04.04.1923
Neðri deild: 33. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 345 í C-deild Alþingistíðinda. (2191)

30. mál, stjórnarskipunarlög

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Jeg ætla að byrja á því að svara hæstv. forsrh. (SE). Raunar hefir lítið komið nýtt frá honum síðan við 1. umr. þessa máls, en þó hefir hann nú nokkuð harðnað í mótstöðunni.

Hann sagði, að þegar stjskr. hefði verið sett, mundi enginn hafa hugsað til svona snöggra breytinga á henni. Má vel vera, að þetta sje rjett, en það er algengt, að lög eru sett, sem álitið er að lengi muni standa, en svo breytast ástæður og um leið þykir rjett, að lögunum sje breytt. Þetta er því engin ástæða móti breytingunni. Ef þessi ástæða gilti, væri afleiðingin sú, sem líka hæstv. forsrh. virðist helst hallast að, að engu beri að breyta nema því, sem staðið hefir lengi og reynst hefir gott og gilt.

Hann sagði, að spádómur sinn hefði ræst um það, að fleiri mundu á eftir koma með breytingar. Það er rjett. En mig undrar ekki þótt einhverjir stuðningsmenn hans hafi orðið til þess, annaðhvort tilkvaddir eða ótilkvaddir, að koma fram með breytingar honum til geðs og til að reyna að ónýta málið.

Þá heldur hann, að alt fari í bál og brand hjá þjóðinni, ef breytingar eru gerðar, en jeg þykist vita með vissu, að hún er ekki mótfallin mínum brtt.

Hann sagði, að þetta frv., eða frv., sem gengju í þá átt, ættu að vera undirbúin af stjórninni. Getur verið, en þegar stjórnin vill ekki koma með þau, hver getur þá skipað henni það? Annars sýnist mjer, að stjfrv. fái ekki svo góða meðferð á þinginu, að það geti talist nein meðmæli með neinu frv., að það er stjfrv., eða það sje líklegra til lífs fyrir það.

Þá taldi hann ófært að fækka ráðherrum, sökum þess, að ef einn ráðherra væri aðeins, þá yrði hann oft að fara utan og þá væri landið ráðherralaust. Þessi hæstv. ráðherra hefir áður verið einn ráðherra yfir landinu og var þá utan, og skeðu þó engin undur eða óhöpp mjer vitanlega við það.

Þá taldi hann, að ekki mundi minni þörf þriggja ráðherra en þriggja bankastjóra við hvern banka. Þessi þörf er alls ekki sambærileg, því að starfsskiftingin er alt önnur. Í bönkunum geta engir lánað nema bankastjórnin, allir verða að tala við þá, en í stjórnarráðinu er flest afgreitt með brjefaskriftum af starfsmönnunum. En jeg skal viðurkenna, að jeg álít bankastjórana óþarflega marga. Þá sagði hann, að ekki þýddi að ákveða um það, að þing skyldi haldið annaðhvert ár, það yrði alt að einu haldið árlega. En móti hverju er hann þá að berjast? En sannleikurinn er, að mótstöðumenn frv. álíta þetta ekki, og því eru þeir auðvitað á móti því. Hygg jeg, að það yrði undantekning, ef aukaþing yrði haldið. Það sannar ekkert, þótt svo væri hjer á stríðsárunum, því að þá voru sjerástæður fyrir hendi, en engin líkindi eru til, að þær verði framvegis.

Þá vildi hann gera mikið úr þeirri tryggingu, sem árlegt þing veitti. Jeg hefi lítið orðið þeirrar tryggingar var. Álít jeg, að yfirleitt sje fjárhagnum engu betur borgið með því, því að yfirleitt fara stjórnir sæmilega með fje landsins, og engu ver en þingin.

