30.04.1923
Neðri deild: 53. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1634 í B-deild Alþingistíðinda. (1396)

106. mál, sandgræðsla

Gunnar Sigurðsson:

Jeg ætla aðeins að tjá háttv. landbn. þakkir fyrir það, hve vel hún hefir tekið í þetta mál. Jeg vil einnig taka það fram, að jeg get gengið inn á allar brtt. hennar, sem flestar eru aðeins orðabreytingar og til bóta. Efnisbreytingar eru ekki nema þetta litla atriði, sem háttv. þm. Mýra. (PÞ) gat um. Jeg skal taka það fram, að þetta frv. er samið í fjelagi af austanþingmönnunum og Búnaðarfjelagi Íslands. Hefir forseti Búnaðarfjelagsins sýnt hinn mesta áhuga í því, og kann jeg honum þakkir fyrir Jeg skal taka það fram, að mjer er þetta ekki einasta áhugamál af þeim praktisku ástæðum, heldur er mjer það líka beint tilfinningamál. Hefi jeg nú horft upp á svo marga góða landspilduna leggjast í eyði þarna austur frá af sandfoki, að mjer væri það mjög kært, að jeg þyrfti ekki oftar að vera sjónarvottur að slíkum landspellum. Tel jeg jafnvel, að sandgræðsla þessi eigi að sitja í fyrirrúmi fyrir túnrækt, áveitum og öðrum slíkum jarðræktarfyrirtækjum. Hjer þarf fljótt við að bregða, því ekki verður lengur að gert, er jarðvegurinn er allur fokinn burt.

Skal jeg svo ekki orðlengja þetta meira, og vona jeg, að þetta mál nái skjótri og góðri afgreiðslu.