25.04.1923
Neðri deild: 50. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1854 í B-deild Alþingistíðinda. (1706)

23. mál, fjáraukalög 1920 og 1921

Þorsteinn Jónsson:

Hjer hefir nú við umræðu þessa máls verið haldin löng ræða af háttv. 1. þm. Skagf. (MG), sem að mestu leyti hefði átt heima í blaði því, er styður hann, heldur en hjer á Alþingi, því að hún var svar við greinum, sem komið hafa út í Tímanum. Mjer finst nú sú aðferð ærið hæpin, ef menn tækju upp þann sið að eyða tíma þingsins í að svara blaðagreinum.

Það er fjarri mjer, að jeg ætli að fara að svara nokkru af því, sem hann var að deila á ritstjóra Tímans, því að bæði mun ritstjórinn geta svarað fyrir sig sjálfur, og í öðru lagi myndi þingið verða óendanlegt, ef þingmenn ætluðu að taka allar ádeilugreinar blaðanna til rækilegrar rökræðingar. En það var aðeins eitt í ræðu hv. þm. (MG), sem jeg vildi svara, en það var þar, sem hann kom að Framsóknarflokknum í þessari deilu hans og Tímans. Hann sagði, að flokkurinn hefði á einhverjum flokksfundi í vetur deilt á blaðið fyrir þessi skrif þess. En jeg veit nú sannast að segja ekki, hvernig háttv. þm. (MG) veit það, sem gerst hefir á fundum flokksins í vetur, því að hann hefir aldrei komið á fund hjá honum. En aftur á móti ætti mjer að vera allkunnugt um fundi flokksins, því að jeg hefi verið skrifari hans. Get jeg því, að þessu gefna tilefni, upplýst það, að flokkurinn hefir aldrei haft þessa deilu þingmannsins og Tímans á dagskrá, og ekkert stendur um það í gerðabók flokksins, að á hana hafi verið minst. Og mjer er heldur ekki kunnugt um, að það hafi nokkru sinni verið gert; hefi jeg þó verið á flestum fundum flokksins. Annars finst mjer vart viðeigandi að vera að eyða tíma þingsins til þess að svara blaðagreinum. Þeim á vitanlega að svara á hinum rjetta vettvangi, sem er í blöðunum.