23.03.1923
Efri deild: 25. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 108 í C-deild Alþingistíðinda. (1973)

36. mál, húsaleiga í kaupstöðum landsins

Frsm. (Jón Magnússon):

Jeg sje ekki ástæðu til þess að bæta neinu verulegu við nál. Hv. deildarmenn sjá, að nefndin hefur talið rjett, að bæjarstjórnin skipi þessu máli, svo sem öðrum málum bæjarins. Það mætti reyndar segja, að bæjarstjórnin sje sein á sjer til að gera það, sem henni var heimilað með lögunum frá 1921, en það mun vera sumpart vegna þess, að ekki hafa komið sjerlegar umkvartanir um húsaleigu til hennar, og svo hitt, að menn eiga erfitt með að koma sjer saman. En jeg hygg, að þess verði ekki langt að bíða, að samin verði reglugerð. Það er aðallega vegna þessa, að nefndin fann ekki ástæðu til að setja frekari lög um þetta efni. Um efni frv. skal jeg ekki mikið ræða, af því að jeg býst við, að hv. deild fallist á tillögur nefndarinnar. Jeg get þó nefnt það, að mjer finst ekki óeðlilegt, þótt mönnum detti í hug að setja hámarkshundraðstölu um húsaleiguna. En það er vandkvæðum bundið, meðan verðlag á húsum er svo breytilegt, sem nú hefir verið. Því er nú svo háttað með húsamálið, að fasteignamatsnefndin hefir miðað við, hvað kostaði að byggja hús fyrir 1914, og bætt svo 50% þar við. En eftir því, sem þingnefndinni hefir verið skýrt frá, er það líklegt, að hús, sem hafa verið bygð í fyrra og nú, muni kosta um 40% yfir verðlag fasteignamatsnefndar. Nú er það hjer um bil víst, að kostnaður við húsbyggingar er meiri í ár en í fyrra, því að járn og viður hafa stigið og líkur til að sú verðhækkun geti haldist nokkuð lengi. Þá er það auðsætt, ef hinu fylsta rjettlæti á að ná, að sama hundraðstalan getur ekki átt við alstaðar. Það er ekki rjett að hafa hana eins á húsum, sem bygð eru fyrir stríð, og þeim, sem nú eru bygð. Ef hundraðstalan er sett svo há, að þeir sleppi, sem nú hafa bygt, þá fara eigendur gömlu húsanna eins hátt, en margir leigja nú undir því hámarki, sem frv. setur. Jeg veit, að það hefir komið til orða í bæjarstjórninni, hvort ekki mundi fært að ákveða meðalhámark; hafa það lægra í hinum eldri húsum, en hærra í þeim nýju, og láta eldri húsin bæta upp hinum nýrri. En líklega er þetta óframkvæmanlegt. Ef niðurstaðan á að verða sanngjörn, þá dugir ekkert nema mat. Það er hæpið, hvernig mál þetta fer í bæjarstjórninni, en nefndin hefir ástæðu til að ætla, að skyldumat verði þar ofan á, en það álítur nefndin heppilegast.

Jeg skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta. Nefndin hefir farið með þetta mál sem önnur mál viðvíkjandi kaupstöðum; talið þá eiga að ráða mestu um sin eigin mál.