22.03.1923
Efri deild: 23. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 131 í B-deild Alþingistíðinda. (152)

13. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Guðmundur Ólafsson:

Það var einmitt það atriði í ræðu háttv. frsm. (SHK), að ekki væri tími til að ræða málið, sem kom mjer til að standa upp.

Jeg vildi láta í ljósi óánægju mína yfir því, hve Ed. er ætlaður stuttur tími til afgreiðslu málanna. Málunum er þvælt í Nd. þangað til komið er í eindaga með þau, þá á Ed. að taka við þeim og afgreiða þau í flýti og með afbrigðum frá þingsköpum, svo hvorki vinst tími til nægilegrar íhugunar nje til þess að gera þarf breytingar, sem deildarmenn kynnu að óska.

Því miður varð jeg snöggvast að bregða mjer frá, og heyrði því ekki alla ræðu hæstv. fjrh. (MagnJ). En jeg tel breytingar nefndarinnar til bóta, því mjer finst engin ástæða til þess, ef aukaútsvar er undanþegið skatti, að tekju- og eignar skatturinn sje það ekki líka. Það er að vísu leiðinlegt, að enginn veit, hverju upphæð þessi nemur nje hverjar tekjur ríkisjóðs muni verða eftir þessu frv. en sumstaðar breytir þessi frádráttarviðbót engu, því sumstaðar höfðu þessir skattar verið dregnir frá skattskyldum tekjum árið sem leið. (SHK: Því minni tekjumissir. Já, en enginn þingmaður veit þó, hve mikill hann muni verða.

Annars var óheppilegt, að svo fljótt skyldi þurfa að fara að breyta þessum lögum, áður en reynsla er fengin fyrir þeim. En það stafar af því, að þegar lögin voru afgreidd frá þinginu 1921, komst það ákvæði ófyrirsynju inn í þau, að þau fjellu úr gildi 31. des. 1923. En framkvæmd þeirra er enn svo mjög á reiki og mismunandi, sem sjá má meðal annars á því, að þessi frádráttur á útsvörum og tekju- og eignarskatti, sem nú er verið að bæta inn í lögin, var sumstaðar framkvæmdur á síðastliðnu ári. Samt mun jeg greiða atkvæði með brtt. og frv., þó jeg geri það ekki með neinni sjerlegri ánægju af framangreindum ástæðum.