Hv. 4. þm. Reykv. (MJ) hefi jeg fáu að svara. Er jeg sannfærður um, að þótt gagngerð endurskoðun færi fram á stjórnarskránni, þá yrði hans breyting aldrei tekin til greina. Er annars dálítið undarlegt, að hann skuli koma fram með brtt. við frv., sem hann vill að falli, en auðvitað getur hann rjettlætt það með því, að verið gæti, að brtt. hans gæti flotið með, ef hinar yrðu samþyktar.

Þá kem jeg að hv. þm. A.-Sk. (ÞorlJ). Okkur skilur á um ráðherrafækkunina. Hann telur það engan sparnað. Jeg hefi viðurkent, að hjer sje ekki um mikinn sparnað að ræða, en þó sparast hjer 10 þús. kr. á ári. Hefir oft verið lotið að lægra. Þá taldi hann sig mótfallinn því, að landritaraembættið yrði aftur stofnað, því að hann væri óábyrgur fyrir stjórnarframkvæmdina. Jeg hefi nú ekki lagt til, að það yrði stofnað, heldur hefi jeg hugsað, að ef brtt. í 1. –4. gr. frv. yrðu samþ., þá yrði ákveðið að skipa því með sjerstökum lögum, hvernig fara skyldi með stjórn landsins, ef ráðherra dæi eða forfallaðist á annan hátt. Annars veit jeg ekki betur en að landritaraembættið hafi gefist vel, og nú er sá maður, sem gegndi því, orðinn ráðherra og valinn af þeim flokki, sem þessi hv. þm. tilheyrir, svo það er dálítið undarlegt, að hann skuli leggjast á móti því. Sje jeg ekki, að vandamál stjórnarinnar sjeu meiri nú en áður; störfin aukast ef til vill nokkuð, en þeim er svo varið, að aðrir en ráðherrar geta gegnt þeim. Annars eru þessir gömlu dagar, sem háttv. þm. var að tala um, ekki svo gamlir. Breytingin er frá 1917, og hefi jeg ekki sjeð, að stórkostleg breyting til batnaðar hafi síðan orðið.

Þá kom hann með þá mótbáru, að það væri erfitt fyrir einn ráðherra að vinna að lagasmíði. Það er rjett, en ráðherrar gera það alment ekki. Minnist jeg þess, að mörg merkileg og vandlega samin lög eru frá 1905 og 1907. Voru þau lög, að því er jeg hygg, samin af mönnum í stjórnarráðinu, undir eftirliti ráðherra, og svo mundi enn geta orðið. Þess er og að gæta, að ef þing er ekki haldið nema annaðhvert ár, þá sparast ráðherranum tími til löggjafarstarfa.

Þá taldi hann vandkvæði á því fyrir 1 ráðherra að standa fyrir málum sínum á þingi, svara fyrirspurnum o. s. frv. En ekki bar á því fyr, að þetta ylli sjerstökum erfiðleikum.

Þá sný jeg mjer að háttv. þm. Str. (MP). Hann sagðist ekki hafa átt von á því, að málið yrði tekið á dagskrá í dag. Þetta þykir mjer undarlegt, því að jeg leyfði, að það yrði tekið af dagskrá í gær, með því skilyrði, að það kæmi á dagskrá í dag. Jeg hefi heyrt því fleygt, að þessar brtt. hv. þm. væru bornar fram í þeim tilgangi að eyðileggja frv., og jeg get sagt það hreinskilnislega, að mjer er ekki fjarri að trúa því, að svo sje. Mjer virtist í nefndinni, að hann vildi losna við breytingar á stjskr. á þessu þingi; þó skildist mjer, að hann væri ekki mótfallinn fækkun ráðherra, ef þing yrði haldið árlega.

Hann sagði, að hann hefði ekki fengið nefndina til að hlusta á ástæður sínar fyrir brtt. Þetta er ekki rjett; hann hafði sjálfur ekki tíma til að koma á fundina, vegna einhverra annara starfa. En hitt er satt, að nefndin hafði athugað stjórnarskr. gaumgæfilega og komist að þeirri niðurstöðu, að fleiri brtt. væru ekki heppilegar, og því engin ástæða fyrir nefndina að bíða eftir hv. þm.

