28.04.1923
Neðri deild: 52. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 515 í C-deild Alþingistíðinda. (2239)

88. mál, menntaskóli Norður og Austurlands

Jón Auðunn Jónsson:

Jeg vil segja það, út af þeim orðum háttv. flm. þessa frv. (ÞorstJ), að þeir, sem á móti því væru, gerðu það af því, að þeir vildu lögfesta einokun Reykvíkinga til náms við lærða skólann, að þetta er allharður dómur, ef hann væri sannur. En sem betur fer er hann á engum rökum bygður.

Háttv. flm. segist hafa borið þetta frv. fram í þeim lofsverða tilgangi að ljetta fátækum efnilegum námsmönnum námið, en jeg held, að honum hafi samt fatast allmikið í því.

Þó að hann með þessu móti geri mönnum á Akureyri og að litlu leyti í Eyjafirði, Þingeyjarsýslum og Skagafirði, ljettara fyrir, er sá skaði, sem hann myndi baka öðrum sýslum á landinu með þessu, margfalt meiri en hagnaður þessara þriggja sýslna. Því ef stofnaður yrði þessi lærði skóli á Akureyri, er engin von til þess, að komið verði upp heimavistarskóla í Reykjavík. Kostnaðurinn við þennan alóþarfa Akureyrarskóla væri fje, sem að mestu væri kastað á glæ, eins og sýnt hefir verið af andstæðingum frv. Ef hann vill koma þessari hugsjón sinni í framkvæmd — að hjálpa efnalitlum námsmönnum — þá á hann að styðja að því með mjer og öðrum góðum mönnum að koma sem fyrst upp heimavistarskóla í Reykjavík og leggja fje til styrktar fátækum utanbæjarpiltum, sem nám stunda þar.

Þegar háttv. flm. (ÞorstJ) ber saman námskostnað á Akureyri og í Reykjavík, gerir hann ekki ráð fyrir heimavistarskóla í Reykjavík, og ekki heldur tekur hann tillit til þess, að fyrir hvern latínuskólanema á Akureyri verður að reka á brott einn gagnfræðanema þar. Það er að vísu eitthvað satt í því, að það er að sumu leyti ódýrara að lifa á Akureyri en í Reykjavík. Tveir skólar verða ávalt kostnaðarsamari en einn, þótt stór sje, og ætli það mundi ekki einnig vera hægara og ódýrara að fá kennara til eins stórs skóla en tveggja, þó minni sjeu?

Það er enginn efi á því, að fátækum latínuskólanemendum væri meiri hagnaður í því að hafa einn góðan heimavistarskóla, þó hann væri í Reykjavík, en þótt þessi Akureyrarskóli kæmist á fót. Það mun og sannast, að þetta mál hefir ekki óskift fylgi á Norðurlandi; þrátt fyrir það, hvað það hefir verið flutt einhliða, bæði í ræðu og riti, veit jeg, að margir Akureyrarbúar vilja ekki stofna lærðan skóla á Akureyri á kostnað gagnfræðamentunarinnar. Jeg talaði við einn merkan borgara þar í dag, og sagðist hann ekki vilja trúa því, að þetta næði samþykki þingsins, enda veit jeg, að þeir munu verða fáir alls á landinu, sem mundu vilja láta leggja út í þennan kostnað.

Margar voru ástæður hv. flm. (ÞorstJ) fyrir frv., og allar rýrar, en þó einna ljelegust sú, að okkur vantaði menn til að standa fyrir verklegum framkvæmdum, Við höfum nóga menn til að standa fyrir verklegum framkvæmdum, nema ullarverksmiðjum. Er nú þörf á að fara að stofna lærðan skóla á Akureyri til þess að undirbúa þessa tvo menn, sem til þess mundi þurfa að veita forstöðu væntanlegum ullarverksmiðjum hjer? Jeg hygg, að það hefði þá verið heldur betra að veita þessar 8 þús. kr., sem stjórnin bað um í því skyni.

Hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) sagðist ekki vera þessu frv. fylgjandi af hjeraðskrit, og trúi jeg því vel. Hann lagði sjerstaka áherslu á það, hversu Akureyri væri lík og sveitirnar, og að foreldrar vildu ekki vita af börnum sínum í sollinum í Reykjavík. Þetta er lítil ástæða; foreldrar verða líklega allflestir að sætta sig við að sjá einhvern tíma af börnum sínum, og það oft í hættulegri staði en Reykjavík, t. d. eitthvað út yfir pollinn. Enda efast jeg um, hversu holt það er unglingum að vera haldið of lengi heima; það ætla jeg vera þeim betra til þroska, að hafa farið eitthvað að heiman áður en þau leggja út í lífið fyrir fult og alt; munu þau þá betur standast þær freistingar, er þeim kunna að mæta, ef þau hafa fengið einhverja reynslu af lífinu áður. Ef bygt væri á þessari skoðun háttv. þm., þá ætti að flytja alla skóla úr Reykjavík út land.

Hjer á landi eru tækifærin til allra hluta bæði fá og smá, saman borið við það sem á sjer stað erlendis; nær það því engri átt, að um 40 stúdentar leggi út í lífið á ári hverju. Og litla nauðsyn sje jeg til þess, að hjer verði margir háskólamentaðir bændur; væri þeim mönnum betra að hafa áður lagt stund á einhver verkleg fræði.