25.04.1923
Neðri deild: 50. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1225 í B-deild Alþingistíðinda. (1012)

80. mál, stofnun landsbanka

Frsm. (Jakob Möller):

Hv. þm. Barð. (HK) hefir nú gert grein fyrir brtt. sínum, og má vera, eins og hann sagði, að hann hafi borið sig saman við einstaka nefndarmenn sjerstaklega, en nefndin í heild hefir ekki um brtt. fjallað. Frá mínu sjónarmiði get jeg sagt það, að mjer virðast þær þýðingarlitlar. Aðallega ætti að felast í þeim það, að tryggja það, að skipa skuli annan fjehirðinn nú þegar. En þetta starf er reyndar ákveðið þegar 1919, og það er á valdi bankastjórnarinnar að gera þetta, hvenær sem nauðsyn er talin á því, og efast jeg raunar ekkert um, að það verði gert mjög bráðlega. — Hinar aðrar brtt. hv. þm. Barð. (HK) verð jeg að telja fremur til óbóta að því leyti, að þær stuðla að því, að pólitísk áhrif geti komið til greina í afskiftum stjórnarinnar af þessum málum, en raunverulega breytingu á frv. er hjer varla um að ræða, þar sem ávalt verður að gera ráð fyrir því, að stjórnin fari eftir till. bankastjórnar.

Viðvíkjandi því, sem sagt hefir verið um launamismun þann, sem venjulega sje milli bankastjóra þjóðbanka og einkabanka, vil jeg benda á það, að Íslandsbanki er einmitt nú sem stendur nokkurskonar þjóðbanki; bankastjórar þar skipaðir af stjórninni og laun þeirra ákveðin af henni. Get jeg fyrir mitt leyti ekki fallist á það, að rjett sje að launa Landsbankastjórana lægra en hina, því launakjörin eiga að vera svo, að trygt sje, að góðir menn fáist, en þeir dragi sig ekki í hlje, af því að kostur sje á betur launuðum svipuðum störfum annarsstaðar.