05.05.1923
Neðri deild: 58. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1642 í B-deild Alþingistíðinda. (1420)

151. mál, eftirlitsmaður með bönkum og sparisjóðum

Forsætisráðherra (SE):

Á fyrri þingum hafa komið fram tillögur um aukið eftirlit með sparisjóðum, en náði þá ekki fram að ganga. Þá mun þetta hafa átt að vera aukastarf, og átti aðeins að launa það lítið. En nú eru bankarnir teknir með og einum manni ætlað að hafa þetta að lífsstarfi.

Háttv. 1. þm. Eyf. (StSt) álítur endurskoðun þá, sem nú á sjer stað við banka og sparisjóði, nægilega. Af stjórnarinnar hálfu er nú sama sem ekkert eftirlit með sparisjóðum, og í bönkunum fer aðeins fram töluendurskoðun. Sú endurskoðun, sem hjer er gert ráð fyrir, er „kritisk“ endurskoðun. Háttv. þm. gerir lítið úr þekkingu þessa manns á efnahag manna víðs vegar um land. Jeg geri nú ráð fyrir, að þar sem maður á að gera þetta að lífsstarfi, þá muni hann brátt kynnast efnahag manna; en í byrjun verður hann auðvitað að njóta aðstoðar kunnugra og áreiðanlegra manna á hverjum stað.

Jeg geri ráð fyrir, að eftirlitsmaðurinn muni snúa sjer fyrst þangað, sem hann telur. eftir upplýsingum, sem kynnu að liggja fyrir, að eftirlitsins sje mest þörf. Og þegar hann einu sinni er búinn að endurskoða alla sparisjóði á landinu, þá á hann sjálfsagt ljett með að gera sjer ljóst, hvernig framvegis muni best að haga eftirlitinu. Annars minni jeg á, að í reglugerð á að ákveða nánar starfsvið eftirlitsmannsins.