24.04.1923
Neðri deild: 49. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1291 í B-deild Alþingistíðinda. (1111)

139. mál, fjáraukalög 1923

Sigurður Stefánsson:

* Jeg á brtt. á þskj. 405,XVI um hækkun á styrknum til viðgerðar brimbrjótnum í Bolungarvík úr 12000 kr. upp í 24000, eða til vara 20000. Þetta verður nú líklega sú eina brtt., sem jeg flyt á þessu þingi um að hækka útgjöld ríkissjóðs, enda sæmir mjer ekki annað, svo oft sem jeg neyðist til að greiða atkvæði móti gjaldahækkunum, enda þótt jeg álíti þær oft og tíðum miða til góðs. En það er sá ljóður á ráði mínu, að mjer verður kannske stundum að líta um of á hag ríkissjóðs. Vona jeg, að ræða hæstv. fjrh. og atvrh. (KIJ) taki af efa um það, hversu nú er komið hag ríkissjóðs, og tek jeg því nærri mjer að þurfa að flytja þetta, en tel mig til neyddan.

Á þinginu 1921 voru Hólshreppi veittar 10000 krónur til endurbyggingar og viðgerðar á brimbrjótnum í Bolungarvík, og átti það að vera 1/3 kostnaðar. Treysti hreppurinn sjer ekki til þess að leggja meira til en 20 þúsund. Var tilskilið í fjárlögunum, að ríkissjóðsstyrkurinn yrði því aðeins veittur, að verkið væri framkvæmt undir umsjón verkfróðs manns. Kostnaðurinn við viðgerðina fór 8000 krónur fram úr áætlun, en hefði það verið vitað fyrirfram, mundi aldrei hafa verið lagt út í þetta. Það var aðeins gengið að verkinu í þeirri von, að fjeð mundi nægja. Jeg ætla ekki að áfella menn þá, sem fyrir verkinu stóðu. Það er leitt að þurfa að tala um fráverandi menn, enda þótt satt eitt sje sagt. En hjá því verður ekki komist að skýra frá því, að Th. Krabbe sendi mann vestur, til að standa fyrir verkinu, og kemur öllum saman um — Krabbe líka — að þessi maður hafi ekki staðið vel í stöðu sinni. Á verkinu voru stöðug mistök, sem öllu mörg þúsund króna kostnaði, og í fyrsta verulega óveðrinu, sem gerði eftir að viðgerðinni var lokið, stórskemdist garðurinn. Var illa um hann búið fremst; kassi, sem settur var á hallan sjávarbotn og steypt í, var hafður sljettur að neðan, í stað þess að láta hann laga sig eftir botninum. Var í staðinn sett undir hann möl og sandur til þess að taka af hallann. En brimið gróf það strax undan, svo að kassinn sökk niður að framan, og við það sprakk garðurinn og kom í hann stórt skarð, sem altaf er að stækka, svo nú gengur kolblár sjórinn í gegn. Hreppsnefndin hafði bent á upphaflega, að svona mundi fara, en verkfræðingurinn vildi ekki fara eftir því.

Eftir fyrsta veðrið taldi hreppsnefndin, að skaðinn væri minst 12000 kr., en í febrúar var garðurinn svo skemdur, að álitið var, að ekki væri tiltök að gera við hann fyrir minna en 20000 krónur, og nú hefi jeg fengið sundurliðaða áætlun hjá stórskipasmið, búsettum á Ísafirði, sem lengi hefir dvalið í Englandi við hafnarvirkjagerðir, og áætlar hann, að ekki verði bætt úr skemdunum fyrir minna en alt að 30000 kr. Í þeirri tölu eru þó að vísu 2–3 þús., sem ekki koma beinlínis skemdunum við. En ef verkið fer yfir 20000 krónur, þá býst jeg við, að hreppurinn muni pína sig til að leggja til það, sem á vantar. Jeg skal taka það fram, að fyrir skemdina var brimbrjóturinn orðinn stórkostleg lendingarbót. Hafa engin slys orðið við lendingu í Bolungarvík síðan hann kom, en voru mjög tíð áður. Af því geta háttv. þdm. sjeð, að hann hefir kornið að stórkostlegum notum. Spellin hafa ekki einungis gert verkið ónýtt, heldur einnig stórspilt lendingunni, svo að nú er ekki hættulaust að lenda nema í háflæði og ládeyðu. Mundi það kosta minst 2000 krónur að koma brotunum burt úr lendingunni.

