21.04.1923
Neðri deild: 47. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1520 í B-deild Alþingistíðinda. (1260)

115. mál, verslun með smjörlíki

Eiríkur Einarsson:

Jeg gat um það í fyrri ræðu minni, að lítil ástæða væri til þess að óttast svik af hendi þessara manna, enda væri það mjög erfitt að koma við svikum, því að alt landsfólkið þyrfti að vera í vitorði um það með bændum, er ættu hagsmunanna að gæta. En vilji fólkið svíkja, þá hefir það nóg tök á því, þótt þetta verði samþykt. Er ekkert þægilegra en að flytja að smjörlíki til blöndunar, ef hlutaðeigendur eru þess hugar.

Lánið til Hrunamannahrepps var veitt til þess, að hægt væri að reka þar smjörlíkisgerð samhliða rjómabúinu, og til hennar væri notað það, sem fjeli til frá rjómabúinu. Þingið sýndi með þessu, að það vill styðja þessa viðleitni. Og í krafti þessa stofnuðu bændurnir til smjörlíkisgerðarinnar, og myndi þeim nú koma illa og einkennilega fyrir, ef þingið segði nú: Hingað og ekki lengra. Verður að taka tillit til þessarar ástæðu.

Jeg hefi talað um þetta við formann Búnaðarfjelagsins, og taldi hann brtt. mína sjálfsagða. Mun og ekki vera of mikið framleitt í landinu, þótt ekki sje farið að leggja hindranir í veg fyrir þetta fyrirtæki Hrunamannahreppsmanna.