25.04.1923
Neðri deild: 50. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1362 í B-deild Alþingistíðinda. (1135)

139. mál, fjáraukalög 1923

Jakob Möller:

Mjer skilst, að háttv. þm. Mýra. (PÞ) hafi misskilið það, sem jeg sagði viðvíkjandi fiskimatsmönnunum, og er sjálfsagt að leiðrjetta, ef menn halda, að komið hafi frá þeim nokkrar hótanir. Svo er ekki. Þeir fara fram á uppbót og segja, að laun sín sjeu ekki nægileg. En hitt veit jeg, að einn þeirra, Jón Magnússon, á kost á betri kjörum annarsstaðar, og jeg taldi mjer skylt að upplýsa það, til þess að hægt væri að hegða sjer eftir því, því að ekki er ólíklegt, að hann taki þeim betri kjörum. Furðar mig því mjög á þjósti háttv. þm. Mýra. (PÞ.) út af þessu. Sama máli gegnir um símameyjarnar. Jeg talaði ekki um neitt verkfall þar. En jeg sagði, að kjör þeirra lægst launuðu við bæjarsímann væru óviðunandi, og ef þeim byðist betra, þá hlytu þær að fara. Og það getur hver maður sjeð sjálfur, að er eðlilegt. Þetta var því alt út í bláinn hjá háttv. þm. Mýra. (PÞ) með þessar hótanir, er hann þóttist verða var við.