Til þess að sýna, hvað lagt hefir verið til þessa verks frá upphafi, þá skal jeg lesa upp nokkrar tölur:

Úr ríkissjóði hefir verið veitt:

1909 ....... 1000 krónur

1911 ....... 1000 —

1914 ....... 10000 —

1915 ....... 10000 —

1916........ 10000 —

1917 ....... 10000 —

1918 ....... 10000 —

1919 ....... 10000 —

1922 ....... 18000 —

Hafa þannig verið veittar úr ríkissjóði rjettar 80000 krónur.

Jeg hygg, að fáum upphæðum hafi verið varið þarflegar, þegar þess er gætt, hve mörg mannslíf hafa týnst og hve mikið eignatjón hefir orðið af hinni afarslæmu lendingu í Bolungarvík. Úr sveitarsjóði hafa verið greiddar til þessa verks: 20000 kr. árið 1914, sama upphæð hvort árið 1916 og 1917 og loks 40300 kr. árið 1922, auk lendingarsjóðsins, sem var orðinn um 20000 kr. Hreppurinn hefir því lagt til 120 þús. kr., gegn 80 þús. kr. úr ríkissjóði. Til þess að standast þennan kostnað hefir hreppurinn orðið að taka lán á lán ofan, og skuldar hann nú um 60 þús. kr. Af þeim eru 50 þús. kr. beinlínis brimbrjótslán, en 10 þús. kr. voru teknar að láni vegna hallærisráðstafana á styrjaldarárunum. Jeg hygg, að ekki verði bent á mörg sveitarfjelög, sem hafi tekið aðrar eins skuldbindingar á sig, og ber það vitni um, að mönnum þykir mikið liggja við að vernda eignir og líf sjómannanna.

Um það er oft rætt, að þingið þurfi að veita ríflegan styrk til vegabóta og brúargerða. En jeg tel engar vegabætur eins bráðnauðsynlegar og lendingarbætur í stærstu veiðistöðvum landsins. Umferðin um stærstu og fjölförnustu brýr á landinu kemst í engan samjöfnuð við umferðina í helstu verstöðvunum. Jeg hefi gert lauslega áætlun yfir umferðina um vörina í Bolungarvík og reynt að áætla þar sem varlegast. Það má gera ráð fyrir, að 20 vjelbátar sæki þar sjó að staðaldri og 6 menn sjeu á hverjum til jafnaðar. Þeir fara tvisvar á dag um lendinguna, svo að gera má ráð fyrir, að 240 menn fari um hana á vjelbátum í hvert skifti, sem á sjó kemur. Nú má gera ráð fyrir, að vjelbátarnir fari á sjó þriðjung ársins, eða 120 daga, og verður umferðin um lendinguna á vjelbátum einum þá 33600 manns árlega. Þá hefi jeg áætlað 20 róðrarbáta með 4 mönnum á; þeir fara einnig um vörina tvisvar á dag, og eru það þá 80 menn. Jeg geri ráð fyrir 100 sjósóknardögum hjá þeim, því að þó að sjaldan sje róið að vetrinum til, fara þeir þó því nær daglega á sjó á sumrum, þegar gæftir eru bestar. Þetta verður 8000 manns á ári. Eftir þessari áætlun eru það þá um 41600 manns, sem fara árlega um lendinguna í Bolungarvík. Ef menn bera þetta saman við umferðina um nauðsynlegustu brýr í fjölmennustu hjeruðum, hygg jeg, að menn fái ekki neitt svipaðar tölur. Síðasta brúin, sem gerð hefir verið, auk brúarinnar á Eyjafjarðará, sem nú er í smíðum, er brúin á Jökulsá á Sólheimasandi. Sú brú kostaði 250 þús. kr., og skal jeg ekki fárast yfir þeim kostnaði. En meðan brúin var í smíðum, í 4 mánuði, fóru um hana að meðaltali 125 menn á mánuði. Af þessu sjest, hve mikið þessar vegabætur eru notaðar í samanburði við það, sem kalla má vegabætur í fjölmennum verstöðvum, að aðalbrýrnar komast þar ekki í neinn samjöfnuð.

