21.04.1922
Efri deild: 47. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 797 í B-deild Alþingistíðinda. (947)

68. mál, fræðsla barna

Guðmundur Ólafsson:

Hæstv. forsrh. (S. E.) þótti ástæða til að mæla á móti þessu frumvarpi, en jeg get ekki skilið, að sumt af því, sem hann hjelt fram, hafi við rök að styðjast, eins og að kenslutíminn yrði styttri, því jeg veit eigi betur en að tíminn sje hinn sami. (S. E.: Jeg átti við heimangönguskóla, en ekki farskóla). Það getur verið, að svo hafi verið.

Jeg er ekki þeirrar skoðunar, að minni not sjeu af kenslunni, þó kent sje aðeins annanhvern dag, þar sem svo hagar til, að börnin þurfa að ganga talsvert langa leið til skólans. Jeg hefi heyrt kennara halda því fram, að slík kensla bæri fult eins góðan árangur eins og þó kent væri á hverjum degi.

Að heimilað er að færa skólaskyldualdurinn upp í 12 ár, er gert til þess að gera kostnaðinn ljettbærari, því gert er ráð fyrir, að heimilin annist fræðsluna til 12 ára aldurs og að börnin verði þá eigi ver að sjer en þó að þau hefðu gengið í skóla frá 10 ára aldri, og heimilunum ætti ekki að vera það ofraun, ef þau aðeins vildu leggja það á sig. En síðan skólaskyldan kom hafa þau nær því með öllu slegið slöku við heimafræðsluna. En árangurinn af skólagöngunni er víða harla lítill. Auk þess má benda á að sumstaðar er alls ekkert farið eftir fræðslulögunum og engin kensla höfð utan heimilanna.

Þá talaði hæstv. forsrh. (S. E.) um að of mikið myndi verða hugsað um að spara. Það getur verið, að það verði meira hugsað um það en hjer á Alþingi, því hjer er ekkert gert nema tala um sparnað, sem aldrei er framkvæmdur.

Jeg get eigi sjeð að það spilli, þó að prestunum sje falið að hafa eftirlit með barnafræðslunni og vera prófdómendur, því jeg get eigi skilið, að þeir verði neitt lakari prófdómarar en margir þeir, sem skipaðir hafa verið til þess.

Jeg get því eigi sjeð neitt á móti því, þó að frv. þetta nái fram að ganga, því að gera má ráð fyrir, að till. milliþinganefndar í mentamálunum verði teknar til greina þegar hægist um með fjárhaginn.

Þá kom það fram, að þetta þyrfti að bera undir fræðslumálastjóra, en jeg sje ekki, að þess sje nein þörf, þar sem frv. þetta er flutt af mentamálanefnd Nd., sem eflaust hefir borið það undir hann.