28.04.1923
Efri deild: 50. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 220 í C-deild Alþingistíðinda. (2089)

102. mál, bankaráð Íslands

Frsm. minni hl. (Björn Kristjánsson):

Það má segja hið sama um þessa ræðu hv. 5. landsk. þm. (JJ) og aðrar ræður hans hjer í deildinni, að höfuðið er stærst á hverjum hrút. Hann er svo fjölorður, kemur svo víða við og margendurtekur sömu atriðin, að ómögulegt er að fylgjast með efninu, þó að hann komi ef til vill að því endrum og eins. Jeg hefi nú skrifað aðalpunktana í þessari ræðu hans, sem jeg þurfti að svara, en jeg rek mig margstaðar á sömu atriðin, sem eðlilegt er, þar sem þessum háttv. þm. (JJ) hættir svo mjög til að vaða reyk. Þó að jeg nú leitist við að svara helstu atriðunum í stuttu máli, eins og minn er vandi, þá get jeg auðvitað ekki elt alt, sem hann sagði.

Hann sagði það mikilsvert mál að skapa eftirlit með bönkunum. Þetta viðurkennir minni hl. líka og bendir á hina einu tryggu leið, eftir því pólitíska- og fjárhagsþroskaástandi, sem er hjer á landi. Það er því langt frá, að við sjeum ánægðir með ástandið eins og það nú er, eins og þessi hv. þm. (JJ) gaf í skyn.

Hann kveðst bera fram þetta frv. vegna óánægju þeirrar, sem ríki með þjóðinni viðvíkjandi bankamálum. Hví fjekk hann þá ekki einhvern, sem vit hafði á málinu, til að hjálpa sjer við að semja frv.? Það lá beint við, ef honum hefir verið alvara að bæta ástandið. Hann segir enn fremur, að bankaráð Íslandsbanka hafi gert ógagn, eitt. Hvers vegna vill hann þá stofna nýtt bankaráð með svipuðu formi, en sem er aðeins miklu ólíklegra til að verða að nokkru gagni, og það því fremur, sem því er ekki ætlað að framkvæma neina „kritiska“ endurskoðun? Ef hann læsi um fyrirkomulag bankaráða erlendis, t. d. í Frakklandi, gæti hann sjeð, að þar er aðaláherslan lögð á „kritiska“ endurskoðun. Svo mikil áhersla, að sami maður hefir hana ekki á hendi nema hálfan mánuð í senn, og tekur þá nýr við. Þannig skiftast bankaráðsstörfin á víxl milli manna. Gæti jeg lánað honum bók til uppfræðslu í þessu efni, ef hann kærir sig um.

Sami hv. þm. (JJ) sagði, að sparisjóðir hjer á landi væru eftirlitslausir. Það kann rjett að vera, en þó er til þess ætlast í lögum frá 1915, að stjórnin hafi eftirlit með þeim. Er ekki sök löggjafans, heldur stjórnarinnar, ef þessu hefir ekki verið hlýtt. Og nú hefir Sparisjóður Árnessýslu snúið sjer til stjórnarinnar og beðið um opinbera endurskoðun. Annars mun hv. þm. (JJ) hafa málað ástand hans nokkuð svart á vegginn. Jeg ímynda mjer, að sá sparisjóður eigi vel fyrir skuldum, og þó að hann geti ekki keypt sparisjóðsbækur sínar, þá sannar það ekkert ástand hans, nema að því leyti, að hann er sjóðlaus, sem ekki er undarlegt um stofnun, sem ekki hefir tiltrú lengur. Hin venjulega velvild þessa hv. þm. (JJ) í garð Íslandsbanka kom í ljós í þessu sambandi, þegar hann gat sjer þess til, að sparisjóður þessi hefði ekki hlotið mikla blessun af sambandi sínu við bankann. Það er þessi sami, sífeldi rógur um stofnun þessa, sem þó helmingur þjóðarinnar lifir á. (JJ: Skyldi bankinn ekki heldur lifa á þjóðinni?).

Hv. 5. landsk. þm. (JJ) vildi bera af sjer, að frv. þetta væri sniðið eftir ráðstjórnarfyrirkomulagi kommúnista og að hann væri kommúnisti, og taldi mig ófróðan um Rússland nú á dögum. Það má vel vera, að hann sje þar fróðari, enda stendur það honum nær, en samt sem áður fæ jeg ekki betur sjeð en að þetta sje rjett hjá mjer, enda munu flestir líta svo á, er þeir kryfja frv. þetta til mergjar.

Þá hefir þessi sami hv. þm. (JJ) það eftir Clausen bankastjóra, að hann teldi þörf á nýju bankaráði í Íslandsbanka. Jeg skal ekki dæma um, hvað hann hefir sagt í þessu efni, en hvergi hefi jeg sjeð þeirra ummæla getið.