Þá vil jeg gera áætlun um verðmæti það, sem flutt er um þennan veg, sem lendingin í Bolungarvík er. Vjelbátana 20 má áætla til jafnaðar 9000 kr. virði með veiðarfærum, og er það þá 180 þús. kr. verðmæti í bátum og veiðarfærum, sem fer um lendinguna tvisvar á dag. 20 róðrarbátar á 1400 kr. að meðaltali með veiðarfærum gera 28 þús. kr. Það er þá samtals 208 þús. kr. verðmæti, sem fer um lendinguna á hverjum degi, sem á sjó gefur, auk alls aflans, er menn týndu oft áður í lendingu.

Eftir þeirri skýrslu, sem jeg gaf áðan, er búið að leggja 200 þús. kr. í þessa lendingarbót, 80 þús. úr ríkissjóði og 120 þús. úr sveitarsjóði. En brúin, sem jeg tók til samanburðar, kostaði 50 þús. kr. meira. Jeg hygg, að jeg megi fullyrða, að ekki einn einasti hreppur á landinu hafi lagt jafnmikið fje fram til móts við ríkissjóðsstyrk. Jeg er ekki að þakka hreppsbúum þetta, en það sýnir, hve duglegir og framkvæmdasamir menn eiga hjer hlut að máli.

Sú lendingarbót, sem gerð var síðastliðið sumar, var áætlað, að mundi kosta 38 þús. kr., og ætluðu menn þá ekki að leita frekari stuðnings hjá ríkissjóði. Hreppsbúar fengu þarna ekki einungis góða lendingu, heldur einnig fremsta hluta brimbrjótsins sem góða bryggju, sem alt að 100 smálesta skip geta lagst að, en það er mikill hagur fyrir kauptúnið, því að allmiklu af fiski er skipað þar út árlega. En þessar góðu vonir verða að engu, ef svo búið verður látið standa.

Skuld hreppsins er alls 60 þús. kr., eins og jeg tók fram. Síðustu 20 þús. kr., sem teknar voru að láni, var eingöngu innanhreppslán. Fátækir hreppsbúar lánuðu fje sitt gegn því, að það yrði endurgreitt á 20 árum. Þeir leituðu ekki á náðir ríkissjóðs eða bankanna. Nú er þetta alt komið í sjóinn. Það er sárgrætilegt að þurfa að bera svo þungar byrðar fyrir það, sem farið hefir til ónýtis. Á þessum rökum bygðu hreppsbúar beiðni sína um viðbótarfjárveitingu. Jeg lái hæstv. stjórn ekki, að hún tók ekki upp hærri upphæð; hún fór þar eftir því, sem hún var beðin í fyrstu. En svo sem jeg tók fram, hafa skemdirnar aukist allmikið í vetur, og verður viðgerðin því þeim mun dýrari. Hreppsnefndaroddvitinn sendi vitamálastjóra jafnóðum lýsingar á skemdunum og áætlanir um viðgerðarkostnað.

