19.03.1923
Efri deild: 20. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 27 í C-deild Alþingistíðinda. (1888)

63. mál, ófriðun sels í Ölfusá

Frsm. (Sigurður Jónsson):

Eftir að nefndin hefir athugað frv. það, sem hjer liggur fyrir, er hún einhuga um það að leggja það til, að frv. verði felt. Jeg ætla mjer eigi að endurtaka nál., en jeg vildi aðeins leyfa mjer í þessu sambandi að skýra nokkuð innihald heimildarlaga þeirra, sem til eru um þessi atriði, sem sje 1. nr. 24, frá 22. okt. 1912, því vera má, að sumum hv. deildarmönnum sje það eigi kunnugt. Fyrirsögn þessara laga er: Lög um samþyktir um ófriðun og eyðing sels í veiðiám. 1. gr. laganna er um það, að sýslunefndum sje heimilt að gera samþykt um ófriðun og eyðing sels úr veiðiám. 2.–4. gr. laganna er um það, hvernig samþyktir þessar þurfi að vera gerðar, til þess að þær sjeu bindandi að lögum. 5. gr. ræðir um, hvernig eyðing selsins skuli hagað og um viðurlög til selveiðieiganda, og skal jeg, með leyfi hæstv. forseta, lesa greinina upp:

„Í samþykt má ákveða um algerða eyðing eða útrýming sels úr veiðiám. Þó má eigi með neinni samþykt raska friðun eggvera, selalátra eða selalagna, nema fult gjald komi fyrir, slíkt er dómkvaddir menn meta. Gjaldi þessu jafna sýslunefndir niður á þá, er veiðirjett eiga í á þeirri eða ám, er samþyktin gildir fyrir. Sýslumenn innheimta gjaldið, og fylgir því lögtaksrjettur.

Í samþykt skal ávalt kveða á um eftirlit með því, að henni sje hlýtt, og hvernig kostnaðinn við það skuli greiða.“

Við athugun á þessari grein var nefndin einhuga um það, að hún ætti einnig við um Ölfusá, og álítur hún því nýtt frv. um þetta atriði óþarft. Enn fremur telur nefndin, að með frv. þessu sje hjeraðsnefndum varnað þess að taka sjálfar ákvarðanir um sín eigin mál, en sú meginregla hefir fengið vaxandi fylgi löggjafanna, að hjeruðin hafi mestu að ráða um sín eigin mál, innan ákveðinna takmarka. Skal jeg svo eigi orðlengja um þetta, en jeg vænti, að hv. deild fallist á niðurstöðu nefndarinnar í máli þessu.