08.03.1923
Neðri deild: 15. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 88 í B-deild Alþingistíðinda. (115)

13. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Jón Þorláksson:

Þeir hv. nefndarmenn úr meiri hlutanum. háttv. 1. þm. Skagf. (MG) og 1. þm. Reykv. (JakM), hafa báðir rjettilega bent á, að brtt. mínar rjeðu ekki bætur á þeim slæma jöfnuð, sem er á tekjuskattinum á milli Reykjavíkur annars vegar og hins vegar alls landsins utan Reykjavíkur. Þetta er alveg rjett. Jeg hefi ekki sjeð mjer fært að bera fram tillögur, er til þess þyrfti, við þetta bráðabirgðafrv., er svo mjög þarf að hraða gegnum þingið. Jeg vil með brtt. mínum einungis reyna að afstýra því, sem bæði stjórnarfrv. og brtt. meiri hlutans stofna til, að þessi ójöfnuður verði aukinn frá því, sem nú er. Báðar þessar tillögur fara fram á að lækka skattinn á lægri gjaldendum, en það er unnið upp með því að auka skattinn á hærri gjaldendum, það er að segja að láta Reykjavík eina borga lækkun á öllu landinu. Þetta má ekki svo vera í viðbót við það misrjetti, sem fyrir er og fram er komið. Brtt. mínar afstýra þessu. Jeg mun reyna síðar, þegar frv. um endanlega endurskoðun á lögum þessum kemur fram, að bera fram brtt. í þá átt að koma á rjettu samræmi milli landshlutanna.

Þessir sömu háttv. þm. lýstu því, að ógerningur hefði verið að reikna út, hve mikil áhrif tillaga þeirra um frádrátt sveitarútsvarsins hefði á upphæð skattsins. Það getur verið, að þeir geti ekki reiknað þetta út. Það er ekki lífsstarf þeirra að gera áætlanir. En ef við, sem höfum það fyrir daglega iðju að gera áætlanir, hefðum altaf jafngóðan grundvöll á að byggja og hjer liggur fyrir, þá þættumst við vera vel staddir. Það ætti að vera hægðarleikur að gera áætlun um þetta með þeim gögnum, sem fyrir eru. En vel mætti telja óþarfa að gera nokkurn útreikning um þetta, því að tillagan er svo sjálfsögð. Þó er óviðkunnanlegt að greiða atkvæði um þetta án þess að vita, hvaða fjárhagslegar afleiðingar það hefir fyrir ríkissjóð, þegar auðvelt var að reikna það út. Ef reiknað væri út fyrir Reykjavík eina, er greiðir 3/4 hluta skattsins. ætti að mega sjá nokkurn veginn nákvæmlega útkomuna fyrir landið í heild.

Það, sem skilur milli mín og háttv. 1. þm. Reykv. (JakM), er í fyrsta lagi það, að hann er meiri meðhaldsmaður beinna skatta en jeg. Er það almenn reynsla, að beinu skattarnir verða erfiðastir, ef nokkru nema. Er það og auðskilið, því þar er skatturinn tekinn af löngu öfluðum tekjum, sem venjulega eru eyddar löngu áður en skattinn á að greiða, en aðrir skattar eru teknir af tekjum manna um leið og þeir eyða þeim.

Er það reynsla annara þjóða, að þær hafa skamt farið í því að hafa beina skatta, enda þótt rjettlátari sjeu.

Háttv. frsm. meiri hlutans (MG) gaf upplýsingar um eitt atriði, sem skýrði það, hvers vegna Reykjavík hefði orðið svo hart úti. Fullur þriðjungur skattsins hefir sem sje verið goldinn af fjelögum — hlutafjelögum. En meiri hlutinn af þessu hefir þá verið tvískattaður, fyrst hjá fjelaginu og síðan hjá hinum einstöku hluthöfum.

En sem vitanlegt er hagar svo til um atvinnurekstur hjer í Reykjavík, að hann er rekinn að talsverðu leyti með hlutafjelögum, og þetta háa skattgjald, sem á Reykjavík kemur, sannar því engan veginn, að afkoman hjer sje það betri, sem mismuninum milli skattsins hjer og í öðrum landshlutum svarar. Ætti upplýsingin um þetta atriði því að verða til varnaðar þess, að þingið gengi lengra inn á þá braut, sem lögð var með skattalögunum 1921.

Hæstv. fjrh. (MagnJ) nefndi eitt atriði, sem vert er að athuga nánar.

