23.04.1923
Neðri deild: 48. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 431 í C-deild Alþingistíðinda. (2214)

30. mál, stjórnarskipunarlög

Magnús Kristjánsson:

Það eru ekki nema örfá orð, sem jeg þarf að bæta við það, sem jeg hefi áður sagt, einkum vegna þess, að jeg býst við að engum hjer í háttv. deild komi á óvart, að jeg greiði atkv. á móti þessu máli. Mjer sagði svo hugur um frá öndverðu, að þetta mál myndi ekki vera nægilega undirbúið til þess að vera borið hjer fram, enda er það nú komið á daginn. Sýna þetta best brtt, sem drífa nú að á síðustu stundu. Á annað eins og það ekki að eiga sjer stað í slíku máli, sem hjer er um að ræða. Var það í rauninni sýnilegt í upphafi, hvernig fara myndi með málið hjer í háttv. deild, er nefndin, sem um það fjallaði, var svo margklofin.

Það er augljóst, að hvað sem yrði nú ofan á, þá myndu eins margir, eða fleiri, af háttv. þm. verða óánægðir með úrslitin eins og hinir, sem ánægðir yrðu.

Jeg vil ekki tefja tímann með því að fara neitt út í einstök atriði. Jeg get þó ekki komist hjá að taka það enn fram, að jeg efast stórlega um, að sparnaðurinn við ráðherrafækkun yrði nokkur. Jeg lít svo á, að 2 menn hafi frá upphafi þurft til þess að hafa stjórnina á hendi, nefnilega ráðherra og landritara. En eins og háttv. þm. ætti að vera öllum kunnugt, hafa störfin í stjórnarráðinu aukist svo síðustu 20 árin, að ómögulegt er að einn maður gæti annað þeim, og tæplega þótt 2 væru. Þykir mjer það og óviðfeldið, er ráðherrann yrði erlendis, að hafa ekki aðra stjórn en skrifstofustjórana í stjórnarráðinu. Kalla jeg það litla stjórn í landi, þótt ábyrgðarlausir menn færu með völdin. Það er því alveg bert, ef þessi breyting næði fram að ganga, að það væri ekki einasta að því stefnt að draga valdið í hendur þess eina manns, heldur og um lengri eða skemri tíma á ári hverju í hendur aðstoðarmanna hans í stjórnarráðinu. Þetta get jeg með engu móti felt mig við. Jeg hefði getað fallist á, að upp hefði verið tekið til reynslu að hafa þing aðeins annaðhvert ár. Auðvitað býst jeg við, að sparnaðurinn við það hefði orði lítill, en hins vegar óþægindi talsverð, sem myndu leiða af því. En þessu mætti þó síðar breyta með einföldum lögum. Annars finst mjer það óviðfeldið, að mikið sje af ákvæðum í stjórnarskránni, sem hægt sje að hringla með og breyta frá ári til árs. Þegar menn hafa í hyggju að gera breytingar á stjórnarskránni, þá verða þær að vera svo undirbúnar áður en til þings kemur, að menn verði svo að segja einróma samtaka um breytingamar, svo að ekki þurfi að óttast, að tillögur til breytinga komi fram á hverju þingi.

Af því nú að greinilega er komið fram, að málið hafi verið of illa undirbúið, er ekkert annað við það að gera en að fella það. Því að láta það fara til háttv. Ed. með þessum göllum, sem nú eru á því, gæti varla talist sæmandi fyrir þessa háttv. deild. Slíkt gæti fremur gengið, er um smámál er að ræða, en ekki með nokkru móti, þegar það er stjórnarskráin, sem breyta skal. Hver er líka tryggingin fyrir því, að frv. yrði lagað í hv. Ed.? Fyrst tel jeg óvíst, að þar sjeu meiri spekingar en í þessari háttv. deild, og auk þess hafa þeir nú helst til lítinn tíma til að starfa að málinu, þar sem svo er áliðið þings.

Af þessum ástæðum öllum mun jeg greiða atkv. á móti málinu.