25.04.1923
Neðri deild: 50. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1855 í B-deild Alþingistíðinda. (1707)

23. mál, fjáraukalög 1920 og 1921

Magnús Guðmundsson:

Jeg skil vel, að háttv. 1. þm. N.-M. (ÞorstJ) vill helst, að þessum greinum Tímans sje ekki svarað. (ÞorstJ. Jú, í blöðum). Mjer hefir verið neitað um rúm í Tímanum til andsvara þessum greinum hans. En jeg hefi ekkert blað, sem sjerstaklega styður mig. Hvar ætti jeg þá að svara þeim í blöðum? En hins vegar sje jeg ekki annað en það sje rjett að ræða þau mál hjer á Alþingi, sem koma dagskránni við, og jeg veit ekki betur en nú sjeu til umræðu fjáraukalögin fyrir 1920 og 1921, og þetta mál kemur þeim beinlínis við. Vil jeg ráða þessum háttv. þm. að vera ekki að sletta sjer fram í störf hæstv. forseta. Hann mun segja til, þegar farið er út fyrir efnið. En annars skil jeg vel þessa framkomu háttv. 1. þm. N.-M. (ÞorstJ), því hann telur blað sitt hafa einkarjett til að flytja rangar frjettir út um land.

Háttv. þm. neitaði því, að árásir Tímans á mig hefðu verið á dagskrá í Framsóknarflokknum eða neitt um það bókað. Þessu hefi jeg alls ekki haldið fram. Jeg hefi aðeins sagt, að um þetta hafi verið rætt á flokksfundi, og það get jeg sannað, að er rjett. Hins vegar varðar háttv. þm. ekkert um, hvernig jeg veit þetta. Og aðrir Framsóknarmenn, sem hjer sitja, vita, að jeg fer með rjett mál. Það er mjer nóg. Um orð hv. þm. (ÞorstJ) hirði jeg ekki hið allra minsta.