05.04.1923
Neðri deild: 34. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 81 í C-deild Alþingistíðinda. (1945)

79. mál, aukauppbót vegna sérstakrar dýrtíðar

Eiríkur Einarsson:

Jeg stend ekki upp til að gera neina sjerstaka grein fyrir því, hvort jeg hallist fremur að meiri hl. eða minni hl. nefndarinnar, því jeg mun láta atkvæði mitt sýna það. En það var eitt atriði í ræðu hv. frsm. meiri hl. (JAJ), sem jeg gat ekki látið hjá líða að minnast lítið eitt á. Það er viðvíkjandi því, hvar þessi viðaukadýrtíðaruppbót eigi að koma niður. Jeg álít, að þar verði mörgum vandratað meðalhófið að ákveða þetta, svo rjettlátt verði. Háttv. meiri hl. miðar hana eingöngu við kaupstaði landsins. Kauptúnin eru eftir því útilokuð. Með þessu álít jeg, að framið yrði misrjetti. Því víst er það, að margur embættismaður í kauptúni á ekki glæsilegri kjörum að fagna en í sumum kaupstöðunum. Þar er oft svo mjótt á milli, að ekkert vit væri að miða uppbótina við þetta. Jeg tek til dæmis embættismenn á Seyðisfirði og Eskifirði. Hvaða vit væri í að gera svo upp á milli þeirra? Það er og vafamál, hvort nokkuð er dýrara að lifa á Akureyri en á Sauðárkróki og Blönduósi. Og ótal fleiri dæmi mætti nefna.

Jeg vildi aðeins vekja athygli háttv. deildar á þessu, svo að hún, ef hún hefir í hyggju að samþykkja frv., sjái, hvað hún er að gera. Það er ekki með þessu sagt, að jeg greiði atkv. með frv., en jeg vil aðeins geta þess, að jeg myndi síður gera það, ef þessari markalínu væri haldið.