04.04.1923
Efri deild: 31. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 152 í C-deild Alþingistíðinda. (2031)

73. mál, bifreiðaskattur

Frsm. (Guðmundur Ólafsson):

Hv. 5. landsk. (JJ) hjelt, að við hefðum ekki skilið brtt. Það er ekki rjett. Mjer eru þær fyllilega ljósar. 2. liður felur í sjer aðalbreytinguna. Hann hljóðar svo:

„Af mannflutningabifreiðum, sem selja hvert einstakt sæti tíu aura eða minna fyrir hvern km., greiðist 4 kr. fyrir hestorkuna.“

Fjhn. skildi síður, hvernig eftirlitið ætti að verða, fyrir utan það, að hún taldi skattinn ekki of háan.

Hann talar um, að veittur sje styrkur bátafjelögum, en skattur lagður á bifreiðar. Það hefir nú heyrst fyr. Það verður önnur útkoma með bátaferðirnar; fjelögin flosna upp, þau geta ekki borið sig án styrks. Það er öðru máli að gegna með bifreiðar; þær bera sig með skatti.

Fyrir fólk, sem á langt í kaupstað, er orðið miklu ódýrara að ferðast í bifreiðum en á hestum. Svo er víðar langt í kaupstað en á Suðurlandi, og þar verða menn að ferðast á hestum og flytja alt á hestum. Hjer flytja bifreiðar þungavöru svo ódýrt, að mönnum finst ekki tilvinnandi að nota sína eigin hesta. Jeg vona, að hv. 2. þm. Rang. (GGuðf) verði ekki ilt í höfði út af þessu, þótt hann hristi það, en þetta er satt. Hvað snertir þau fyrirheit, sem þessir tveir háttv. þm. vildu fá hjá deildinni, um styrk síðarmeir til bifreiðaferða, þá ætla jeg ekkert að blanda mjer í það að þessu sinni.