Eftir núgildandi frádráttarreglum verða ekkjur og ekkjumenn harðara úti en vera ber, og vill hann rjetta það með því að fella burtu persónufrádráttinn. En hjer er rjetta leiðin að taka dönsku skattalögin sjer til fyrirmyndar. Þar er frádrátturinn sá sami fyrir hvern sem framfærir. hvort sem um hjón, ekkil eða einstæðing er að ræða, en svo er annar frádráttur fyrir einhleypt fólk, sem er hálfu lægri.

Mjer þykir leitt, að háttv. samþingismaður minn. 1. þm. Reykv. (JakM) skuli ekki vilja ganga inn á till. mína um, að tekjuskattsupphæðin skuli dregin frá skattskyldu tekjunum áður en þær eru skattlagðar. Þetta er þó alveg sambærilegt því, sem gildir um útsvörin: bæði þessi gjöld eru sambærileg og eru talin með tilkostnaði við atvinnuna hjá öllum þeim atvinnurekendum, sem bókhaldsskyldir eru.

Til þess að sýna fram á, hve tilfinnanleg ósanngirni það er að reikna ekki tekjuskattinn frá, vil jeg skýra það með dæmi: Atvinnufyrirtæki eitt hefir gott ár og fær miklar tekjur, en svo er næsta ár ljelegt, svo að það aðeins nægir til að borga tekjuskatt og útsvar feita ársins, og svo kemur þriðja árið. Þá á samkvæmt núgildandi lögum fyrirtækið að greiða tekjuskatt af tekjum síðastliðins árs (2. ársins), enda þótt tekjur þess árs gengju allar til þess að borga skatta fyrsta ársins. En þrátt fyrir það, Þótt fyrirtækið þannig hafi alls engan tekjuafgang, verður það að borga talsverðan tekjuskatt. ef 1. árið hefir verið feitt á pappírnum.

Það er sannkölluð neyð fyrir ríkið að þurfa að taka svona ósanngjarnan skatt — skattagjöldin til bæjarsjóðs og ríkis.

Út af ummælum háttv. þm. Ak. (MK) verð jeg að segja það, að það er leiðinlegt að þurfa að þrátta við menn um upphæð talna, sem liggja á borðinu fyrir framan þá, en þá afsökun hefir þó þingmaðurinn, að frádráttarreglurnar eru dálítið mismunandi, og þess vegna hefir samanburðurinn orðið honum ofurefli.

Þessi háttv. þm. sagði, að brtt. mínar hækkuðu tekjuskattinn á lágu tekjunum frá því, sem hann er í stjórnarfrv. Hann gætti þess ekki, að frádrátturinn hjá mjer er 500 kr. meiri á einhleypum og 1000 kr. meiri á hjónum en er í stjórnarfrv. Er því auðsæ villan hjá háttv. þm.

Sannleikurinn er, að eftir mínum till er skatturinn 5 kr. lægri upp að 9000 kr. hjá giftu fólki heldur en hann er samkvæmt stjórnarfrv., en á einhleypum er hann nokkru hærri samkvæmt mínum till., nema á allra lægstu tekjunum; þar er hann lægri.

Annars er það ekki rjett að bera þessar brtt. saman hverja við aðra, heldur á að bera þær saman við núgildandi skattalög, hverja fyrir sig, og sjá, hvaða breytingum þær valda. — Sjest þá, að mínar tillögur fara fram á lækkun neðan til, en dálitla hækkun ofan til.

Háttv. frsm. minni hlutans (ÞorlG) stje feti framar í sinni röksemdafærslu en góðu hófi gegndi. Hann sagði, að manni með 25000 kr. tekjur væri ljettara að borga 20% af tekjum sínum heldur en manni, sem hefði 2000 kr. tekjur, að borga ekki neitt. Flestir munu líklega álíta, að það ljettasta sje að borga ekkert.

Það er rjett, að jeg hefi tekið að mjer það vanþakkláta verk að taka málstað hinna háu gjaldenda. Hefi jeg áður sagt, hvers vegna jeg gerði það, en skal taka það fram betur nú. Jeg geri það ekki vegna þessara manna sjálfra, því að þótt hæsti skattur yrði af þeim tekinn samkvæmt stjórnarfrv., þá þyrftu þeir þar fyrir ekki að breyta lifnaðarháttum sínum til muna eða neita sjer um neitt sem kallað er. En það er annað atriði, sem mjer gerir — afleiðing þessa háa skatts fyrir þjóðfjelagið. Altaf þegar um skattaálögur er að ræða, verður árekstur millum einstaklingana og þjóðfjelagsins.

