22.03.1922
Neðri deild: 29. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 65 í B-deild Alþingistíðinda. (83)

1. mál, fjárlög 1923

Frsm. (Bjarni Jónsson):

Þess er fyrst að geta, að prentvilla er á bls. 5 í fjárlagafrv. Þar stendur í 7. gr. III.: „9. greiðsla“ til Landsbankans, en á að vera 10. greiðsla. Þetta lagfærir nefndin með 6. brtt. á þskj. 117.

Um 10. gr. er ýmislegt að athuga. Er nefndin þar ekki sammála um alt.

7. brtt. var samþ. með litlum meiri hluta, og um það þarf ekki að segja annað en það, að sambandslaganefndin, og jeg er þar einn, lítur svo á, að þetta sje samningum bundið við sig, eins og nefnt er í nál.

Um sendiherrann er önnur afstaða nefndarinnar. Þrír nefndarmenn flytja brtt. um að lækka þann lið úr 20000 í 12000 kr., en meiri hl. nefndarinnar er á móti þessu. Nefndin hafði nú líka fengið upplýsingar um það, að hr. Sveinn Björnsson, sem nú gegnir embættinu, getur ekki staðið straum af þessu embætti fyrir minni borgun en þetta nú orðið. Hann er ekki svo auðugur. Hugsast gæti, að einhver stórefnamaður gæti tekið það, ef hann vildi leggja fram nokkrar þúsundir króna á hverju ári frá sjálfum sjer. Sveinn getur það ekki. En þegar svo er, þá er till. eingöngu beint gegn honum. Og þegar háttv. flutningsm. athuga þetta, þá skil jeg ekki annað en að þeir taki till. aftur.

Líka má minna á það, að þetta embætti er áreiðanlega hreinn gróðavegur landinu, og það enda þótt hærri upphæðin sje veitt. Enginn sendimaður landsins er svo ljelegur að hann geti ekki unnið mikið gagn, og um hr. Svein Björnsson hefi jeg ekki heyrt það, að hann væri neinn liðljettingur.

Það mun varla vera til svo ljelegur sendimaður, að hann geti ekki unnið landinu meira gagn en þeirri fjárhæð nemur, sem til launa hans fer. Það þarf ekki mikla hækkun á pundsverði af kjöti, ull eða fiski, til þess að vinna upp kostnað við einn eða tvo sendimenn. En nú er það viðurkent, að Sveinn Björnsson er ekki ljelegur, heldur duglegur sendimaður. Stjórnin hefir sjálf sagt, að hann hafi reynst ágætlega.

En það eru til fleiri hliðar á þessu máli. Það er til á því sú hlið, sem ekki verður metin til peninga, en það er heiður og sæmd þessa ríkis. Að vísu hafa nokkrir hv. þm. gerst svo djarfir að nefna fullveldið glamur og gagnsleysu og þeir hafa jafnvel reiknað út hversu mikið það hafi kostað — áætlað það um 200 þús. kr. En ætti það þá að verða endirinn á sjálfstæðisbaráttu vor Íslendinga, að fá alt, en skila því síðan aftur, til þess að spara nokkur þúsund kr.? En hví þá ekki að reyna að spara sem mest og setja sjálfstæði landsins á opinbert uppboð? Jeg býst við að margir mundu fúsir að kaupa það fyrir miljón krónur eða meira, þó Íslendingum sjálfum þyki það einskis virði. Það þarf undarlega djörfung til þess að geta talað slíkum óvirðingarorðum um sjálfstæði vort á sjálfu Alþingi, þar sem þjóðin þó veit, að ekkert meira happ hefir hent Ísland frá því það bygðist en að fá fullveldið viðurkent, og það án þess að leggja líf bestu sona þjóðarinnar í sölurnar nje heldur fje landsins. Það væri því háðung Íslands í augum allra þjóða, ef þingið legði nú niður sendiherrann.

Auk alls þess, sem þessi maður hefir gagnlegt gert í sendiförum og samningum við aðrar þjóðir, þá er hann samkvæmt stöðu sinni í kunningsskap við sendiherra annara þjóða í Danmörku, og getur á þann hátt einnig unnið oss ómetanlegt gagn.

Nytsemi hans verður því aldrei metin til peninga. En því óskiljanlegri er sú djörfung minni hluta nefndarinnar, að vilja leggja fyrir hann stein í götu og gera honum starfið ómögulegt, nema þá að háttv. nefndarmenn telji þennan mann óhæfan til stöðunnar. Það væri hennar eina afsökun. En hvar er brjef um það, að betri maður muni fást, þótt hann væri efnaðri?

Annars er óþarfi að fjölyrða um þessa tillögu. Jeg veit, að deildin muni fella hana með miklum atkvæðamun. Allir heilvita menn hljóta að sjá, að þetta eru þau minstu laun, sem þessi maður getur komist af með. Að samþykkja till. er því aðeins grímuklædd tilraun til þess að svifta hann stöðunni.

Næst er brtt. við 11. gr. um að lækka skrifstofukostnað sýslumanna úr 60 þúsundum niður í 50 þúsund. Er sú lækkun gerð í samræmi við dýrtíðarlækkun yfirleitt.

