03.03.1923
Neðri deild: 11. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1796 í B-deild Alþingistíðinda. (1634)

43. mál, vegir

Flm. (Þorsteinn Jónsson):

Aðalástæðurnar fyrir þessu frv. eru teknar fram í greinargerðinni, og því óþarft að fara mörgum orðum um það nú.

Það er, sem vænta má, allerfitt að gera vegalögin hjer á landi svo úr garði, að þau sjeu allskostar rjettlát, enda er ekki hægt að segja, að það hafi tekist. Það verður ekki borið á móti því, að ýmsir landshlutar hafa verið mjög miklu misrjetti beittir í þessu tilliti. Um sum hjeruð landsins liggja vegir þvert og endilangt, en önnur mega heita svo að segja vegalaus. Enginn landshluti er eins gersamlega án þjóðvega sem norðausturhluti landsins. Tvær víðáttumiklar sýslur, Norður-Múlasýsla og Norður-Þingeyjasýsla, mega heita þjóðvegalausar. Um bygðarlög þessa landshluta er enginn þjóðvegarspotti alla leið úr Reykjadal og sem póstleið liggur með bygðum alt austur á Fljótsdalshjerað. Sá hluti sýslnanna, sem þjóðvegurinn liggur um, er að mestu óbygður, og hafa þessi hjeruð harla lítið gagn af þeim öræfavegi. Er það í rauninni reglulegur fjallavegur, og að mestu sjálfgerður af náttúrunni, enda hefir lítið fje verið lagt til hans af hálfu þess opinbera. Aðgerðir koma og varla til greina, þar sem honum er svo farið. Ár eru að vísu á þessari leið, en engin stórá nema Jökulsá á Fjöllum; en ekki hefir hún til þessa verið brúuð á núverandi þjóðvegi, og mun varla verða það. Niðri í Öxarfirði hefir hún aftur á móti verið brúuð, og einmitt þar, sem flm. þessa frv. ætlast til, að þjóðvegur verði lögákveðinn. Við höfum ekki tekið fram í frv. að fjallvegurinn verði lagður niður, af þeim sökum, að ekki þarf að búast við, að fje verði lagt til viðhalds honum úr ríkissjóði að neinum mun. Og því síður til að leggja þarna nýjan veg, þar sem vegurinn er að mestu leyti sjálfgerður af náttúrunnar hálfu.

Það er að mínu áliti tæplega hægt fyrir háttv. þm. að rísa gegn þeirri sanngjörnu kröfu, sem frv. fer fram á. Þess eru engin hliðstæð dæmi hjer á landi, að svo stór og fjölbygð hjeruð sjeu með öllu þjóðvegalaus. Það opinbera hefir líka þrásinnis viðurkent þetta, með því að brúa ýmsar ár á bygðaleiðinni, að mestu leyti á kostnað ríkisins, þrátt fyrir það, þótt ekki væri þar um landssjóðsvegi að ræða. Mun það hafa verið gert til að bæta það misrjetti, sem þessi hjeruð hafa orðið hjer fyrir og sem nú virðist kominn tími til að bæta að fullu.

Að lokinni þessari umr. óska jeg, að málinu verði vísað til samgöngumálanefndar.