Einstaklingurinn vill ekki, að skatturinn sje tekinn af eyðslufje sínu, en þjóðfjelagið þarf þess með, að hann sje tekinn af því, en ekki af safnfjenu — fjenu, sem verja skal til rekstrar atvinnuveganna og til aukningar framleiðslunni í landinu. Þessi regla gildir jafnt hvort sem er að ræða um menn með háum tekjum, sem safna einhverju fje, af því að þeir þurfa ekki að eyða öllum tekjum, eða um smælingja, sem safna nokkru, af því að þeir eru sparsamir. Vegna þessa skoðanamismunar verður að gæta hófs í álagningu á þær tekjur manna, er þeir nota ekki sjálfir. En það kalla jeg hóf að taka 10%–17% af því, sem er umfram 10 þús. kr. tekjur, til ríkisins og annað eins til bæjar- og sveitarfjelaga, eins og gert er eftir núgildandi lögum og till. mínum. — En það er ekki hóf, sem stj.frv. fer fram á, að taka 20%, og langt þar yfir í ríkissjóð og annað eins í bæjarsjóð: er hjer farið lengra en annarsstaðar. Í öllum ræðum og skrifum um þetta mál hefir ekki verið reynt að færa röksemdir að því, að rjett væri að láta ívilnunina á lægri gjaldendum koma fram í auknum beinum skatti á þeim hærri. Till. um þetta er haldið fram röksemdalaust. En jeg er á annari skoðun: jeg tel ekki rjett að ná ívilnuninni þarna.

Ef nauðsyn er á því að afla landssjóði meiri tekna. Þá er sú ein leið rjett að auka aðflutningsgjald á þeim vörum, er menn geta vel komist af án og ekki heyrir til lífsnauðsynjunum — hinar svo kölluðu óþarfavörur.

Í öllum skattalögum ber sjerstaklega að líta á tvent: Það, að fjeð náist, og að aukaverkanir skattsins, meðan lögin eru ný, sjeu ekki skaðlegar.

Aukaverkanir af því að skattleggja óþarfavarning hátt eru ekki aðrar en þær, að menn spara og innflutningurinn minkar. Þær eru því eingöngu til hollustu, en aukaverkanir hás tekjuskatts verða þær, að menn skjóta sjer undan að greiða hann, að minsta kosti með öllu því móti, sem löglegt er, og einnig að skatturinn tekur of mikið af því fje, sem á og þar að vera handbært í landinu sem stofnfje og til rekstrar atvinnufyrirtækjanna

Hv. 1. þm. Reykv. (JakM) sagði, að beinu skattarnir hefðu þær aukaverkanir, að þeir hvettu þingið til sparsemi á útgjöldum. Þetta er því aðeins, að skatturinn sje hreyfanlegur. En þessi verkun missist, ef skatturinn er svo lágur á fjöldann, að tilfinnanleiki hans hverfur. Skatturinn kemur þá aðeins niður á fáum mönnum, sem ekki njóta sín að neinu ráði við kosningar til Alþingis. En það munu flestir sammála um, að ekki sje rjett að hafa tekjuskattinn svo háan, að það gefi sjerstakt tilefni til þess, að fátæklingarnir fari að skifta sjer af gerðum Alþingis, en hjer í Reykjavík greiddu síðastliðið ár gjaldenda skatt af minna en 1000 kr. En allar till. ganga nú í þá átt að lækka þetta. Jeg vil taka undir það með hv. þm. Ak. (MK), að gott sje að leita til útlanda um fyrirmyndir þegar nýtt er upp tekið, hvort sem leitað er til Dana eða annara þjóða. Hann mintist á skattafyrirkomulagið í Englandi, en sagði þar ekki nema hálfan sannleikann. Það er satt, að frádrátturinn þar er hár, alt upp í 300 sterlingspund, en þar fyrir ofan er skattstiginn ekki hækkandi, heldur jafnmikið tekið af hverju sterlingspundi, hvort sem tekjurnar eru háar eða lágar.

Þá sagði hv. þm. (MK.), að í Danmörku hefði nú síðustu árin ráðið stóreignamannastefna, og því væri þar alt í kaldakoli. Þetta er algerlega rangt. Í byrjun stríðsins varð fyrst bandalag milli jafnaðarmanna og radikala, og rjeðu jafnaðarmenn nær öllu, því að þeir voru liðfleiri. Nú hefir um hríð verið bandalag milli íhaldsmanna og vinstrimanna, og hafa þeir síðastnefndu mestu ráðið, en það er eins og kunnugt er bændaflokkurinn. Þetta er sannleikurinn.