Þá hefir nefndin lagt til að kostnaður við yfirskattanefndir yrði hækkaður að miklum mun, eða úr 5 þúsundum upp í 20 þúsund. Er sú hækkun miðuð við það, að matið, t. d. hjer í Reykjavík, hefir reynst margfalt dýrara en ráð var fyrir gert. Eru jafnvel líkur til, að hækkun nefndarinnar á þessum lið sje of lítil.

Enn hefir meiri hluti nefndarinnar viljað lækka skrifstofufje landlæknis úr 3 þús. kr. niður í 2 þúsund. Mun það gert vegna verðstuðulslækkunarinnar.

Þá kem jeg að 11. brtt. á þskj. 117, og er hún um styrk til Jökuldals-, Hlíðar-, Tungu-, Hjaltastaðar og Eiðahreppa, til þess að ráða sjer sjerstakan lækni. Þessir hreppar hafa reynt að berjast fyrir að fá lögskipaðan lækni þangað, en það hefir ekki fengist. Nú fara þeir fram á viðbótarstyrk, til þess að geta ráðið sjer sjerstakan lækni. Þetta taldi nefndin rjettmæta kröfu og vildi því verða við henni. Er þetta nokkurnveginn það sama og að stofna nýtt læknisembætti að því undanskildu, að slíkt embætti er ekki fast og því hægt að leggja það niður hvenær sem er. Þess mun rjett að geta, að vafalaust telja þessir hreppar sig eiga vísa von á slíkum styrk framvegis, ef þeim nú tekst að ráða sjer lækni.

12. brtt. við 12. gr. fer fram á það, að styrkurinn til augnlæknis lækki niður í 1500 kr. Er sú till. bygð á því, að læknirinn hefir nú styrk til þess að kenna við háskólann í sinni sjerfræðigrein. Þessum lækni hefir verið gert það að skyldu að fara hringferð á ári hverju kring um land fyrir litla borgun. Hefir hann skaðast til muna á þeim ferðum. Vildi hann gjarna gera sig ánægðan með þessa lækkun á styrknum, ef hann þá yrði losaður við kvöðina um ferðalagið. Varð það að samkomulagi. Og því leggur nefndin til, að aths. við 12. gr. 5. lið b falli niður.

Um næsta lið þarf ekkert að segja umfram það sem í nál. stendur. Þó nefndin vilji fella þá athugasemd niður, leggur hún þar með engan dóm á það, hvort þessi maður skuli hafa rjett til eftirlauna eða ekki.

15. brtt. er um það, að orðin ,,ekki yfir“ falli niður. Hljóðar þá greinin svo, að greiða skuli 70 aura á dag, og er það tilgangur nefndarinnar.

Um 16. brtt. er nefndin öll á einu máli, að sá liður, um styrk til byggingar sjúkraskýla, skuli falla niður. Fjárhagur landsins er svo þröngur nú, að nefndin taldi ekki rjett að hrapað yrði að slíkum byggingum í bráð. Býst jeg við að það verði auðsótt mál við háttv. þm. að fella niður þessa fjáhæð. Þeir eru venjulegast fúsari á að fella en reisa.

Þá er að minnast á hjúkrunarfjelagið „Líkn“. Nefndin er öll á einu máli um að hækka styrkinn til þess fjelags upp í 3 þús. kr., eins og var í síðustu fjárlögum. Þetta fjelag er svo þarft og ágætt, að ekki er sæmilegt að draga úr starfsemi þess.

Þá hefir nefndin bætt hjer við nýjum lið, utanfararstyrk til Önnu Breiðfjörð til hjúkrunarnáms. Um þann lið er það að segja, að Alþingi hefir árlega veitt 1–2 konum styrk til slíks náms. Verður svo að vera, þar til landssjúkrahús er hjer komið svo sæmilegt, að þar geti konur notið fullkomins hjúkrunarnáms.

18. brtt. er um styrk til Gísla Sigurðssonar, til þess að kaupa sjer umbúðir. Þessi maður hefir lengi þjáðst af máttleysisveiki og lítið getað hreyft sig. Sótti hann um styrk nú til þingsins, til þess að fara til Þýskalands og afla sjer þar góðra umbúða. En nefndin lagði til að veita honum heldur styrk til þess að fá sjer umbúðir þessar hjer heima, vegna þess, að bráðlega má eiga von á lærðum umbúðasmið hingað til lands. Hefir sá maður numið í Þýskalandi þessa smíð og kvað nú vera útlærður.

Þá kem jeg að þeirri till. nefndarinnar, sem stórtækust er, en hún er um, að allir símar skuli lagðir niður, þeir, sem nú standa í fjárlögum. Vil jeg fyrst leyfa mjer að segja frá nefndarinnar hug í þessu efni, að hún vill vinna það til, að skila fjárlögunum hallalausum, að leggja niður alla síma, og jafnvel alla vegagerð líka. En síðan reiknaðist nefndinni svo til að eigi þyrfti að leggja niður nema annaðhvort þetta, en nefndin klofnaði um það, hvort skyldi fyr falla, símar eða vegir. Minni hlutinn vildi láta vegina falla fyr, en meiri hlutinn vildi fremur fella símana. Man jeg ekki til að meiri hluti nefndarinnar vildi láta segja annað en að þetta væri gert af nauðsyn, til þess að skila fjárlögunum hallalausum. Þeir eru alls ekki á móti símalagningum yfir höfuð.

