07.05.1923
Neðri deild: 59. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1661 í B-deild Alþingistíðinda. (1439)

151. mál, eftirlitsmaður með bönkum og sparisjóðum

Eiríkur Einarsson:

Jeg skal ekki deila við hæstv. forsrh. (SE) um það, hvaða heimildir stjórnin hafi til þess nú að láta rannsaka sparisjóði. En í lögum frá 1915 er slíkt ákvæði ekki til, svo ótvírætt sje.

Um þennan eftirlitsmann er það annars að segja, að hvernig svo sem valið á honum tækist, þá er starfið þannig vaxið, að það er víst, að megn óánægja mun hljótast af þeirri embættisskipun, og það fyr en varir. Þegar þess er enn fremur gætt, að það eru engar horfur á, að gagn verði að þessum embættismanni, meira eða tryggilegra en mundi verða eftir mínum brtt., þá er síst ástæða til þess að fara að setja slíkt nýgræðingstoppfígúruembætti á laggirnar. Þar að auki yrði kostnaðurinn af þessu nýja embætti mjög mikill, en miklu minni samkvæmt mínum till., og þó eins vel eða betur frá sparisjóðamálunum gengið. Rannsóknir myndu varla verða svo tíðar samkvæmt heimildarlögum, að kostnaðurinn yrði annað en smámunir hjá þessum embættislaunum: það myndi ásannast, hvað sem hver segir.

Annars álít jeg, að viðkomandi ráðherra sjálfur sje skyldur til þess að hafa stöðugt vakandi auga á þessum peningastofnunum. Honum er það sjálfum nauðsynlegt, til þess að geta rækt starf sitt, og það er skylda hans gagnvart þjóðinni. Og þetta ætti að mega gera alveg millimannalaust að því er bankana snertir. Eru lagafyrirmæli alveg ótvíræð fyrir hendi að því er snertir slíkt ráðherraeftirlit í Landsbankanum, í lögum bankans frá 1885, og heyrir hann því beinlínis undir ráðherrann, en ekki neinn embættismann, valinn til eftirlits af handahófi, sem færi í vísitatíuferðir um sveitirnar; ferðir, sem síst mundi verða meira gagn að en vísitatíum biskupsins, sem allir vita, að gera ekkert gagn. Jeg verð því enn á ný að mælast eindregið til þess við háttv. deild, að brtt. mínar verði samþyktar. Tel jeg ekki ástæðu til að svara öðru er hjer hefir sagt verið.