Jeg kem þá enn að því, hvernig bankaráð það, sem frv. gerir ráð fyrir, yrði skipað, ef til kæmi. Hv. 5. landsk. þm. (JJ) vildi bera brigður á, að til mála gæti komið, að þar yrðu kommúnistar í meiri hluta. Eins og sakir standa nú, er S. í. S. undir yfirstjórn eða að minsta kosti mjög sterkum áhrifum eins höfuðkommúnistans hjer á landi, hv. 5. landsk. þm. (JJ). Þar sjáum við fyrsta kommúnistann í hinu nýja bankaráði. Verkamenn senda án efa annan. Þeirra leiðtogar eru eins og kunnugt er kommúnistar. Þá er á allra vitorði, að hv. 5 landsk. þm. (JJ) hefir meira en litil áhrif innan Búnaðarfjelags Íslands, enda mun forseti þess verða frambjóðandi fyrir S. í. S. næsta haust. Þaðan kemur því eflaust þriðji maðurinn, og er meiri hlutinn þá trygður. Og þó að svo „slysalega“ tækist til, að fjármálaráðherrann væri ekki kommúnisti, þá verða þeir samt í meiri hluta. Að vísu eiga kaupmenn að eiga einn fulltrúa í þessu nýja bankaráði, en það er aðeins blekking, til að látast hugsa jafnt um allar stjettir. En því eiga sjómenn eða útgerðarmenn ekki að fá fulltrúa? Það er einkennilegt, að hv. flm. (JJ) virðist gleyma því, að þeir eiga stofnun, sem heitir Fiskifjelag Íslands. Hvernig stendur á því? Jú, hann veit, að formaður þess er enginn kommúnisti og að áhrifa þeirra gætir þar lítið. Þess vegna gengur hann fram hjá því. Og til hvers? Til þess að tryggja kommúnistum meiri hluta í bankaráðinu.

Þannig er sagan rjett sögð, og er eigi til neins að draga fjöður yfir þetta, enda hefir hv. flm. (JJ) ekki mótmælt því, að hann væri kommúnisti, og hefi jeg þó beint haldið því fram á prenti. (JJ: Það er ekki til umræðu). Þm. (JJ) hefir nú ekki altaf haldið sjer fast við það, sem hefir verið til umræðu, en hins vegar hefi jeg í fyrri ræðu minni sagt, að hann væri kommúnisti, og stendur það ómótmælt enn, þrátt fyrir hina löngu ræðu hv. þm. (JJ) og allar endurtekningarnar.

Þá sagði hv. 5. landsk. þm. (JJ), og kom það nú reyndar ekki beinlínis málinu við, fremur en ýmislegt annað í ræðu hans, að vegna þess að jeg hefði hæstu laun, gæti jeg ekki skilið, að menn ynnu fyrir ekki neitt. Þessi hv. þm. (JJ) getur engan veginn skilið, að eftirlaun mín eru í raun og veru partur af þeim launum, sem mjer bar meðan jeg var bankastjóri, en alls enginn sveitarstyrkur. Jeg vann sem bankastjóri í 9 ár og hafði 6 þús. kr. árslaun, eða lægstu bankastjóralaun, sem þekst hafa, án allrar dýrtíðaruppbótar. En undir eins og jeg var farinn voru launin hækkuð upp í 11000 kr. og nú í 24000 kr. Þó voru bankastjórarnir þá aðeins tveir, í stað þriggja, sem nú eru. Enn fremur ber þess að gæta, að nú mun veðdeildin að mestu lokuð, og er starf þessara þriggja bankastjóra þar af leiðandi alt að helmingi minna en okkar tveggja var. Og þó fór jeg aldrei fram á launahækkun. En nú mun í ráði að hækka laun bankastjóranna að miklum mun, og mun hv. 5. landsk. þm. (JJ) vera því fylgjandi. Annars veit þessi hv. þm. (JJ) vel, hvers vegna jeg fór frá bankanum. Það var hann sjálfur og hin „göfuga“ „klikka“ hans, sem olli því. Annars væri jeg bankastjóri enn.

Þá talaði sami hv. þm. (JJ) um skiftingu veltufjár milli atvinnuveganna og vildi halda, að því bæri að skifta jafnt milli landbúnaðar og sjávarútvegs. En þetta er vitanlega hinn mesti misskilningur. Ef landbúnaðurinn ætti að fá helming veltufjárins, gæti hann enga bankahæfa tryggingu sett fyrir svo hárri upphæð. Enda gegnir alt öðru máli með landbúnað og sjávarútveg. Landbúnaðurinn vinnur svo mjög með sínu eigin veltufje. Jörðin sjálf og bústofn er aðalveltufje hans. Aftur á móti þarf sjávarútvegurinn botnvörpunga, mótorbáta o. s. frv., og auk þess mjög dýr veiðarfæri og útbúnað allan. Þetta er mikli munurinn. Auk þess lifir landbúnaðurinn að miklu leyti af eigin framleiðslu. Sjávarútvegurinn þarf að kaupa alt dýrum dómum. En útflutningur landbúnaðarins nemur líka ekki nema 4 milj., þegar sjávarafurðir eru fluttar út fyrir 36 milj. kr. þegar nú hv. 5 landsk. þm. (JJ) heldur að skifta beri veltufje jafnt milli þessara atvinnuvega, þá gefur hann þar með til kynna, að hann þekkir ekki einu sinni upphaf stafrofs viðskiftalífsins.

Að lokum talaði þessi hv. þm. (JJ) á móti frv. um bankaeftirlitsmann, sem reyndar er þó ekki komið fram. Það má segja, að það sjeu orð í tíma töluð, að tala á móti því, sem maður veit lítið sem ekkert um. Jeg hafði reyndar ekki hugsað mjer að svara fyrir hæstv. stjórn í þessu efni, en það vil jeg taka fram, að rjett stefna er að koma öllu bankaeftirliti út úr hinu pólitíska þvargi og í hendur manns, sem ekki er háður neinum pólitískum flokki. Það er einmitt þetta, sem minni hl. nefndarinnar leggur aðaláhersluna á.

Þó að hv. 5. landsk. þm. (JJ) tali nú til kvölds, geri jeg ekki ráð fyrir að eiga frekari orðastað við hann út af þessu máli, en jeg vænti þess, að hann gefi ákveðnar og vafningalausar upplýsingar um, hvort hann er kommúnisti eða ekki, því að í síðustu ræðu sinni fór hann mjög í kringum þessa spurningu.