12.05.1923
Sameinað þing: 7. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1496 í B-deild Alþingistíðinda. (1229)

139. mál, fjáraukalög 1923

Frsm. fjvn. Nd. (Magnús Pjetursson):

Það er ekki mikið, sem jeg þarf að segja, þó háttv. Ed. hafi enn sýnt þá tilhliðrunarsemi(!) að senda nú í annað sinn fjárlagafrumvarp í Sþ., þrátt fyrir undanlátssemi háttv. Nd.

Að ágreiningurinn er ekki meiri en orðið hefir, má þakka meiri hl. hv. Ed., sem hefir dregið úr kappi því, sem orðið hefir milli deildanna.

Fjvn. háttv. Nd. hefir nú ekki reynst eins kappsfull og systir hennar í hv. Ed. Hún hefir aðeins komið fram með eina brtt. á þskj. 635; þykir nefndinni einkennilegt, að þessi till. skuli þurfa að hrekjast svo mjög, þar sem margar hafa náð fram að ganga, er minni rjett eiga á sjer. Miðar þessi till. að því að hjálpa innlendri framleiðslu, efla iðnaðinn, og ekki síst til þess að hjálpa þeim ullar verksmiðjum, sem nú eru til og upp kunna að rísa. Er því ómaklegt með öllu, hve till. hefir orðið hart úti. Væntir fjvn. Nd., að Sþ. verði samtaka um að leyfa þessari till. fram að ganga. Hefir svo mikið verið mælt með þessari till., að jeg læt þetta nægja nú.

Viðvíkjandi 2. brtt. á sama þskj., skal jeg taka það fram, að nefndin er henni meðmælt, Skal jeg að öðru leyti ekki ræða um hana, enda þótt skorað hafi verið á mig að gera það í háttv. Nd. Fyrsti flm. þeirrar till., háttv. 2. þm. Rang. (GGuðf), er læknir, og mun hann tala fyrir henni.