27.04.1923
Neðri deild: 51. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1589 í B-deild Alþingistíðinda. (1333)

110. mál, jarðræktarlög

Frsm. (Þórarinn Jónsson):

Jeg hefi litlu að svara, og um sumt af því, sem jeg vildi sagt hafa. hefir háttv. þm. Ak. (MK) tekið af mjer ómakið.

Háttv. 4. þm. Reykv. (MJ) sagði, að stundum hefði andað kalt frá landbúnaðinum til sjávarútvegsins. Jeg kannast ekki við, að þetta sje rjett, og í framsöguræðum mínum hefi jeg verið alveg hlutlaus, enda tel jeg rjett og sjálfsagt, að þeir styðji hvorn annan. Það er rjett hjá hv. sama þm., að jeg gleymdi að minnast á 2 brtt. hans, 3. og 4. brtt. Háttv. þm. Ak. (MK) hefir nú minst á þær báðar, og er jeg honum sammála. En um 3. brtt. var raunar óþarfi af mjer að geta, því að auðsjeð var, að landbn. mundi vera á móti henni, þar sem hún hefir fært þetta ákvæði úr þeim skorðum, sem það áður var í, en sem hv. þm. (MJ) vill nú aftur færa það í. Álítur landbn. rjett, að 5 dagsverk hjá fátækum einyrkjum jafngildi 10 dagsverkum hjá öðrum, er betur stendur á fyrir. Er það auðsætt, að þó um einyrkja sje að ræða, geta sumir verið svo efnum búnir, að þeir eigi hægt með að kaupa mikla vinnu að, sem aðrir geta ekki. Og þó að mat sje á þessu, eru meiri líkur til, að minni órjettur yrði heldur en eftir brtt.

Fjórða brtt. hv. þm. (MJ), sem á að tryggja það, að ekki sje til fyrirtækisins stofnað, nema það sje skynsamlegt að áliti Búnaðarfjelagsins, er óþörf. Búnaðarfjelagið hefir alla umsjón með fyrirtækinu og hefir trúnaðarmann í hverjum hreppi; er það næg trygging þess, að það fái að vita um öll fyrirtæki áður en þau eru byrjuð. Hann taldi rjettara, að atvinnumálaráðherra skæri úr ágreiningi, sem verða kynni út af fyrirtækjum þeim, er ræðir um í 7.–12. gr., heldur en Búnaðarfjelagið. Hefi jeg áður svarað því. En þótt svo væri fyrir mælt, þá mundi það í framkvæmdinni verða Búnaðarfjelagið, því að atvinnumálaráðherra mundi altaf fara eftir tillögum þess. Annars mun sjaldan koma til úrskurðar um þessi mál, en það sýnist rjettast, að Búnaðarfjelagið hafi úrskurðarvaldið, því að það verður ávalt hlutlaust og getur enga tilhneigingu haft til að halla á annanhvorn aðilja.

Háttv. þm. (MJ) sagði, að auðvelt mundi að fá fje úr ríkissjóði til þúfnabana, ef nauðsyn þætti til. Það má vel vera, en þó getur það verið vafasamt, hvort það mundi ætíð. Sýnist mjer rjett, að veitt sje ákveðin upphæð til þessa, svo að full reynsla fáist á þessum tækjum. Er víst, að ekkert tæki er jafnstórtækt til að auka ræktunina sem þetta, og er því full ástæða til að afla sjer fullrar reynslu um það.

Háttv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) mintist á ákvæði 27., 28. og 29. gr. frv., og þótti þar ekki nægilega tryggilega um búið.

Nefndin vill gjarnan athuga þetta betur í samráði við hann. En hins vegar fæ jeg ekki sjeð annað en að hjer sje vel um búið.

Í 27. gr. er sá varnagli, að þetta verði aðeins svo, sem „við getur átt“, og er því lítil hætta á því, að þetta verði á þeim jörðum, sem skemdir vofa yfir eða hætt er við að leggist í eyði. einkanlega þegar þess er gætt, að Búnaðarfjelagið hefir alstaðar eftirlitsmann, sem lítur eftir þessu. En eins og jeg sagði áðan, er nefndin fús til að athuga þetta með hv. þm. (SvÓ).

Háttv. þm. Ísaf. (JAJ) beindi þeirri spurningu til mín, hvort 2. gr. frv. næði til Landsbankans og útibúa hans.

Orðin í 2. gr. eiga einungis við veðbankann, og nefndin hefir ekki ætlast til eða skilið það svo, að fjelagið ætti aðgang að öðrum bönkum ríkisins. Er þetta aðeins miðað við IV. kafla frv., um ræktunarlán úr ræktunarsjóði, eða veðbanka, þegar sjóðurinn hefir runnið inn í hann.