En fyrir eigin hönd vil jeg minna á það, að Alþingi hefir lofað síma á milli Búðardals og Króksfjarðarness nú þing eftir þing, 5 eða 6 sinnum, og tekið hann í fjárlög. Þó er þessi sími ógerður enn. Og ef hann nú verður feldur af fjárlögum, þá er engin trygging fyrir því, að hann verði nokkurntíma tekinn upp aftur, og væri þá orðheldni þingsins fullkomin. Sama mundi háttv. þm. Str. (M.P.) segja um síma í Strandasýslu, sem líkt stendur á um og þann, sem jeg áðan nefndi. En því miður er hv. þm. (M.P.) veikur, og getur því ekki fært þessa ástæðu fram.

Sumir háttv. þm. vilja ef til vill halda því fram, að það sje ekki mikils virði, þótt þingið lofi að gera eitthvað og setji það í fjárlög, ef stjórninni svo er leyft að fella slíkar framkvæmdir niður, ef ekki virðist vera fje fyrir hendi. En eitthvað ætti þó að mega treysta á loforð Alþingis.

En í slíku loforði þings liggur það ótvírætt, að þær framkvæmdir, sem þannig eru teknar í fjárlög, eiga að sitja fyrir öðrum framkvæmdum og það er bein óorðheldni að fella niður slíka liði og taka nýja upp í þeirra stað.

Annars tel jeg það algerlega rangt að fella niður bæði vegi og síma. Jeg vil láta hvorttveggja standa, en gefa stjórninni jafnframt heimild til að fresta þeim framkvæmdum, ef ekki reynist fje fyrir hendi. Till. minni hl. nefndarinnar um að fella niður vegina er í samræmi við till. meiri hl. um að fella símana og vegna hennar fram komin. Og mun minni hl.nefndarinnar vera fús á að taka þessa till. aftur, ef meiri hl. vill taka aftur sína till. En ef báðar till. koma til atkvæða, þá vil jeg mælast til þess við hæstv. forseta, að hann beri fyrst upp símatill., og ef hún verður feld, þá tökum við aftur okkar till. En ef sú till. verður samþ. þá vona jeg, að háttv. deild muni einnig samþykkja að fella vegina. Því vegur gerir aldrei eins mikið gagn eins og sími, sem lagður er fyrir sama fje.

Síminn milli Búðardals og Króksfjarðarness er áætlaður 38 þúsund kr. Og ef sá sími er lagður. komast tvö kaupfjelög í samband innbyrðis og samband við umheiminn. Vil jeg spyrja þá, sem kunnugir eru verslun og ferðalögum hjer, hvílíkt hagræði er að slíkum síma, ekki aðeins fyrir þessi kaupfjelög, heldur og fyrir báðar sýslurnar. Mundu þeir vafalaust vera á einu máli um það að enginn vegarspotti sem kostaði sama fje, mundi geta gert mönnum slíkt hagræði. Auk þess vil jeg geta þess að þessi símalagning getur orðið til þess að bjarga mörgum mannslífum, því í norðurhluta Dalasýslu er afarerfitt að ná í lækni, og oft að læknir í Búðardal er ekki heima og þarf þá að sækja lækni til Hólmavíkur. Þetta mundi alt ganga greiðara ef sími væri kominn, svo hægt væri að vita þegar um það hvor læknirinn væri heima og kæmi því sjúklingnum læknishjálp miklu fyr en ella. Hjer eru því beinlínis spöruð mannslíf.

En auk þess sem af þessum síma eins og líka öðrum símum landsins leiðir vinnusparnað og sparnað á mannslífum. Þá getur einnig oft verið um beinan peningasparnað að ræða. t. d. í kaupum og sölu. Tilboð í verslunarsökum standa oft stutta stund og ef ekki er hægt að sinna þeim fljótt, þá eru þau gengin manni úr greipum og tapað stórfje. Það getur því ekki talist efamál að símar gera meira gagn en vegir fyrir jafnmikið fje og þess vegna er það rjett og sjálfsagt, ef annað þessara tveggja á að fella af fjárlögunum, að þá verði vegirnir feldir. En mín skoðun er sú að hvorugt eigi að fella.

Þá er Hvanneyjarvitinn. Um hann er ekkert að segja. Þetta er nýr liður og sjálfsagður. Þá hefir nefndin lækkað fjárveitinguna til sjómerkja, en það er ekki annað en flutningur milli liða því að þessar 4000 kr., sem þar eru skornar af, eru veittar til Hvanneyjarvitans. Þá er að síðustu einn liður sem jeg mun leiða hjá mjer að ræða og jeg hefi ekkert um sýslað, en það er liðurinn sem snertir sambandslaganefndina. Svo skal jeg ekki fjölyrða meira um þennan kafla að svo stöddu.