Sumir menn hafa álitið, að enginn garður gæti staðið þarna. En garðurinn, sem bætt var við í fyrra, hafði staðið í 5–6 ár. Auðvitað er alt komið undir því, að vel sje frá öllu gengið, en það var þessum danska manni, sem sendur var vestur í fyrra sumar, mjög ósýnt um. Sementsblöndunin var t. d. svo, að þegar garðurinn sprakk, stóðu þorskhausar og dálkar út úr sárinu, sem höfðu verið í sandinum. Svona var vandvirknin. Þó að hreppsnefndin reyndi að líta eftir verkinu, var það svo um þennan verkfræðing sem aðra, að hann þóttist einn hafa vit á verkinu og ábyrgð á því, en þetta kostaði hreppinn um 40 þús. kr., en verkfræðinginn ekki einn eyri.

Mjer þykir leitt að þurfa að bera fram slíka fjárbón, en jeg vona, að háttv. deild lái mjer það ekki, eftir þær skýringar, sem jeg hefi gefið, og jeg fullyrði, að þær sjeu rjettar, enda geta menn sannfært sig um það af brjefum hreppsnefndarinnar. Verkið kostaði 58300 kr., þegar þessi maður gekk frá því, í stað 38 þús., er vitamálastjóri hafði áætlað. Þessi hækkun kom mest öll á bak hreppsins, en hæstv. stjórn hljóp undir bagga með því að veita 8000 kr. til viðbótar, sem jeg leyfi mjer að þakka henni mjög vel fyrir. Jeg hefi oft greitt atkv. gegn fjárveitingum til verka, er jeg taldi mega bíða án stórspjalla. En hjer er engin leið að bíða, nema með því að eiga það á yfirvofandi hættu, að stórtjón verði í fjármunum og mannslífum.

Jeg hefi hækkað upphæðina, sem jeg hafði talið um við hv. fjvn. og hún hafði góð orð að fallast á, um 4000 kr., upp í 24 þús. Jeg legg það á vald hv. deildar, hvort hún vilji samþykkja þá upphæð, en jeg treysti því fastlega, að hún sjái sjer fært að veita að minsta kosti 20000 krónur. Jeg veit, að hreppsfjelagið vill leggja enn mikið á sig í þessu máli, þrátt fyrir bágar ástæður, og jeg vona, að hv. deildarmenn meti það.

Það hefir verið hepni mín sem sparnaðarmanns á landsfje, að kjördæmi mitt hefir ekki verið kröfuhart. Eina fjárbónin, sem hefir komið úr Norður-Ísafjarðarsýslu meðan jeg hefi verið þingmaður þess kjördæmis, er til þessa brimbrjóts. Að vísu er veitt nokkurt fje til póstflutninga þar í sýslu, en það er eins mikið vegna ríkissjóðs sjálfs, þó að styrkurinn sje nokkuð hærri en tekjur af póstflutningum þar. Aðeins ein brú hefir verið smíðuð þar fyrir 20–30 árum, og kostaði hún 8–9 þús. kr.; það eru allar vegabæturnar, sem ríkissjóður hefir kostað í þessari sýslu, sem jafnan hefir verið ein besta mjólkurkýr ríkissjóðs. Sýslan hefir að vísu fengið lán úr viðlagasjóði; fór hún fram á greiðslufrest á láninu, og hefir það nýlega verið samþykt í þessari hv. deild. Jeg veit, að sýslan muni greiða afborganir sínar á tilsettum tíma, nema hagur hennar versni því meir, enda hefir það verið að fara í geitarhús að leita ullar, meðan jeg hefi verið þingmaður þessa kjördæmis, að biðja mig um að bera fram tilmæli um eftirgjöf lána. Það hefir mjer jafnan verið ógeðfelt.

Jeg fel svo hv. deild þetta mál; þykist jeg vita, að svo margir sanngjarnir menn sjeu í þessari hv. deild, að þeir muni líta vingjarnlega til þessarar veiðistöðvar, sem gefur ríkissjóði árlega tugi þúsunda í tekjur.