23.04.1923
Neðri deild: 48. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1622 í B-deild Alþingistíðinda. (1371)

99. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Jón Þorláksson:

Jeg vil aðeins koma með leiðrjettingar á því, sem háttv. 1. þm. N.-M. (ÞorstJ) sagði í þessu kasti sínu. Hann hjelt, að jeg væri að andmæla mjög þessu frv., en jeg gerði það ekki. Jeg spurði aðeins hv. flm. (JakM og ÞorstJ), hvort þeir vildu láta taka málið af dagskrá, en þeir kváðu nei við því, og þá nær það ekki lengra: málið gengur þá til atkvæða.

Það er nú nýbúið að setja heimildarlög um, að bæjarfjelög megi notfæra sjer þennan skatt, og svo á nú að fara að hringla í þessu aftur og breyta þessum heimildarlögum. Það hefði átt að vera hið fyrsta verk þessarar nefndar að rannsaka það, hvernig þessi breyting kæmi niður, til þess að komist yrði hjá að ónýta þær ráðstafanir bæjarfjelaganna, sem þegar er byrjað á samkvæmt heimild laganna um skemtanaskatt, eins og þau eru nú.