21.04.1923
Neðri deild: 47. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1609 í B-deild Alþingistíðinda. (1360)

99. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Pjetur Ottesen:

Jeg á brtt. við frv. þetta, sem jeg þarf að láta nokkur orð fylgja úr garði. Það er kunnugt orðið, og fer víst framhjá fæstum háttv. þm., hversu afarerfitt það er orðið í hinum ýmsu bæjar- og hreppsfjelögum að jafna niður hinum óhjákvæmilegustu gjöldum, og hversu fáar leiðir þau geta farið til að auka tekjur sínar, í hlutfalli við útgjöldin, sem fara vaxandi árlega. Flestir tekjustofnamir eru svo mylktir í ríkissjóð, að lítið eða ekkert er eftir til annara þarfa, það er til bæjar-, sýslu- og hreppsþarfa. En þar sem þessu er nú þannig varið, þá þarf líka að gæta þess, að fara varlega í það að svifta bæjar- og sveitarfjelögin þeim tekjustofnum, sem þau hafa og fyrir eru. Þetta frv. fer fram á að svifta þau kauptún og kaupstaði, sem ákvæði þess ná til, skemtanaskattinum. Eins og þetta frv. var úr garði gert af hendi flm., þá átti skemtanaskatturinn að koma niður á kaupstöðum, sem hafa 2000 íbúa eða fleiri, og var því, eftir því sem annar flm., hv. 1. þm. Reykv. (JakM), hefir skýrt mjer frá, hagað svo vegna þess, að slíkir bæir eru þeir stærstu og þeir, sem svo eru settir, að þeir verða miðstöð, hver í sínum landshluta, miðstöð samgangna úr þeim landshluta. Skatturinn gæti með því móti á þessum stöðum orðið nokkuð almennur, nokkurskonar landsskattur. Einmitt með þetta fyrir augum vildu flm. frv. ekki ganga lengra, og jeg veit, að háttv. 1. þm. Reykv. (JakM) leit svo á, að það væri að seilast um hurðina til lokunnar, að fara að færa skattagrundvöllinn lengra út. En háttv. mentamálanefnd hefir lagt til að breyta þessu þannig, að hún lætur skattinn ná til allra þeirra kauptúna og kaupstaða, sem hafa 1000 íbúa og fleiri. Þó þau kauptún sjeu nú raunar ekki mörg, sem hafa þessa íbúatölu, þá er sá munur á þeim, sem hafa lægri íbúatöluna, og stærstu bæjunum, að í þeim fyrnefndu eru skemtanirnar nær eingöngu sóttar af þeim mönnum, sem heima eiga þar á staðnum, og kemur þá skatturinn eingöngu niður á kauptúna- eða kaupstaðabúum.

Það er einmitt þessi aðstöðumunur, sem getur rjettlætt það nokkuð að verja skemtanaskatti stærstu bæjanna til þjóðleikhúsbyggingar, þó það sje aftur á móti alveg fráleitt að fara svo að hvað snertir smærri kaupstaði og kauptún.

Auk þess skapar þetta ærið misrjetti og er beinlínis hjákátlegt, að kauptún eða kaupstaðir, sem hafa eða hanga í að hafa 1000 íbúa, verði að láta allan skattinn af hendi rakna til þjóðleikhússins, en önnur kauptún, sem aðeins eru nokkru fólksfærri, geta notað hann til eigin þarfa, en eru þó alveg jafnt sett hvað alla aðstöðu snertir.

Með lögunum frá 1918 um skemtanaskatt er bæjarfjelögum, eins og kunnugt er, gefin heimild til þess að leggja skemtanaskatt á til eigin þarfa, og eru ýms þeirra farin að nota sjer þetta. Fer auðvitað eftir atvikum, hvað vinst; en stundum getur það þó orðið dálítill styrkur fyrir hreppana, þó lítið mundi muna fyrir það fyrirtæki, sem hjer á að fara að stofna til. Auk þess, sem, eins og jeg hefi áður tekið fram, verður að fara mjög varlega í það að kippa í burtu þessum litla tekjustofni, sem kauptúnahrepparnir úti um landið hafa fest hönd á, þá er sannarlega heldur ekki eftir miklu að slægjast eða varla ómaksins vert að vera að seilast eftir þessu. Enda kemur ranglæti fram í því að vera að elta kauptúnin, í stað þess að verja skattinum í þessu augnamiði, úr því menn endilega vilja gera það, í þeim kaupstöðum, þar sem svo er hagað um samgöngur, að aðsókn af fólki úr nærliggjandi hjeruðum til dvalar um lengri eða skemri tíma, að hann getur orðið almennur skattur. Nú kem jeg með brtt. um, að ákvæði frv. um þessa ráðstöfun á skattinum nái aðeins til bæja, sem hafa 1500 íbúa eða fleiri. Er það miðlunarvegur milli þess, er flm. ætluðust til í upphafi, og tillagna mentamálanefndar, og tel jeg þeim sæmilegt að fallast á þetta, sem á annað borð vilja fara að breyta lögum um skemtanaskatt og aðhyllast þessa stefnu. Raunar hefi jeg borið fram varatillögu um, að íbúatalan verði hækkuð upp í 1500.