27.02.1923
Neðri deild: 7. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 47 í C-deild Alþingistíðinda. (1918)

17. mál, afnám yfirskjalavarðarembættisins við Þjóðskjalasafn Íslands

Bjarni Jónsson:

Það var unaðslegt að hlusta á ræðu háttv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) og yfirlit hans yfir sparnaðarfrumvörp stjórnarinnar og umræðurnar um þau. Hann komst að þeirri niðurstöðu, að háværar sparnaðarraddir hefðu borist hingað utan úr sveitum, um niðurlagning embætta o. fl., jafnvel úr mínu kjördæmi. Jeg las nú nýlega fundargerð úr Dalasýslu, er fer í þveröfuga átt, og er þar krafist, að þeir fái að halda embættismönnum sínum í friði í embættum þeirra. Er það og augljóst, að þeir vilja halda menningaráhrifum þeirra innan hjeraðs. Alt sparnaðarhjal þessa þingmanns er jafnan á einn veg viturlegt, því hann greiðir venjulega atkvæði á móti öllum greiðslum, jafnt hinum nauðsynlegustu og lögskipuðu sem öðrum, nema fjárveitingu til tveggja hreppstjóra, en þeir voru líka af Austurlandi.

Þá sagði sami háttv. þm., að þessi stjórn hefði verið skipuð til þess að spara. Við munum báðir hafa verið í samvinnu til að styðja þessa stjórn, og ætti jeg því líka að hafa dálitla ástæðu til að vita eitthvað um það, til hvers stjórnin var skipuð. Þegar jeg styð einhverja stjórn eða lofa hlutleysi, hefir það jafnan verið með því skilyrði, að það yrði ekki „monomania“ hjá henni það eitt — að spara. Er það allóheppileg sýki á stjórn. Jeg hefi aldrei sagt, að stjórnin ætti ekki að spara, heldur að hún ætti að verja fje landsins viturlega.

Jeg er ekki með því marki brendur að vilja kitla eyru kjósenda minna með því að láta sífelt hljóma orðið sparnaður, sparnaður, eða það að spara hjer í þingsalnum. Sparnaður getur oft verið skaðlegur, þegar mikil umsvif eru höfð við að spara krónuna, en á öðrum sviðum er miljónum fleygt með aðgerðaleysi eða heimskulegum aðgerðum, þegar hættur utan úr heimi þröngva atvinnuvegum vorum. Það ætti fremur að vera verksvið stjórnarinnar að varðveita traust landsins og rjetta við gengi ísl. krónunnar. Um það er meira vert. Þá var það annað atriði í ræðu háttv. þm. S.-M., þar sem hann hafði það eftir mjer, að væru umrædd embætti lögð niður, yrðu hlutaðeigandi embættismenn að ómögum. Þar sleit hann orð mín úr samhengi, og veit jeg, að skrifararnir hafa tekið orð mín rjett upp, þótt hv. 1. þm. S.-M. hártogi þau, heldur klaufalega auðvitað, en þó skár en búast mátti við úr þeirri átt. Jeg hefi aldrei haldið því fram, að embættin væru til orðin fyrir mennina; en hitt er það, að jeg og þeir, sem vilja vera heiðarlegir menn í meðferð sinni á starfsmönnum landsins, litum svo á, að þegar menn eins og t. d. dr. Jón Þorkelsson skjalavörður eru búnir að vinna langt og mikið starf og slíta sjer út í embættum um 20 ára skeið, eigi ekki að kasta þeim út á gaddinn eða gera þeim þá smán að telja embætti þeirra óþörf. (Forsrh. SE: Jeg hefi alls ekki talað um að kasta þeim út á gaddinn). Jeg sagði það heldur ekki, en þó má skilja frv. þannig, er þetta er ekki trygt í texta þess.

Hæstv. mentamálaráðherra talaði um það meðal annars, að jeg væri fæddur með þeim ósköpum að bera eigi skynbragð á fjármál, og jeg hefi heldur ekki haldið sjálfum mjer fram á þeim sviðum; jeg hefi ekki sóttum bankastjóraembætti eða kept um ráðherrastöður, en jeg veit, að hæstvirtur mentamálaráðherra og þeir frændur eru fjármálamenn á sinn hátt. (Forsrh. SE: Jeg mintist ekkert á ætt). Satt er það, en hæstv. mentamálaráðherra talaði um, að jeg væri fæddur með þessum annmörkum, og það hefir maður úr ætt. (Forsrh. SE: Það er satt). Þá er rjett mælt hjá mjer, nema nú eigi að sundurgreina fæðing og ætterni, en sameina söfnin. Að öðru leyti ætla jeg ekki að fara í mannjöfnuð við hæstv. forsrh., en ætla að geyma það þar til síðar og lofa honum þá að eiga fyrri leikinn.

Jeg skal játa, að jeg hefi alt að þessu eigi skilið fyrirætlanir stjórnarinnar um þennan stakk handa þjóðinni. En nú fyrst skil jeg, hvað hæstv. forsrh. vill með allan þennan vonarpening hjer inn í þingið (sem sje umrædd stjórnarfrumvörp); mun hann ætla að vinna voð úr ullinni og sníða síðan úr voðinni og sauma þjóðinni þar framtíðar-tóskaparstakk þann, er hann talaði um. Væri því óhætt að lofa embættafækkuninni og þessum sparnaðarmálum öðrum að liggja í láginni næstu 20 árin, meðan hann situr að þessum skraddarastörfum.