15.03.1922
Efri deild: 20. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 733 í B-deild Alþingistíðinda. (870)

57. mál, sveitarstjórnarlög

Atvinnumálaráðherra (Kl. J.):

Það er rjett, sem háttv. þm. Seyðf. (Jóh. Jóh.) sagði, að það virðist við fljótlegt álit vera dálítil mótsögn í niðurlagi 1. og 3. málsgr. 1. gr. frumvarpsins. En jeg lít samt svo á, að þetta megi samríma. Því ef maður, sem á heima í Mosfellssveit og hefir þar aðalbúskap sinn alt árið, hefir líka yfir 3 mánaða atvinnu í Kjósinni, þá má leggja á hann í báðum stöðum, en þó þannig, að draga á þá frá útsvari því, sem lagt er á hann í Mosfellssveit, að tiltölu við þann tíma, sem hann dvaldi í Kjósinni. Þetta er fyrra tilfellið. Hinsvegar er það, að maður rekur arðsama atvinnu í tveimur sveitarfjelögum alt árið; þá á að leggja útsvar á hana alla og óskifta í báðum hreppum. Þetta kemur oft fyrir, t. a. m., að maður hjer í Reykjavík rekur verslun alt árið t. a. m. í Hafnarfirði, og er þar þá goldið alt útsvar af henni þar. Báðar tillögurnar miða að því, að tvö eða fleiri sveitarfjelög geti notið útsvars frá sama manni, og eru því að mínu áliti samrímanlegar. Þó mætti sjálfsagt orða þetta skýrar.

Jeg heyri það á sumum háttv. deildarmönnum, að þeir vilja fella þetta frv., af því að búið sje að skora á stjórnina að endurskoða sveitarstjórnarlögin. En slíkt er ekkert áhlaupaverk, og jeg veit það, að örðugt verður fyrir stjórnina að vera búin að undirbúa allar þær breytingar, sem gera þarf á fátækra- og sveitarstjórnarlögunum, fyrir næsta þing. Og þó nú aldrei nema hægt verði fyrir stjórnina að vera búin svo fljótt, að hún geti lagt þessar breytingar fyrir næsta þing, get jeg ekki sjeð, að rjett sje að meina hreppsnefndum að geta t. d. lagt á laxveiðiafnot næsta sumar.

Yrði það samt ofan á, að frumvarp þetta verði felt, þá væri þó æskilegast, að því yrði svo fyrirkomið að hreppsnefndir gætu eigi að síður notað þennan tekjurjett sinn.