Hann sagði, að aðrar þjóðir vildu ekki breyta stjórnarskrám sínum, nema að undangengnum byltingum. Við höfum ekki haft þann sið, og þótt jeg beri virðingu fyrir stjórnarskr., þá tel jeg hana ekki svo helgan hlut, að ekki megi breyta henni, ef ástæða er til. Hún er þó ekki annað en verk sjálfra vor, og hafi okkur mistekist, sýnist sjálfsagt að laga misfellurnar. Virtist líka, að hann gerði ekki sjálfur stjórnarskr. hærra undir höfði, þar sem hann líkti breytingum á henni við breytingar á hundaskatti o. fl.

Jeg veit ekki, hvað hv. þm. (MP) hefir viljað sanna með samanburði sínum á þingmannafjölda hjer og annarsstaðar, því að ef hann hefir viljað hafa þingmannatöluna þá sömu hjer og annarsstaðar, borið saman við fólksfjölda, ættu þeir að vera 2 hjer á landi. Það má vel vera, að þm. megi fækka, en það tekur sinn tíma, en þessa breytingu mína vil jeg strax fá, svo að spámaðurinn komi þegar.

En það get jeg sagt hv. þm. (MP), að jeg er alveg mótfallinn því, að Alþingi verði ein málstofa; álít jeg óhætt, að við förum að dæmi frændþjóða vorra á Norðurlöndum, um að hafa tvær málstofur. Hversu lengi sem hv. þm. Str. (MP) teldi um fyrir mjer um það atriði, gæti hann ekki sannfært mig um ágæti þess. Jeg hefi oft rekið mig á, að betra er, að málin hljóti meðferð í tveimur deildum; þá leiðrjettist oft smámistök og misskilningur.

Mjer sýnist ekki, að till. hans um 4 umræður í hverju máli komi þar að gagni, eða tryggi góða málsmeðferð.

Annars skal jeg geta þess, út af því, er hann áleit þessu máli flýtt óhóflega mikið, að málinu verður að hraða, eigi það að geta gengið fram, vegna þess, að ekki má gera ráð fyrir, að þingið standi lengur en til maíbyrjunar, og málið er ekki komið lengra en til 2. umr. hjer í deildinni. Tíminn er því ekki of mikill; það hlýtur hann að sjá.

Hv. þm. sagði, að það væri hringlandaháttur úr þingmönnum að vilja nú fækka þingum, gagnstætt því, sem þeir hefðu samþ. 1919, og skildi ekki, hvernig þeir færu að rjettlæta það. (MP: Jeg sagði meira). Þetta var aðalinntakið. (MP: Nei). Jú. Annars er það ekki nema rjett, að menn kannist við skoðanaskifti sín í þessu efni, og fæ jeg ekki skilið, hvers vegna þeir mega ekki segja sannleikann. Breyttar ástæður hafa valdið þeirri skoðanabreytingu; svo verður það ávalt og hefir verið. En þetta snertir mig ekki, því að jeg hefi frá byrjun verið á móti þinghaldi á hverju ári, eins og jeg er enn. Annars skilur okkur ekki mikið á um fækkun þinga. Jeg vil, að það standi í stjórnarskránni, að þing skuli háð annaðhvert ár, en því megi breyta með lögum. Hann vill, að þar standi, að þing skuli haldið hvert ár, en því megi breyta með lögum. Þetta er ekki mikill munur, og jeg skal ekki gera úr þessu verulegan ágreining, en hins vegar tek jeg það fram, að verði skoðun hv. þm. Str. (MP) ofan á, mun jeg á næsta þingi, ef jeg á þar sæti, koma með frv. um, að þing skuli aðeins haldið annaðhvert ár.