12.03.1923
Neðri deild: 18. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 133 í C-deild Alþingistíðinda. (1993)

19. mál, vitabyggingar

Jón Sigurðsson:

Jeg vildi aðeins skjóta hjer inn í örfáum orðum, áður en mál þetta fer til 3. umr., og þó ekki til þess að mótmæla frv., heldur til hins, að benda á eitt atriði, sem mjer virðist verulega varhugavert, og háttv. nefnd ætti að taka til nánari yfirvegunar. Með frumvarpi þessu er haldið áfram á þeirri braut, sem lagt var út á, þegar brúarlögin og að nokkru leyti símalögin voru samþykt, en það er vægast sagt varhugaverð braut. Þingið er í raun og veru að draga úr höndum sjer fjárveitingavaldið á þessum sviðum og afhenda það stjórninni og aðstoðarmönnum hennar. Það kemur sannarlega úr hörðustu átt, að þingið geri sig þannig ómyndugt, eða fari með sjálft sig sem óvita. Jeg er með þessu ekki að amast við því út af fyrir sig, að stjórnin eða sjerfróðir ráðunautar hennar ráði því, í hvaða röð vitarnir eru bygðir — á því hafa þeir betur Vit — en jeg held fast við það, að þingið eigi að ráða því, hve miklu fje skuli árlega varið til vitabygginga, eins og annara framkvæmda yfirleitt. Ef þingið getur ekki haft hönd í bagga með þessu, getur vel farið svo, að miklum mun meira fje verði varið til vitabygginga en heppilegt væri á næstu árum. Jeg vik þessu til háttv. samgöngumálanefndar til athugunar, og vona, að hún geti gengið inn á þetta, en að öðru leyti skal jeg ekki fara út í einstök atriði málsins.