25.04.1923
Neðri deild: 50. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1218 í B-deild Alþingistíðinda. (1009)

80. mál, stofnun landsbanka

Frsm. (Jakob Möller):

Jeg þarf ekki að hafa langa framsögu í þessu máli. Bæði greinargerðin, sem frv. fylgir, og ræða flm. (JAJ) lýstu svo vel nauðsyninni, sem ber til þess að breyta launakjörum starfsmanna bankans svo sem frv. fer fram á. Það er nefnilega óhjákvæmilegt, að laun þessara manna, sem hjer ræðir um, fylgi enn betur með tímanum en launakjör flestra annara starfsmanna. Svo ábyrgðarmikið er starf þeirra og svo nátengt viðskiftalífinu í landinu, að samræmi verður að vera á milli launa þeirra og þeirra, sem öðrum viðskiftafyrirtækjum stjórna. Svo líkir eru þeir eiginleikar, sem krafist er til þess hvorstveggja, að líkindi eru til, að bestu starfskraftar bankanna geti átt kost á stöðum við önnur fyrirtæki með betri kjörum. En það er bersýnilegt, að vjer verðum að gera alt til þess að fá færustu mennina til þess að stjórna aðalpeningastofnunum landsins, en þá verða launakjörin líka að vera sambærileg við þau kjör, sem slíkir menn gætu annarsstaðar átt kost á. Eigum vjer dæmi nálægt til samanburðar, þar sem er Íslandsbanki, sem hefir yfirleitt launað menn sína betur en Landsbankinn, og hefir nefndin komist að þeirri niðurstöðu, að kjörin í þeim síðarnefnda sjeu hvorki sæmileg nje viðunanleg. Á þetta bæði við um bankastjórana og aðra helstu starfsmenn bankans. Nefndin hefir líka fallist á frv. óbreytt, og er það einróma álit hennar, að launin sjeu þar hæfilega metin. Launakjör starfsmanna í Íslandsbanka voru ákveðin síðastliðinn vetur, og töldum við ekki fært annað en hafa þá laun Landsbankastarfsmannanna í samræmi við þau. Um bókara og gjaldkera er þess að geta, að í Íslandsbanka eru ef til vill stofnlaunin eitthvað lægri, en uppbótin þá líka hærri. Þá er lagt til, að hækkuð sjeu byrjunarlaun aðstoðarfjehirðis frá því, sem frv. gerir ráð fyrir, þannig að ekki muni nema 500 kr. á honum og aðalfjehirði.

Þessi aðgreining á störfum fjehirðis og aðstoðarfjehirðis er að vísu aðeins nafnagreining, því báðir eru hliðstæðir, hafa jafna ábyrgð og jafnt starf, eða það er að minsta kosti í ráði að koma því svo fyrir. En munurinn er helst sá, að annar verður oftast nær yngri maður. Þá hefir nefndin lagt til, að mistalningarfjeð yrði hækkað úr 4 þús. kr. upp í 5 þús. kr., vegna þess að umsetningin hefir vaxið og þar með áhættan, og þegar upphæðin á þar að auki að skiftast á milli tveggja, virðist þetta engan veginn of mikið, úr því þetta skipulag er haft á annað borð og bankinn ber ekki sjálfur ábyrgðina, eins og víðast mun nú siður. En nefndin fjell frá því að leggja til það skipulag, í samráði við bankastjórnina.

Um brtt. háttv. þm. Barð. (HK) get jeg ekkert sagt fyrir nefndarinnar hönd, því að hún hefir ekki átt kost á að bera ráð sín saman um þær, en hins vegar mun jeg síðar fá tækifæri til að minnast á þær, er háttv. flm. hefir gert grein fyrir þeim.