03.04.1923
Efri deild: 30. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1873 í B-deild Alþingistíðinda. (1768)

9. mál, vatnalög

Frsm. (Guðmundur Guðfinnsson):

Nefndin hefir starfað mikið að þessu vatnalagafrv., sem lagt var fyrir þingið í þingbyrjun. Hún hefir gert nokkrar breytingar á því; þó hafa fáar þeirra verið efnisbreytingar, heldur mestmegnis til skýringar. Yfir höfuð aðhyllist nefndin í aðalatriðunum frv. stjórnarinnar, sem lagt var fyrir Alþingi 1921 og aftur nú fyrir þetta þing. Frv. byggist á þeim grundvelli, að vatnsrjettindin sjeu látin fylgja landinu. Því næst koma fram ýmsar takmarkanir, æðinærgöngular á því, sem nefnist eignarrjettur, og ganga þær í þá átt að takmarka vatnsrjettindi, sem fylgja einstakra manna eignum. Hefir nefndin gert nokkrar breytingar á þá leið, að færa frv. nær þeirri stefnu, enda komi fult endurgjald fyrir. Það getur komið fyrir, að þessi vatnsrjettur sje látinn af hendi handa einstökum mönnum, sbr. kaflann um áveitur. Þó að frv. hafi verið lagt fram óbreytt, hefir hæstv. landsstjórn gert tillögu til breytingar út af rjetti landeiganda gagnvart leiguliða, en það hefir nefndin ekki fallist á að öllu leyti. Það er í frv. ákvæði um, að landsdrottinn sje skyldur að kaupa öll mannvirki af leiguliða, þau er hann hefir látið gera. Nefndin hefir ekki gengið inn á það og hefir komið fram með breytingartillögu í þá átt að tryggja rjett landsdrottins. Landsstjórnin taldi rjettast, að greinin fjelli niður, en nefndin hefir aðeins viljað lagfæra hana þannig, að hvorki geti af því hlotist skaði fyrir landeiganda nje sje leiguliða gert ókleift að sinna slíkum framkvæmdum. Þá er að geta brtt. við 67. og 101. gr. Um hana sjálfa er fátt að segja frá nefndarinnar hálfu, enda gerð nánari grein fyrir henni í nefndarálitinu.

Brtt. frá nefndinni er aðallega við 8. grein, og svo sú, er jeg nefndi áðan, að vatn væri ekki tekið af einstökum mönnum, nema það yrði notað til almenningsþarfa. Viðvíkjandi 49. grein þótti rjett, að í stað orðanna „200 eðlishestöfl“ kæmu 500 eðlishestöfl. (65. gr. hefði þurft að breyta, en nefndinni hefir láðst að láta þess getið). 67. gr. hefir stjórnin viljað láta fella burt, en við höfum aðhylst þar brtt. frá meiri hluta fossanefndarinnar, og gengur hún, eins og jeg hefi sagt áður, í þá átt að tryggja rjett landsdrottins gagnvart leiguliða. Brtt. við 101. gr. fer í líka átt; stjórnin vildi fella 4. lið niður, en nefndin áleit rjettast að láta hann standa, en bæta við, að ákvæði það nái ekki til annara mannvirkja en þeirra, er metin verða jörðinni „til varanlegra bóta.“ Brtt. við 126. gr. eru teknar bæði frá minni og meiri hluta og miða að því að tryggja þeim mönnum, sem lönd eiga að veiðivatni, frekari veiðirjett þar en öðrum. Sömuleiðis þar sem menn leggja eitthvað í kostnað við klak eða annað, þá fái þeir forrjettindi nokkur og njóti ávaxtanna af starfi sínu. Það er ekki nema mjög sanngjörn krafa. Nefndin hefir felt burt öll ákvæði frv. um vatnamálastjóra, en ætlast til, að vegamálastjóri verði ráðunautur landsstjórnarinnar í þeim efnum.