23.04.1923
Neðri deild: 48. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1819 í B-deild Alþingistíðinda. (1656)

43. mál, vegir

Ingólfur Bjarnarson:

Jeg vildi geta þess, að brtt. sú, sem jeg á, á þskj. 406, er flutt vegna þess, að brtt. var fram komin á þskj. 377, um að nema veginn frá Einarsstöðum að Reykjahlíð úr tölu þjóðvega. Áleit jeg sjálfsagt, að þjóðvegurinn lægi óslitinn austur í gegnum sýsluna, og fór því fram á, að vegarkaflinn frá Einarsstöðum til Húsavíkur yrði gerður að þjóðvegi. En nú hefi jeg átt tal um þetta við vegamálastjóra, og hefir hann heldur lagst á móti brtt. minni, að hún verði samþykt nú, einkum vegna þess, að vegalögin í heild muni endurskoðuð fyrir næsta þing. Með tilliti til þessa, og þar sem jeg hins vegar finn, að brtt. mín muni eiga litlum byr að fagna í hv. deild, þá vil jeg hjer með taka hana aftur.

Þá vil jeg lítillega minnast á brtt. á þskj. 378, að í stað „Reykjaheiði“ komi: Tunguheiði. Jeg vil upplýsa, að það ákvæði komst inn í frv. af athugaleysi. Póstvegurinn liggur mi yfir Tunguheiði, og þar liggur símalínan einnig yfir. Hefir vegur yfir heiðina verið ruddur fyrir fjallvegafje. En þegar kemur niður í Kelduhverfi, tekur við akfær vegur austur yfir sveitina, að brúnni á Jökulsá. Væri nú þjóðvegur ákveðinn og lagður yfir Reykjaheiði, þá lægi hann um óbygðir austur að Jökulsá, samhliða alfaraveginum. Er sjáanlega fráleitt að hafa tvöfaldan veg á þessum kafla, enda mundi Reykjahlíðarvegurinn sáralítið notaður. Vona jeg, að ekki þurfi að fara fleiri orðum um þetta, og jeg veit, að hv. þm. sjá, hvað hjer er um að ræða, og samþykkja þessa sjálfsögðu brtt., sem hjer liggur fyrir.