07.05.1923
Neðri deild: 59. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1662 í B-deild Alþingistíðinda. (1440)

151. mál, eftirlitsmaður með bönkum og sparisjóðum

Forsætisráðherra (SE):

Mjer fanst; að það kendi fullmikils trausts á stjórninni hjá háttv. 1. þm. Árn. (EE), þó að jeg ætti nú síst að lasta það. Talaði hann svo, sem henni gæti aldrei skjátlast. En þess er að gæta, að stjórnirnar skifta oft. Einn fjármálaráðherra kemur eftir annan, og þá er margt, sem þarf að setja sig inn í. Er heldur ekki hægt að krefjast þess af einum fjármálaráðherra, að hann hafi „speciella“ þekkingu á bankamálum. Ef eftirlitið með sparisjóðum á að vera í höndum stjórnanna, þá verður eftirlitið ávalt lítið sem ekkert og hætt við, að of seint yrði þá gripið inn í, þar sem óhugsandi væri, að stjórnin gæti stöðugt fylgst með sparisjóðunum.

Það er alveg rjett hjá háttv. þm. Barð. (HK), að með brtt. þessum, ef samþyktar yrðu, yrði lagður mikill kostnaður á smærri sparisjóðina, þar sem yrði oft að senda nefnd manna til að rannsaka þá, eða þá að fá meiri eða minni aðstoð á staðnum. Er þessi mikli kostnaður einn nægilegur til þess, að óráðlegt er að samþykkja brtt. Hitt, sem háttv. 1. þm. Árn. (EE) stakk upp á, að ráðherrar gætu litið eftir með sparisjóðum, er þeir færu eftirlitsferðir um landið til að líta eftir hjá sýslumönnum, það er fjarstæða. Annaðhvort yrði það eftirlit að engu gagni, eða tíminn og kostnaðurinn við það yrði feykimikill. Auk þessa er aðgætandi, að ráðherrar fara þetta oft ekki sjálfir, heldur skrifstofustjórarnir.

Skil jeg ekki, hvað þessi hv. þm. (EE) vill leggja lítið í sölurnar til þess, að eftirlitið með sparisjóðum geti orðið „effektivt“, jafnnauðsynlegt og það er. Hann undrar sig yfir því, að jeg skuli vilja stofna hjer nýtt embætti. Jeg er alls ekki á móti því, að ný embætti verði stofnuð, þar sem nauðsyn krefur, og fer það ekkert í bága við þá stefnu mína, að vilja leggja niður óþörf embætti. Verður vel að gæta þess, að mistökin hjer geta orðið dýr, þar sem um margar miljónir er að ræða.

Hann kallaði þennan mann handahófsmann. Jeg veit ekki hvaða ástæðu hann hefir til þess. Stjórnin skipar þennan embættismann sem aðra, og það val getur auðvitað tekist bæði vel og illa, en það er ástæðulaust að halda það fyrirfram, að víst sje, að það mistakist. En auðvitað er það, að alt veltur á því, að valið takist vel; og takist það illa, getur það orðið til mikils tjóns. En stjórnin mun gera alt, sem í hennar valdi stendur, til að vanda til þess.

Skal jeg svo ekki lengja umr. meira, því jeg veit, að háttv. deild er það vel ljóst, hvað gera á í þessu máli. Það mun atkvgr. sýna.