins og nú stendur sjer bankastjórnin sjer eigi færtað færa niður vextina, því að skaði sá af þeim lánum, sem veitt eru fram yfir toppinn, þykir henni of mikill.