09.03.1923
Efri deild: 13. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1740 í B-deild Alþingistíðinda. (1590)

11. mál, fátækralög

Frsm. (Jón Magnússon):

Jeg tek undir með hæstv. ráðherra, að það er eigi ástæða til að halda langar tölur um nud þetta. Enda býst jeg við, að hv. deildarmönnum muni það fyllilega ljóst, hvernig þeir ætla að taka í málið. Jeg skal leyfa mjer að geta þess, að jeg tel hæstv. stjórn ekki hafa tekið rjett í þetta mál, að því er snertir styrkveitinguna. Held jeg, að rjettara hefði verið að ganga lengra, eða láta við hið sama sitja að sinni.

Það er tvent, sem talið er óþægilegt við sveitarstyrkinn, en það er missir borgaralegra rjettinda og það að vera að meira eða minna leyti undir fátækrastjórnina gefinn, að því leyti, að hún hafi rjett til þess að haga styrkveitingumnn eftir sínu höfði, til dæmis að taka börn og setja þau í uppeldishæli og gamalmenni og setja þau í gamalmennahæli. Að svifta sveitarstjórnir valdi yfir þurfamönnum eða rýra það, tel jeg mjög varhugavert. Það hefir ekki verið gert neinstaðar, svo að jeg viti, að minsta kosti eigi í nágrannalöndum vorum. En jeg veit til þess, að það hefir nýlega í einu af nágrannalöndunum. Noregi, verið numið brott úr stjórnarskránni, að menn missi atkvæðisrjett sinn við slíka styrkþágu, og tel jeg það rjettari leið, án þess að segja nokkuð um. hvort það sje fært að gera hjer. En vald fátækrastjórnar yfir þurfamönnunum á að haldast. Álít jeg, að eigi sje um neitt harðræði gagnvart þurfalingum að ræða hjer á landi nú orðið, að minsta kosti hefi jeg eigi orðið var við slíkt. Norðmenn námu ákvæðið um atkvæðisrjettarmissinn úr stjórnarskrá sinni 1919, en deildar eru meiningar manna um það, hvernig sú ráðstöfun hefir gefist. Mjer finst annars, að frv. hæstv. stjórnar sje mjög óskýrt, þar eð mjer virðist hún blanda mjög saman líknarstasrfsemi og ríkishjálp. Jeg get eigi verið samdóma hæstv. ráðherra (KIJ) um samanburðinn á sjúkrahjálpinni, sem um ræðir í þessu frv., við sjúkrahúskostnaðinn, sem um getur í frv. frá 1921, því hjer er gert ráð fyrir, að sveitarfjelögin beri hann ein, en sjúkrahúskostnaðinn beri bæði ríkið og framfærslusveitin. Er það mjög í samræmi við stefnu löggjafarinnar í þessum efnum, enda tel jeg, að það geti verið mjög hættuegt að auka byrði smárra sveitarfjelaga. Annarsstaðar hefir verið reynt að stækka fátækrafjelögin, t. d. hefir þeim í Englandi verið steypt saman í hjeruðum. Voru þau upphaflega sóknir, en hefir nú verið steypt saman 4 og upp í 70–80, og jafnast þannig gjaldabyrðin miklu betur. Tel jeg eigi frágangssök, að þessi leið sje farin í máli þessu.

Tel jeg áreiðanlegt, að ef frv. þetta verður samþ., þá verður ekki hægt að nema hjer staðar; þá verður að taka ómegðina með. Jeg hygg, að stjórnarskráin mundi ekki vera því til fyrirstöðu.

Það er misskilningur, að þetta frv. sje áframhald af lögum frá 1921. Það er alt annað, og ef eigi er tekin með ómegðin alment, þá er þar með numið staðar á miðri leið.

Hvað viðvíkur styrk vegna elli, þá skal jeg geta þess, að jeg tel áreiðanlegt, að fjöldi uppgefinna manna, 65 ára að aldri, eða þar yfir, sem njóta framfærslu hjá einstökum mönnum, muni, ef frv. nær fram að ganga, sækja um styrkinn sjálfir eða framfærslumenn þeirra. Mundi það verða mikil byrði, t. d. fyrir Reykjavíkurbæ. Það hefir heyrst talað um það, að takmarka innflutning manna í kaupstaðina eða t. d. sjávarsveitir. En jeg er hræddur um, að það sje lítt framkvæmanlegt. Það átti sjer stað áður, en nú mun það hvergi eiga sjer stað.

Hæstv. ráðherra (KIJ) álítur, að það muni eigi kosta sveitarsjóð meira að útvega manni lækning en það mundi kosta hann sjálfan. Það er nú svo. Öðruvísi held jeg, að reynslan sje um kostnað af almannafje gagnvart kostnaði einstakra manna. (Atvmrh. KIJ: Ef hann á að fá bót). En þess ber þó að gæta, að lækning í heimahúsum getur oft verið tiltölulega ódýr fyrir sjúklinginn sjálfan.

Jeg tek það fram aftur, að heldur en að taka til þetta atriði þingsályktunartillögunnar, sem hjer hefi jeg sjerstaklega rætt um. mætti gera breytingu á stjórnarskránni, nema burtu ákvæðið um missi kosningarrjettar og kjörgengis, en þá ætti sá breyting að vera ein sjer, svo að hægt vari að bera hana, eina út af fyrir sig undir kjósendur. Hjer er um svo þýðingarmikið atriði fyrir þjóðfjelagið að ræða, að hlýðir ekki að gera þessa breytingu fyr en skýrt svar er fengið frá kjósendum.